Við lifum í upplýsingasamfélagi. Allir geta nálgast upplýsingar um allt á netinu. Þetta er ein ástæðan fyrir því að mikilvægt er að kenna grunnskólanemendum að bera virðingu fyrir hugmyndum, textum og myndum annarra og gera rétta grein fyrir þessu efni þegar þeir nota það í eigin verkum.
Í Stapaskóla kennum við nemendum að nota APA kerfið við frágang tilvitnana, tilvísana og heimilda. Við nýtum Ritver Háskóla Íslands sem uppflettirit og leggjum áherslu á að nemendur nýti það vel.
Við mælum með að byrjað sé að kenna nemendum um heimildanotkun snemma og að það sé gert í skrefum. Í 5.-6. bekk er hægt að byrja að kenna um ritstuld og mikilvægi þess að geta heimilda. Smám saman er síðan hægt að kenna þeim að endurorða texta, skrifa beinar og óbeinar tilvitnanir og að lokum að setja tilvísanir og heimildaskrá upp samkvæmt APA kerfinu.