Námsefni í stafrænni borgaravitund

Hjálpum nemendum að vera ábyrgir netnotendur

Allir nemendur þurfa að búa yfir færni til að geta fótað sig í stafrænum heimi. Á þessum vef má finna samantekt á leiðbeinandi efni á íslensku sem hægt er að styðjast við í kennslu nemenda í stafrænni borgaravitund (e. digital citizenship). Efnið er sett fram eftir árgöngum.

Í kaflanum "Fyrir alla árganga" eru viðfangsefni og viðmið sem hæfa fleiri en einum aldurshópi og er kaflinn hugsaður sem grunnur til notkunar samhliða árgangaköflunum. Þar eru dregnar fram helstu áherslur á hverju aldursstigi og leiðbeinandi efni lagt fram um umgengni við tæknina í skólastofunni. 

Verkefnin eru að stórum hluta þýtt námsefni frá Common Sense education sem Sæmundur Helgason þýddi en það byggir á nýjustu rannsóknum um hverja námsstoð. Námsstoðirnar eru sex talsins og á þessum vef fylgjum við þeim. Sæmundur útskýrir þetta nánar í þessu myndbandi.

1. Jafnvægi í stafrænni notkun og vellíðan (e. Media balance & well-being), 

2. Friðhelgi og öryggi (e. Privacy & security), 

3. Stafrænt fótspor og auðkenni (e. Digital footprint & identity), 

4. Sambönd og samskipti (e. Relationship & communication), 

5. Neteinelti, stafræn vanlíðan og hatursorðræða (e. Cyberbullying, digital drama & hate speech)

6. Frétta og miðlalæsi (e. News & media literacy).


Á vef Common Sense má sjá yfirlit námskrár í stafrænni borgaravitund sem Sæmundur hefur snarað á íslensku, sjá hér.


“Þjálfa þarf hvern nemanda markvisst í upplýsinga- og miðlalæsi alla skólagönguna. Samhliða nýtingu upplýsinga- og samskiptatækni á Netinu er nauðsynlegt að þeir þekki helstu reglur um örugg samskipti á stafrænum miðlum og höfundarétt. Þeir eiga jafnframt að virða siðferði í meðferð upplýsinga og heimilda og sýna víðtæka hæfni í notkun tækni og miðlunar.

Nemandi þarf að búa sig undir virka þátttöku í nærsamfélagi jafnt sem alþjóðasamfélagi, þar sem samskipti, samvinna og alþjóðatengsl gegna mikilvægu hlutverki. Nemandi þarf að þekkja helstu leiðir að öruggum netsamskiptum og standa vörð um gott siðferði í öllu námi. Með því að veita hverjum nemanda heildstæða sýn og þjálfun í vinnubrögðum, í tengslum við flest svið samfélagsins, s.s. vísindi, listir og fræði, eykst hæfni hans til að bregðast við síbreytilegu umhverfi” (Aðalnámskrá grunnskóla bls. 225).

"Með tímanum hafa hugmyndir manna um læsi breyst. Læsi snýst að mestu um kerfisbundin tákn og miðlunartækni en hafa ber í huga að hún snýst fyrst og fremst um merkingarsköpun og að hún á sér aldrei stað í tómarúmi. Stafræn tækni hefur breytt því umhverfi þar sem tölvur og stafræn samskiptatæki teljast ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks m.a. í skólastarfi. Nemendur og kennarar geta nú notað fleiri mál við nám og kennslu. Aðstæður hafa skapast fyrir stafrænt læsi á orð, ljósmyndir, kvikmyndir, útvarpsþætti (hlaðvörp) og á vef "Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast við á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á" (Aðalnámskrá grunnskóla, 2011, bls. 18-19).