Kennsluráðgjafar í upplýsingatækni á Menntasviði Kópavogsbæjar tóku saman efnið á þessum vef. Verkefnin eru að stórum hluta þýtt námsefni frá Common Sense education sem Sæmundur Helgason grunnskólakennari þýddi en það byggir á nýjustu rannsóknum um hverja námsstoð. Námsstoðirnar eru sex talsins hjá Common Sense education og á þessum vef er þeim fylgt.
Kennsluverkefnum mun fjölga jafnt og þétt eftir því sem fleiri íslensk verkefni líta dagsins ljós, en eitt af því sem samstarf Menntasviðs við Saft, Heimili og skóla og Menntavísindasvið Háskóla Íslands snýst um er að halda áfram að þýða náms- og stuðningsefnið á vef Common Sense education.
Viðmið fyrir gerð skólanámskrár í stafrænni borgaravitund samhliða kennsluverkefnum vefsins eru í vinnslu og munu birtast hér á vefnum ásamt dæmum um metanleg hæfniviðmið sem skólarnir geta nýtt sér við skólanámskrárgerð í stafrænni borgaravitund.
Menntasvið Kópavogsbæjar mun standa fyrir námskeiðum fyrir kennara samhliða vefnum í samstarfi við Saft, Heimili og skóla og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Að auki er í pípunum samstarfsverkefni um kennslu í mynda- og miðlalæsi við Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Menntasvið Kópavogsbæjar heldur úti öðrum vef sem fjallar almennt um upplýsingatækni í grunnskólum.
Öllum er heimilt að nýta efnið á þessum vef svo framarlega að getið sé heimilda.