A
Í upphafi málsgreina er alltaf stór stafur. Það er stór stafur á eftir punkti, tvípunkti, spurningamerki og upphrópunarmerki.
Dæmi: Þessi málsgrein byrjar á stórum staf. Allar málsgreinar eiga að byrja á stórum staf.
Sérnöfn byrja á stórum staf. Þetta eru nöfn á einstaklingum, mönnum, dýrum, stöðum, fyrirtækjum og fleira.
Dæmi: Anna María, Snati, Laugavegur, Keilir, Háskóli Íslands, Eimskip.
Nöfn heimsálfa, landa og landshluta eru skrifuð með stórum staf.
Dæmi: Evrópa, Ísland, Austurland, Egilsstaðir.
Nöfn þjóða og íbúa þeirra eru skrifuð með stórum staf.
Dæmi: Ísland, Íslendingar, Kína, Kínverjar.
Nöfn hátíða er bara skrifað með stórum staf ef heiti þeirra byrjar á sérnafni.
Dæmi: Jónsmessa, Þorláksmessa.
Stór stafur er í viðurnefnum sem koma fram fyrir framan nafn persónunnar og tengjast því með bandstriki.
Dæmi: Skalla-Grímur, Skáld-Rósa, Innri-Njarðvík.
Stórir stafir eru notaðir þegar heiti eru stytt eða skrifuð sem skammstöfun.
Dæmi: Kvennó, ASÍ, HÍ, ESB.
a
Lítill stafur er notaður nema regla segi að það eigi að nota stóran staf.
Dæmi: Í þessari málsgrein er bara fyrsti stafurinn í fyrsta orðinu skrifað með stórum staf, allir aðrir bókstafir eru litlir.
Öll samnöfn eru skrifuð með litlum staf.
Dæmi: stóll, hugmynd, ást, hendur
Öll tegundaheiti, t.d. dýra- og jurtaheiti eru skrifuð með litlum staf. Athugið að þetta á líka við þótt tegundaheitið byrji á mannanafni.
Dæmi: hundur, fíll, afrískur fíll, blóm, sóley, baldursbrá og jakobsfífill.
Nöfn daga og mánaða eru skrifuð með litlum staf.
Dæmi: mánudagur, apríl, góa.
Nöfn á hátíðum eru með litlum staf (nema sérnafn komi fram í upphafi orðsins, sjá reglur um stóran staf).
Dæmi: jól, páskar, sumarsólstöður, hanukkah, ramadan.
Heiti trúarbragða, lífsskoðana og viðhorfa eru með litlum staf. Sama gildir um heiti þeirra sem fylgja trú eða viðhorfi.
Dæmi: kristni, islam, hindu, siðmennt, mannúðarsinni, frjálshyggja, kommúnismi, múslimi, kommúnisti.
Orð sem lýsa þjóðerni, tungumáli eða mállýsku eru skrifuð með litlum staf.
Dæmi: sænskur, sænska, norðlenska, flámæli.
Viðurnefni fólks er skrifað með litlum staf (nema sérnafn komi fram í upphafi orðsins, sjá reglur um stóran staf)
Dæmi: Auður djúpúðga, Einsi kaldi.