Orðin sem við skiljum eru forsenda hugsunar okkar, tungumáls og samskipta. Orðaforði er mjög mikilvægur svo að einstaklingur geti átt ríkuleg samskipti og náð góðum árangri í námi: Bóklegu, verklegu og félagslegu. Á Læsisvefnum er bent á nokkrar góðar aðferðir til að þjálfa orðaforðann og sömuleiðis hjá Orð af orði og Miðju máls og læsis.
Það er sérstaklega mikilvægt að kenna það lag orðaforðans sem kallað er almennur námsorðaforði. Nálgast má lista með þessum orðum og skýringar á mikilvægi hans hjá Miðju máls og læsis.
Hér fyrir neðan má nálgast fleiri hugmyndir og verkefni.
Höfum orðaforða sýnilegan í skólastofunni!
Hengjum upp þau orð sem unnið er með hverju sinni.
Leyfum nemendum að taka þátt í að velja hvaða orð unnið er með og hengd upp á veggi.
Tökum frá svæði þar sem nemendur hengja upp orð sem þeim finnast skemmtileg, athyglisverð, mikilvæg, fyndin...
Tökum frá svæði þar sem við úthýsum orðum t.d. þeim sem eru ofnotuð eða óviðeigandi. Á þessum svæðum er mikilvægt að gera orðin "ósýnileg", t.d. með því að hafa ruslafötu þar sem hægt er að henda miðum með óviðeigandi orðum.