Það er mikill kostur að unglingar hafi val um bækur og fái tækifæri til að ræða efni þeirra við félaga sem eru að lesa sömu bók. Við reynum því að skipuleggja bókmenntalestur nemenda í bókaklúbbum frekar en að láta stóra hópa lesa sömu bókina á sama tíma.
Bókaklúbbar eru góð leið til að ýta undir áhuga unglinga á lestri og hægt er að skipuleggja þá á margvíslegan hátt:
Nemendur hafa val um hvaða bækur þeir velja, þeir sem velja sömu bók eru saman í bókaklúbbi.
Nemendur hafa val um hópfélaga sem velja þá saman bókina sem er lesin.
Bókaklúbbur hittist tvisvar í viku, 20-30 mínútur í senn. Kennari setur litla verkefnalýsingu fyrir hvern fund og áhersla er lögð á að nemendur ræði saman efni bókarinnar eða ákveðna atburði í sögunni. Dæmi um verkefni á fundum hópa má skoða hér.
Þegar bókaklúbbur hefur lokið við lestur bókar geta nemendur unnið lengri verkefni, t.d. bókmenntaritgerð um bókina, eða bara fundið sér næstu bók að lesa.
Við höfum lært margt um bókaklúbba af Pernille Ripp sem er frábær kennari og hafsjór af reynslu. Lesið til dæmis stutta grein frá henni um bókaklúbba ef þið viljið skoða málið betur.
Veturinn 2021-2022 kenndi Stapamix teymið 8.-10. bekk íslendingasögur með því að leyfa nemendum að velja sér bók og vinna með hana í umræðuhópi.
Lýsing á verkefnavinnunni er hér.
Haustið 2022 fengu nemendur í 8.-10. bekk val milli sex bóka sem þeir lásu í bókaklúbbum.
Lýsing á verkefnavinnu er hér.