Fluguhnýtingar og stangveiði fyrir 8. – 10. bekk

Námskeiðið samanstendur af hinum ýmsu þáttum stangveiðinnar. Í fluguhnýtingum er nemendum kennd undirstöðuatriðin og gerðar nokkrar algengar laxa- og silungaflugur. Lokaverkefnið er svo að hanna sína eigin flugu. Í stangveiði fara nemendur í kastkennslu með flugustöngum. Einnig fá nemendur fræðslu um allan þann búnað sem fylgir fluguveiði sem og hvernig á að umgangast náttúruna og íbúa vatna og áa. Þá vinna nemendur verkefni um veiðisvæði að eigin vali.

Kennslan verður nokkuð lotubundin því farið verður í tvær veiðiferðir sem dekka töluverðan hluta tímafjölda námskeiðsins. Gera má ráð fyrir að bóklegir tímar verði annaðhvort hálfsmánaðarlega eða vikulega á fyrirfram ákveðnum tíma yfir önnina.

Námsmat verður byggt á verkefnavinnu, lokaverkefni í fluguhnýtingum, virkni og þátttöku nemenda.

Æskilegast er að nemendur sem sækja námskeiðið hafi aðgang að flugustöngum og helst einnig öðrum veiðibúnaði.

Greinin hefur aðsetur í Brekkuskóla á þriðjudögum á vorönn.