Hæfniviðmið segja til um hvað nemendur eiga að hafa lært við ákveðin tímamót. Þau er að finna í Aðalnámskrá grunnskóla, sem skólum landsins ber að kenna eftir.
Það er nauðsynlegt/gott að brjóta hæfniviðmið niður í smærri viðráðanlegri einingar. Þær einingar eru kallaðar námsmarkmið.
Námsmarkmið er lýsing á því sem nemendur eiga að vita, skilja eða geta gert í lok tímabils eða verkefnis, námsmarkmið eru undir hæfniviðmiðum.
Viðmið um árangur: er mælikvarði til að meta hvort og hversu vel nemendur hafa náð markmiðum. Árangursviðmið draga saman það helsta sem nemendur þurfa að gera til að ná námsmarkmiðinu. Nemendur þurfa að vita hvað þeir eiga að læra (hvaða hæfni þeir eiga að tileinka sér) í tímanum/lotunni/verkefninu og vita hvernig vinna þeirra verður metin.
Matsviðmið:Í aðalnámskránni eru sett fram matsviðmið við lok grunnskóla fyrir einstakar námsgreinar og námssvið. Matsviðmiðin eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu. Matskvarðinn er skilgreindur sem sex einkunnir: A, B+, B, C+, C og D. Lýsingar á matsviðmiðum standa á bak við einkunnirnar A, B og C.
Matsviðmið fyrir B eru byggð á hæfniviðmiðum sem skilgreind eru í aðalnámskrá og framsetning þeirra er með þeim hætti að gera má ráð fyrir að þorri nemenda nái þeirri hæfni. Einkunnina A fá þeir sem sýna framúrskarandi hæfni og einkunnina C fá þeir sem standast ekki þær kröfur sem gerðar eru í B einkunnar viðmiðum. D einkunn lýsir hæfni í námi sem nær ekki viðmiðum sem lýst er í C einkunn. B+ notuð þegar hæfni nemenda er sambærileg þeirri lýsingu sem á við einkunnina B, þ.e. nemandi hefur náð öllum viðmiðum einkunnarinnar B og að hluta til þeirri lýsingu sem á við einkunnina A. Sama á við um einkunnina C+. Þar hefur nemandi náð að hluta til þeim viðmiðum sem einkunnin B kveður á um en öllum viðmiðum einkunnarinnar C.
Ef hæfnikortið er allt (eða næstum allt) blátt (framúrskarandi) hefur nemandinn náð framúrskarandi tökum á þeirri hæfni sem ætlast er til að hann búi yfir í lok vetrar miðað við jafningja og eigin forsendur. Athugið að nemandi með framúrskarandi hæfni getur ekki verið með rautt, gult né fjólublátt í kortinu sínu. Samantekt á hæfni nemandans er þá “A” eða framúrskarandi hæfni auk umsagnar þar sem það á við.