Markmið
Megintilgangur náms og kennslu í ensku á að veita nemendum tækifæri til að rækta með sér tilfinningu fyrir félagslegum og menningarlegum aðstæðum hjá öðrum þjóðum. Námið á að stuðla að því að nemendur sjái sig sem hluta af og jafnoka í alþjóðasamfélagi og auka vitund þeirra um þau tækifæri sem felast í því að hafa vald á erlendum tungumálum og ríkulegum tungumálaforða.
Megintilgangur náms og kennslu í erlendum tungumálum er að nemendur öðlist alhliða hæfni til að nota tungumálið sem lifandi verkfæri í fjölbreyttum tilgangi og við ólíkar aðstæður.
Kunnátta í ólíkum tungumálum gegnir mikilvægu hlutverki í vitsmunaþroska einstaklingsins, eykur víðsýni, stuðlar að þroska á öðrum sviðum og möguleika á þátttöku í alþjóðlegum samskiptum. Kunnátta í erlendum tungumálum og kynni af öðrum þjóðum og tungumálum opna gáttir að fjölbreyttum menningarheimum, eykur víðsýni, skilning og virðingu gagnvart öðrum og fjölbreyttum aðstæðum og lifnaðarháttum og stuðlar þar með að betri skilningi á eigin menningu og friðsamlegum og lýðræðislegum samskiptum.
(Aðalnámskrá grunnskóla)