Í bland í poka eða BÍP er megin áhersla lögð á samþættingu námsgreina á unglingastigi.
Markmiðið er að nemendur vinni í hóp- og einstaklingslega að hæfniviðmiðuðum verkefnum.
BÍP þemavikur eru u.þ.b. 6 sinnum yfir skólaárið.
Þessar vikur er stundatöflu nemenda breytt og allir bóklegir tímar í töflu eru settir í BÍP. Nemendur mæta eftir sem áður í íþróttir og sund, list- og verkgreinar, val og umsjón.
Notast er við fjölbreyttar kennsluaðferðir til þess að reyna að koma til móts við sem fjölbreyttastan hóp nemenda.
Almennt er skipulagið þannig að kennarar leggja inn ákveðið efni á ýmsa vegu, t.d. með hefðbundinni innlögn, leikjum, myndbandi, samlestri eða á annan veg. Að innlögn lokinni vinna nemendur skylduverkefni og valverkefni sem tilheyra lotunni - þemanu.
Öll verkefni eru skipulögð út frá hæfniviðmiðum þeirra námsgreina sem samþættar eru hverju sinni en einnig hafa nemendur oft tækifæri til að hafa áhrif á hvaða hæfniviðmið skuli meta með því að búa til sitt eigið verkefni.
Í allri BÍP vinnu reynir á lykilhæfni nemenda. Nemendur þurfa að vera skipulagðir, nýta margvíslega miðla í upplýsingaleit, úrvinnslu og miðlun. Einnig þurfa nemendur að vera skapandi í hugsun, sýna frumkvæði og áræðni. Síðast en ekki síst reynir á hæfni nemenda til að bera ábyrgð á eigin námi, vinna sjálfstætt, í samstarfi við aðra og undir leiðsögn.
Námsmatið í BÍP birtist á hæfnikortum nemenda í viðkomandi námsgreinum hverju sinni og hefur því áhrif á heildarmat/lokamat á hæfni nemenda í þeim greinum.
Nemendur fá lokið/ólokið fyrir hverja lotu og merkt er við þau hæfniviðmið sem unnið er með í lotunni auk þeirra viðmiða sem nemandinn gæti hafa óskað eftir að kennari meti, í gegnum skyldu- og valverkefni.