Námslýsing: Stærðfræði - grunnur er fyrir nemendur sem hafa ekki náð nægjanlega góðum tökum á undirstöðuatriðum stærðfræðinnar og vilja bæta stöðu sína í faginu. Einnig er þetta valfag ætlað nemendum sem þurfa aðstoð við heimanám í stærðfræði. Aðaláhersla verður lögð á að þjálfa grunnatriði í talnafræði, rúmfræði og algebru.
Kennsluaðferðir: Áhersla er lögð á virkni í tímum og verkefnavinnu. Mikil áhersla er lögð á að nemendur þjálfi leikni, auki skilning og ánægju af vinnu með stærðfræði. Unnið verður í litlum hópum og reynt verður að nálgast þarfir sérhvers nemanda eins og kostur er. Unnið er með öll helstu grunnatriði stærðfræðinnar svo sem röð reikniaðgerða, heilar tölur og brot, margföldun, deilingu, undirstöðuatriði rúmfræði og grundvallaratriði algebru. Unnið verður markvisst með kennsluforrit í þeim tilgangi að auka færni nemenda, dýpka skilning, auka leikni og sjálfstraust. Próf eru ekki lögð fyrir í þessum valáfanga.
Námsmat: Námsmat er símat yfir veturinn og tekur mið af eftirfarandi þáttum: Virkni í kennslustundum, vinnusemi, sjálfstæði og samvinnu. Að jafnaði er heimavinna ekki sett fyrir í þessum valáfanga. Kennslugögn sem skólinn útvegar: Valin verkefni úr Almennri stærðfræði 1, 2 og 3, ítarefni frá kennara og ýmis kennsluforrit.
Kennslustundafjöldi: 2 kennslustundir á viku allan veturinn.