Mikilvægt er að nýkomnir nemendur fái tungumálakennslu við hæfi. Lög um grunnskóla kveða á um að þeir eigi rétt á sérstakri kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Í aðalnámskrá grunnskóla segir að markmið með kennslunni séu að nemendur tileinki sér og læri íslensku þannig að þeir geti stundað alhliða nám í íslensku skólastarfi með jafnöldrum og tekið virkan þátt í samfélaginu. Nemendur fylgja hæfniviðmiðum í íslensku sem öðru tungumáli í tvö til fjögur ár. Eftir það fylgja þeir aðalnámskrá í íslensku samkvæmt aldurstengdum viðmiðum.
Hversu gamall sem nemandinn er þegar hann hefur nám í grunnskóla þarf alltaf að byrja á að kenna honum grunnorðaforða. Það er sá orðaforði sem börn læra fyrst á máltökuskeiðinu. Orð eins og: stelpa, strákur, kisa, mamma, bíll og svo framvegis. Menntamálastofnun gaf út Orðaforðalista árið 2017 þar sem finna má dæmi um mikilvægan grunnorðaforða sem gott er fyrir nemandinn að hafa á valdi sínu sem undirstöðu fyrir vaxandi mál- og lesskilning. Nemandinn tileinkar sér þennan orðaforða ekki sjálfkrafa nema að litlu leiti. Þess vegna er mikilvægt að kenna hann með markvissum og skipulögðum hætti eins og þann orðaforða sem á eftir kemur en fræðimenn hafa skipt orðaforða í þrjú lög. Fyrsta lags orðaforða sem byggir á grunnorðaforða. Millilagsorðaforða sem eru orð sem koma sjaldnar fyrir í daglegum samræðum en eru algeng í bókum og tilheyra t.d. námsorðaforða. Þetta eru til dæmis huglæg orð og hugtök, samheiti algengra orða, margræð orð, orðtök, orðatiltæki og málshættir. Að síðustu er það svo efsta lag orðaforðans sem eru sértæk orð námsgreina sem tengjast til dæmis ákveðnu viðfangsefni eða fræðasviði, þetta geta verið orð á borð við flekaskil, himnuflæði og ísótópar.
Heimild: Bryndís Gunnarsdóttir.
MÁLSTEFNA
Í málstefnu felst sú stefna sem fylgt er í skóla varðandi málnotkun. Málstefna tengist hugmyndum, viðhorfum og væntingum til tungumála og þar koma fram samræmdar reglur og skráðar og óskráðar venjur um meðferð þeirra. Í aðalnámskrá grunnskóla kemur fram að:
Æskilegt er að skólar og frístundaheimili móti sér tungumálastefnu sem leiðarljós fyrir starfsfólk og nemendur í daglegu starfi og samskiptum. Taka skal mið af núgildandi lögum, stefnum, aðalnámskrám og alþjóðlegum skuldbindingum. Við mótun tungumálastefnu er mikilvægt að starfsfólk ígrundi í sameiningu hvernig unnið er með fjölbreytt tungumál og komi sér saman um þær áherslur sem eiga að vera ríkjandi. Í tungumálastefnu þarf að koma fram með hvaða hætti er unnið með tungumál í samskiptum og daglegu starfi og hvaða leiðir eru nýttar til að nýta tungumálaforða nemenda sem best ásamt því að virkja og viðhalda áhuga allra nemenda á fjöltyngi.
Einnig kemur þar fram að:
Ábyrgð á íslenskunáminu hvílir á skólastjórnendum, umsjónarkennurum, íslenskukennurum og kennurum allra námssviða sem þurfa að vinna saman til að námið verði markvisst. Eins er brýnt að allt starfsfólk sem kemur að námi eða frístundastarfi nemendanna sé upplýst um hæfni þeirra í íslensku og taki þátt í að styðja við námið. Foreldrar bera ábyrgð á að styðja við íslenskunám barna sinna og að rækta og þróa eigið móðurmál til að stuðla að virku fjöltyngi.
Í Leiðarvísi um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi í skóla og frístundastarfi er að finna leiðir og hagnýtar hugmyndir um stuðning við móðurmál og virkt fjöltyngi. Leiðarvísirinn nýtist mjög vel í vinnu við mótun tungumálastefnu skóla og frístundaheimila.
Í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði innritast á hverju ári þónokkuð margir nemendur sem eru nýkomnir til landsins. Þar er einnig Bjarg sem er móttökudeild fyrir nemendur í leit að alþjóðlegri vernd. Nemendur hefja nám hvenær sem er á skólaárinu og veldur það ákveðnu flækjustigi í skipulagningu og kennslu. Til að bregðast við þessu var ákveðið var að fara af stað með þróunarverkefni skólaárið 23 – 24 sem kallað er Hringekjan. Hringekjan snýst um að auka gæði og markvissa kennslu nýkominna nemenda í íslensku sem öðru máli. Hringekjan er úrræði sem tryggir öllum nýkomnum nemendum markvisst nám í grunnorðaforða í íslensku í stærri hópum og úrræðið er til staðar hvenær sem nemandinn hefur nám á skólaárinu.
Rannsóknir sýna að nemendur sem fá markvissa beina kennslu í öðru tungumáli í sérstökum kennslustundum sýna fimm sinnum betri árangur en þeir sem fá hana ekki en nýttu þess í stað þætti eins og ílag eða áreiti frá umhverfinu til að læra málið. (Anna Guðrún Júlíusdóttir. 2017. Fagleg sjálfsrýni).
Í Hringekjunni er lögð áhersla á að kenna grunnorðaforða á forstigi og 1. stigi samkvæmt aðalnámskrá, með áherslu á talað mál og hlustun. Hringekjan er hugsuð sem tímabundið námskeið þar sem nemendur fá þétta og markvissa kennslu í íslensku. Nemendur mæta því í tvær samliggjandi kennslustundir á dag eða alls tíu stundir á viku í 12 vikur. Nemendum er skipt í tvo hópa: Yngri nemendur 2. – 4. bekkur og eldri nemendur 5. – 10. bekkur. Samkennsla er nauðsynleg í Hvaleyrarskóla til að ná fram samlegðaráhrifum en kostar þær fórnir að nemendur missa úr öðrum tímum á meðan. Það getur þýtt að ef nemandi á t.d. að vera í íþróttum á sama tíma og Hringekjan og þá falla íþróttirnar niður í þessar 12 vikur. Það þykir hins vegar ásættanlegur fórnarkostnaður þar sem litið er á það sem forgangsmál að gera nemendur sjálfbjarga í íslensku og þar með auka líkur á að þeir geti tekið virkari þátt í skólastarfinu og flýtt fyrir inngildingu. Eins styður það við lestrarkennslu ólæsra nemenda að leggja inn orðaforða hratt og vel þar sem nemendur þekkja þá og skilja orð sem þeir lesa. Eiginleg lestrarkennsla fór ekki fram í Hringekjunni en það er ekkert sem mælir á móti því en það kallar á fleiri tíma á degi hverjum. Lestrarkennsla og ritun fór því að mestu leyti fram í öðrum kennslustundum.
Í hverri viku er tekið fyrir ákveðið þema og unnið með orðaforða sem tengist þemanu. (Sjá kennsluskipulag hér að neðan). Lögð er áhersla á fjölbreyttar kennsluaðferðir og verkefni, allt frá innlögn og utnabókarlærdómi til skapandi aðferða. Heimanám er með þeim hætti að orðum vikunnar er skipt niður á daga og nemendur læra þau heima, auk þess sem þeir fóru heim með ítarefni eins og bækurnar Ég vil læra íslensku.
Hringekjan rúllar nokkrum sinnum yfir skólaárið og geta nemendur byrjað hvenær sem er á 12 vikna tímabilinu. Nemandi sem kemur t.d. inn á fjórðu viku byrjar á námsefni þeirrar viku og heldur svo áfram þar til að hann lokar hringnum og lýkur námi sínu á þriðju viku. Þegar nemendur ljúka Hringekjunni fara þeir í íslensku sem annað tungumál. Nemendur sem ekki hafa náð tilskilinni færni býðst að fara annan hring.
Í Hvaleyrarskóla eru stundatöflugerð hagað þannig að íslenskukennsla tveggja árganga, t.d. 4. og 5. bekkjar liggja á sama stað í stundatöflu. Þar með er unnt taka nemendur tveggja árganga saman út úr íslenskutímum og kenna þeim íslensku sem annað tungumál á sama tíma og aðrir nemendur í bekkjunum læra íslensku. Hafa ber í huga að Hringekjan er ekki fullkomin lausn frekar en aðrar lausnir á því margslungna og flókna verkefni sem kennsla íslensku sem annað mál er. Um er að ræða tilraun til að bjóða upp á byrjendanámskeið sem miðar að því að koma til móts við nýkomna nemendur með markvissri kennslu í grunnorðaforða, með áherslu á talað mál og hlustun og leysa í leið þann skipulagsvanda sem upp kemur þegar nýkomnir nemendur koma inn í skólann eftir að skólaárið er hafið. Helstu ókostir Hringekjunnar eru að nemendur missa úr öðrum tímum og tryggja þarf nemendum sem ekki eru læsir lestrarkennslu í öðrum tímum nema að tímum í Hringekju sé fjölgað.
Hér er krækja í Hringekju-kennsluskipulagið og hugmyndir að verkefnum. Skjalið opnast sem word-skjal og því er hægt að aðlaga það, breyta og bæta eins og hverjum og einum hentar.
GAGNLEGIR TENGLAR
Grein eftir Bryndísi Gunnarsdóttur sem fjallar um milvægi orðaforða og málþroska.
Orðaleikur - Handbók (google.com)
Leidarvisir um studning vid modurmal_islenska.pdf (stjornarradid.is)