Í fjölmenningarlegu samfélagi er litið á fjölbreytileika sem sjálfsagðan hlut og lögð er áhersla á inngildingu (e. inclusion). Inngilding felur í sér að viðurkenna og virða fjölbreytileikann og gera alltaf ráð fyrir honum. Inngilding snýr að því að virkja allt fólk til þátttöku og gefa fjölbreyttum hópi fólks kleift að taka þátt í ákvarðanatöku.
Fullgildi (e. belonging) felur í sér að allir finna sig í samfélaginu, þar sem við sem einstaklingar fáum að þroskast og dafna á eigin forsendum.
Börn í íslenskum leik- grunnskólum og frístundastarfi tala fleiri en 100 tungumál. Börn af erlendum uppruna eru um 26% barna í grunnskóla. Í fjölmenningarlegu samfélagi er litið á fjölbreytileika sem sjálfsagðan hlut og lögð er áhersla á inngildingu. Þar sem inngilding ríkir upplifa allir að þeir tilheyri og fái tækifæri til þess að leggja sitt af mörkum á sama tíma og áhersla er lögð á að varðveita sérstöðu hvers og eins.
Öll börn og ungmenni eiga rétt á því að vera í skóla án þess að vera mismunað og að upplifa öryggi, viðurkenningu og hlutdeild.
Inngilding í kennslu er mikilvægur þáttur í að skapa umhverfi sem er öruggt, stuðlar að jafnrétti og börn upplifa að þau séu velkomin. Þegar kennarar taka á móti barni með rofna skólagöngu er mikilvægt fyrir þá að vera vel undirbúnir þannig að barnið fái jákvæða upplifun af skólanum. Fyrst og fremst er mikilvægt að hafa þekkingu á reynslu barnsins og hvernig hún getur haft áhrif á barnið í skólaumhverfinu. Þess vegna er mikilvægt að byrja á að leggja fyrir stöðumat. Þar fá kennarar tækifæri til þess að kynnast styrkleikum og áhugamálum barnsins. Þannig er hægt að aðlaga skólastarfið að þörfum barnsins og stuðla að því að upplifunin sé þægilegri og skemmtilegri.
Inngildandi starf felur í sér umhverfi fyrir börn og ungmenni af erlendum uppruna og/eða með flóttabakgrunn þar sem þau upplifa:
• að þau séu velkomin
• að þau séu virkir þátttakendur
• að þau tilheyri
• að þau eigi hlutdeild
• að þau séu örugg
• að þau séu frjáls frá fordómum og hatursorðræðu
• að á þau sé hlustað
• að þau taki þátt í ákvörðunartöku
• að þau njóti sömu virðingar og önnur börn og ungmenni
• að hæfni og styrkleikar þeirra njóti sín
Hvernig verð ég inngildandi í kennslu?
Ef við viljum réttlátari heim þar sem fólk í jaðarsettri stöðu fær meira pláss, sterkari rödd og sömu tækifæri og aðrir til þess að ná markmiðum sínum, þá þurfum við að velta okkar eigin hlutverki og ábyrgð fyrir okkur.
Allir geta og eiga að vera inngildandi leiðtogar.
Það er engin endastöð. Um er að ræða ferli sem tekur ekki enda.
Við erum mögulega á mismunandi stað í ferlinu á hverjum tíma – og það er eðlilegt!
Hvernig er umhverfið?
Er stefna um inngildingu og fjölmenningu til staðar?
Er fræðsla um inngildingu og fjölmenningu fyrir starfsfólk aðgengileg og/eða regluleg?
Er ákvarðanataka í höndum hóps sem endurspeglar fjölbreytileika samfélagsins?
Er viðbragðsáætlun við fordómum, kynþáttaníði og mismunun til staðar?
Er auðvelt að tilkynna fordóma, kynþáttaníð og mismunun?
Er stuðlað að menningu sem líðir alls ekki fordóma, kynþáttaníð og mismunun?
Er tekið tillit til mismunandi menningarlegra og trúarlegra hátíða þegar dagskrá starfseminnar er búin til?
Endurspeglast mikilvægar menningar- og trúarhátíðir þátttakenda í opinberu dagatali/stundatöflu?
Er öllum menningar- og trúarhátíðum gert jafn hátt undir höfði?
Er stuðlað að sýnileika?
Geta öll börn og ungmenni speglað sig í einhverjum fullorðnum?
Er fjölbreytileiki í efni sem er notað á miðla?
Er fjölbreytileiki í því sem hangir á veggjum?
Hvernig lítur skólinn út?
í kennslunni er gott að leggja áherslu á að nota fjölbreyttar kennsluaðferðir og nálganir til þess að stuðla að því að barnið geti náð markmiðum sínum á sem bestan mögulegan hátt. Það er mikilvægt að veita barninu stuðning og hvata til að prófa nýja hluti og aðstæður.
Það er líka gott að huga að andrúmsloftinu í bekknum. Hvernig sýna nemendur samkennd og stuðning við bekkjarfélaga? Það getur verið gott að setja upp félagslegar æfingar eða verkefni sem hvetja til samvinnu og vinskapar í bekknum.
Væntingar til nemenda skipta máli. Mikilvægt er að nemandinn finni fyrir miklum væntingum til sín frá fjölskyldu, kennurum og samfélaginu. Tilurð fyrirmynda geta einnig breytt aðstæðum barna með rofna skólagöngu frá útilokun til inngildingar. Veltu fyrir þér hvernig hægt er að virkja fjölskyldu þeirra þannig að þeir verði virkir þátttakendur í námi barna sinna og þau upplifi sig velkomna í skólann.
Skapaðu kennslustofu sem býður börn velkomin. Gerðu sterkasta tungumál barnsins sýnilegt hvort sem það kann að lesa eða ekki. Rannsóknir sína að þegar tungumáli barna er sýndur áhugi smitar það út frá sér til annarra barna. Einnig sýna rannsóknir að ef barnið sér og getur notað sitt sterkasta tungumál ýtir það undir nám á öðru tungumáli.
Skapaðu kennslustofu sem er menningarlega fjölbreytt. Sýndu menningu og áhugamálum barnanna áhuga.
Sýndu þolinmæði. Börn með rofna skólagöngu skortir oft hugrekkið til þess að byrja að tala íslensku. Ekki missa móðinn þrátt fyrir að hlutirnir séu að gerast hægt.
Vertu opin/nn fyrir því að læra nýja hluti. Miðja máls og læsi býður t.d. upp á námskeið og aðstoð fyrir kennara. Nýttu alla þá hjálp sem er í boði.
Hugmyndir að kennslu um fjölbreytileika og inngildingu
Nemendur elda mat/ smakka fjölbreyttan mat.
Nemendur læra ný tungumál.
Nemendur læra að dansa, búa til listaverk o.s.frv. frá mismunandi menningarheimum.
Verkefni sem ýta undir samræður um fjölbreytileika og inngildingu og taka á mismunun, forréttindum og staðalímyndum.
Vertu með bækur, myndir og tónlist í skólastofunni frá mismunandi löndum og menningarheimum.
Kenndu nemendum um það hvernig það er að vera hluti að hóp og hversu miklvægt það er að standa gegn mismunun og fordómum.
Tjáskiptatækni
Merkja nafn nemenda á snaga, borð o.fl. eins og aðrir nemendur eru með áður en hann byrjar
Hafa stafrófið sýnilegt
Myndrænt skipulag
Hafa bókstafi úr nöfnum nemenda sýnilega