Árangursríkar kennsluaðferðir eru þær sem byggja á virkni nemenda. Fjölbreyttar samskiptamiðaðar kennsluaðferðir sem snúast um samskipti og munnlega tjáningu er þess vegna líklegar til árangurs þar sem þær byggja á þátttöku nemenda. Þær eru að margbreytilegum toga og nauðsynlegt að hafa þær fjölbreyttar eins og verkefni nemenda. Dæmi um aðferðir eru ýmsir leikir, spil, hópavinna, viðtöl og samtöl. Samtöl geta verið stýrð eða frjáls.
Það skiptir einnig máli að kennslan miði við fyrri þekkingu og reynslu nemandans og sé í tengslum við raunveruleika hans og hann sjái að námið muni gagnast honum í lífinu. Nemandinn þarf að upplifa kennslustofuna sem öruggt umhverfi þar sem hann má gera mistök.
Kennarinn þarf að gera grein fyrir væntingum sínum til nemandans. Finna þarf út styrkleika hans til þess að geta skipulagt kennsluna þannig að hún verði merkingarbær fyrir hann. Að ætla að læra nýtt tungumál samhliða því að læra að lesa og glíma einnig við áfallastreitu getur verið mjög erfitt. Sýna þarf skilning en gæta þess að draga samt ekki úr væntingum til nemandans. Einnig þarf að hafa í huga að nám gerist ekki á einni nóttu og leggja þarf áherslu á það sem kennurum og nemandanum finnst vera mikilvægast hverju sinni.
Geta fólks til þess að læra tungumál er alltaf einstaklingsbundin og háð ýmsum þáttum eins og meðfæddum hæfileikum, aldri, menntun og fyrri kunnáttu í tungumálum. Fjölbreyttur hópur býður upp á fjölbreyttar kennsluaðferðir. Það skiptir máli í kennslunni að sýna hverjum nemenda áhuga og nýta þá kunnáttu og færni sem hann býr yfir. Í fjölmenningarlegum hópum býr oft mikill fjársjóður sem hægt er að nýta í kennslu svo sem að nemendur segi frá matarmenningu, vinnu, samskiptum, listalífi, skólamálum, stjórnmálum, veðri og svo framvegis.
Gildi leikja og samskiptamiðaðra leiða í tungumálakennslu eru fleiri en þau sem snerta þjálfun málfærniþáttanna. Þessar kennsluaðferðir geta opnað dyr að samskiptum fólks frá ólíkum menningarsvæðum og átt þátt í að eyða gagnkvæmum fordómum innan hópa.
Tungumál eru samskiptatæki og við verðum að leggja áherslu á að nemendur læri íslensku með því að tala hana. Markviss þjálfun í að tala og endurtaka er það sem nemendur þurfa.
Kennsluaðferðir sem snúast um samskipti og munnlega tjáningu.
Leikir og spil.
Hlutverkaleikir, borðspil, orðaleikir, þrautalausnir, bingó, málfræðimiðað og orðaforðamiðað námsefni.
Samtalsmiðaðir leikir sem eru ýmist hannaðir fyrir tvo, þrjá, fjóra þátttakendur eða allan bekkinn.
Hópavinna eins og að skipuleggja saman máltíð eða setja upp leikrit.
Vettvangsferðir í til dæmis verslanir, söfn, kaffihús og stofnanir. Gott getur verið að undirbúa ferðina vel með myndum af staðnum. Fara yfir viðurkennda hegðun og hvernig eigi að bera sig að.
Leiklist í kennslu þar á meðal kyrrmyndir og kennari í hlutverki.
Setja upp algengar aðstæður eins og búðarferð, fara til læknis, sundferð, hegðun í skólastofu og svona mætti lengi telja. Sýndu nemandanum hvað á að gera og fáðu síðan aðra nemendur til að sýna áður en nemandinn gerir.
Orð vikunnar, nemendur geta komið með orð á sínu tungumáli og á þennan hátt læra nemendur tungumál hvers annars og kennari sýnir öllum tungumálum áhuga.
SAMVINNUNÁM
Samvinnunám er hugtak sem nær yfir nám og kennslu nemenda sem vinna á mótaðan og markvissan hátt að sínu viðfangsefni saman í hópum. Undir hugtakið heyra margar aðferðir og útfærslur:
samvinnunám í fjölmenningarhópum (e. cooperative learning in multicultural groups, CLIM)
lærum saman (e. learning together)
hóprannsókn (e. group investigation)
samvirkni- eða samstarfsnám (e. collaborative learning)
tölvustutt samvinnunám (e. computer supported collaborative learning)
púslaðferðin (e. jigsaw)/ sérfræðingaaðferðin
sjónarhorn (e. four corners)
mottuleið (e. place mat).
Heimildir: Skapandi skóli, handbók um fjölbreytta kennsluhætti og stafræna miðlun
Reynslunám (e. Experiential learning) er ferlið að læra með því að gera. Með því að virkja nemendur í verkefnum sem byggja á upplifunum og ígrundunum geta þeir betur tengt kenningar og þekkingu sem lærð er í kennslustofunni við raunverulegar aðstæður. Einstaklingur þroskast með því að fara í gegnum ferli og læra af þeirri reynslu sem verður til.
Rauntímaspunaleikur (e. live action role-playing game, LARP, sbr. larping og larper)
Hermir
Útikennsla
Ferðir
Raun tengd verkefni sett upp sem leikir (e. Problem-solving through gamification)
Verkefnamiðað nám(e. Project-based learning)
Námsefni sem er myndrænt en hæfir jafnframt aldri viðkomandi. Myndræn tenging við texta og námsefni er mikilvæg til að byggja upp orðaforða og hjálpa nemendum að skilja það námsefni sem þau eru að vinna með.
Nýttu aðferðir eins og ég geri, þú gerir eða ég geri, ég geri og nemandinn gerir þegar hann er tilbúinn. Mundu að þú getur þurft að sýna aðferðirnar aftur og aftur. Endurtekningin er lykill að því að nemandinn nái árangri.
Hafðu kennslu munnlega og myndræna til þess að byrja með.