Inngildandi kennslustofa tryggir að sérhvert barn finnur að það tilheyrir. Þegar börn upplifa sig vera með eru þau líklegri til að taka virkan þátt í námsferlinu og leggja sitt af mörkum, tjá sig bæði skoðanir og sjónarhorn og verða þannig virkir þátttakendur í kennslustofunni.
Kennarar hafa gríðarleg tækifæri til að takast á við fordóma í kennslustofum og tryggja að öll börn upplifi að þau séu í öruggu og námsumhverfi án aðgreiningar.
Hér eru nokkrar leiðir til að gera kennslustofu inngildandi:
Innleiða menningarlega fjölbreytni inn í kennsluna. Námsefni er oft kennt út frá evrópsku sjónarhorni og þekking og reynsla barna frá öðrum heimshornum er oft ekki með. Mikilvægt er að hafa efni sem viðurkennir og byggir á reynslu annarra menningarhópa líka með.
Samþætta menningarlegan fjölbreytileika eins og kostur er í daglegu starfi. Með því að miðla og samþætta menningarlega fjölbreyttar upplýsingar og sjónarmið inn í kennslu. Ekki gera það einungis við sérstök tilefni heldur frekar til þess að varpa ljósi á framlag einstaklinga/hópa frá öllum heimshornum allt kennsluárið. Lestu til dæmis sögur fólks sem hefur barist gegn mismunun eða kynntu þér mikilvæg framlög til samfélagsins sem fólk alls staðar að úr heiminum hefur lagt fram. Allir kennarar ættu að hafa í huga að samtöl um skilning og virðingu ættu ekki að einskorðast við minningaratburð eða aðra sérstaka dagskrá, frí eða athafnir heldur ættu þau alltaf að vera hluti af hversdagslegum samskiptum í kennslustofunni.
Kenna menningarlæsi. Að vera menningarlæs getur hjálpað fólki að skilja, tengjast og eiga samskipti við fólk með ólíkan bakgrunn. Að sjá, heyra og læra um hvernig annað fólk lifir getur gert fólk menningarnæmt og meðvitað. Að læra um mismunandi menningu getur opnað huga fyrir mismunandi lífsháttum.
Gefðu börnum tækifæri til að deila lífsreynslu og gerðu kennslustofuna að stað þar sem upplifun barna er ekki jaðarsett, léttvæg eða ógild. Fordómar og mismunun hafa mismikil áhrif á einstaklinga. Ekki taka þátt í rökræðum um hver hefur þjáðst mest, frekar að gefa hverju barni tækifæri til að deila persónulegri reynslu sinni og hvetja til samúðar frá öðrum.
Skoðaðu kennslustofuna þína. Farðu yfir efnið sem er þar þannig að allt efnið í kennslustofunni sé inngildandi fyrir alla. Gakktu úr skugga um að bækur og myndbönd styrki ekki núverandi staðalímyndir í samfélaginu. Þegar slík dæmi eru skoðuð í bókum skaltu benda nemendum á þau og hvetja þá til að hugsa um þau á gagnrýninn hátt og ögra þeim.
Búðu til umhverfi sem gerir ráð fyrir mistökum. Fordómar eru oft faldir og inngrónir í fólk, þeir eru lærðir ósjálfrátt frá foreldrum, sjónvarpi, samfélagsmiðlum o.fl. Þeim er síðan viðhaldið með staðalímyndum og umræðum sem skipta fólki í hópa þ.e. við og hinir. Stundum er fólk kannski ekki einu sinni meðvitað um að hugsanir þeirra séu særandi fyrir aðra. Það er mikilvægt að viðurkenna að svona hugsanir geta komið upp hjá öllum og einnig hjá okkur sjálfum. Mikilvægt er að fara ekki í vörn þegar sagt er að eitthvað sem sagt er eða gert geti verið móðgandi fyrir einhvern.
Segðu eitthvað þegar þú verður vitni að kynþáttahatri. Vertu tilbúin/nn að bregðast við hvers kyns mismunun sem þú sérð. Fólk sem tilheyrir minnihlutahóp mun taka eftir því hvernig brugðist er við. Þögn á meðan á óréttlæti stendur gefur til kynna að fordómafull hegðun sé liðin og hún ætti aldrei að líðast.
Námsumhverfið þarf að vera þægilegt og öruggt. Vinna þarf að því að ná trausti barnsins þannig að því líði vel í skólanum. Rannsóknir sýna að þegar námsumhverfi er lýst er góður kennari fyrst á listanum ásamt góðum samskiptum og jákvæðni. Flestir eru samt sammála um að gott námsumhverfi þurfi að vera vistlegt, sveigjanlegt og fjölbreytt.
Huga þarf að stöðugleika. Þegar allt er nýtt og framandi þarf að byggja upp umhverfi sem er fyrirsjáanlegt og bregst alltaf eins við. Skerpa þarf á við alla starfsmenn hvernig móttakan á að vera, hvernig brugðist er við ef eitthvað fer ekki eins og búist var við og hvert á að leita þegar það gerist.
Námsumhverfi þarf einnig að stuðla að hvatningu og stuðningi. Kennari sem hvetur til umræðna, samtals og þátttöku barna í tímum stuðlar að jákvæðu námsumhverfi.
AÐ KOMA TIL MÓTS VIÐ ÞARFIR BARNA MEÐ ROFNA SKÓLAGÖNGU
Til þess að bregðast við þörfum barna með rofna skólagöngu þarf fyrst fremst að skoða þarfir barnanna og tryggja að þau fái viðeigandi stuðning og aðstoð. Það þarf að vera í góðu samstarfi við foreldra barnanna og við annað fagfólk sem kemur að því, ef þess þarf.
Ein leið til þess að bregðast við þörfum barna er að gera einstaklingsnámskrá. Þar sem lögð er áhersla á hlutbundið nám og samskipti. Hlutbundið nám á margt sameiginlegt með verklegri kennslu þar sem kennarar kenna nemendum með því að sameina fræði og verklegar athafnir. Það felur í sér að farið er út fyrir fræðin og að nemendur fái verkefni sem geri þeim kleift að taka virkan þátt í að rannska og vinna með efniviðinn á fjölbreyttan hátt.
Það þarf að passa að umhverfið í skólanum og námið sé við hæfi og aðlagað að þörfum barnanna.
Inngilding í kennslustofu ber með sér að öll börn eru velkomin, hafi tækifæri til að læra óháð getu, bakgrunni og aðstæðum.
Hvernig skólastofur eru skipulagðar hefur áhrif á nám nemenda. Umhverfið getur stutt við og ýtt undir að nám fari fram en það getur einnig skapað hindranir fyrir nemendur. Þrátt fyrir miklar umræður og skrif um skipulag á skólastofum líta margar þeirra eins út með hið hefðbundna útlit þar sem kennarinn er fremstur við töfluna og nemendur sitja í röðum fyrir framan hann. Þess konar uppröðun gefur ekki mikla möguleika á samvinnunámi, hreyfingu nemenda um stofuna, umræðum og þátttöku nemenda í náminu.
Það er ekki nóg að hugsa á fjölmenningarlegum nótum heldur þarf að velta fyrir sér hvernig nemandinn og menning hans verði hluti af skólastarfinu og samfélaginu í heild. Skólastofan er rými sem gegnir hlutverki við nám alveg eins og kennarinn og bekkjarfélagarnir gera. Hugsaðu um hvernig rýmið er skipulagt og hvernig sjónrænir þættir á veggjunum bæta við eða draga athyglina frá námi.
Í dag eru margar kennslustofur með fullt af plakötum á veggjum sem hanga þar allt skólaárið. Fyrir börn með rofna skólagöngu er mikilvægt að pláss sé á veggjum fyrir verkefnin sem þau búa til. Einnig að hafa eitthvað á veggjunum sem styður við nám barnanna. Þar sem börn með rofna skólagöngu þurfa stuðning við íslensku er mælt með að hafa orðin sem þau eru að læra með myndum, orðaveggi og annað efni sem ýtir undir kennslu á íslensku. Nemendur geta búið til hluta af efninu sem fer á veggina sjálfir. Veggirnir þurfa að vera lifandi og breytast í takt við það sem er verið að kenna hverju sinni.
Áhugavert getur verið að skoða að setja kennslustofuna upp þannig að auðvelt sé að breyta henni og ekki hafa endilega hefðbundin húsgögn og uppröðun. Gefist hefur vel að hafa færanlegar töflur sem hægt er að færa að vild og breyta þannig uppröðun á mjög fljótvirkan hátt. Kennarinn getur þá aðlagað stofuna á mjög einfaldan hátt eftir því hvað hann er að kenna. Önnur hugmynd er að skipta stofunni upp í stöðvar svo sem leskrók, bókasafn, tæknistöð, vinnustöð og fleira. Stundum ráða kennarar ekki hvaða húsgögn þeir fá í hendurnar eða eru nýta stofur með öðrum. Þá er spurning um að reyna að semja eða horfa á umhverfið frá nýju sjónarhorni og koma með nýstárlegar hugmyndir um hvernig megi breyta til og nýta stofuna betur.
Áhersla á nöfn nemenda byggir upp jákvætt bekkjarsamfélag. Lærðu að bera fram nöfn nemenda eða fáðu nemendur til þess að kenna þér réttan framburð.
Hafðu skilaboð á sterkasta tungumáli nemandans, fána frá heimalandi og annað sem þér dettur í hug sem stuðlar að inngildingu.
Hafðu bæði bækur á tungumáli nemenda í skólastofunni og fjölbreytt úrval af bókum sem endurspegla fjölbreytileikann. Athugaðu bókasafn skólans eða hvort að skólasafnið geti fengið lánað frá öðrum bókasöfnum ef þær eru ekki til í skólanum. Nemendur ættu að geta séð sig á síðum bóka og lært um mismunandi sjónarhorn eða bakgrunn.
Notaðu inngildandi tungumál. Það hjálpar öðrum að virða fjölbreytileika og allar sjálfsmyndir. Notaðu kynlaus hugtök eins og krakkar þegar þú ávarpar bekkinn. Forðastu orð sem geta verið móðgandi eða særandi fyrir aðra.