Stöðumat á þekkingu nemanda, aldri og persónulegum aðstæðum veitir skólum grunn fyrir ákvarðanatöku um hvernig námi og kennslu nemandans verði hagað. Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla (2013) skal leggja fyrir stöðumat þar sem leitast er eftir upplýsingum um nemendur sem koma til landsins. Þar gefst nemanda og foreldrum hans tækifæri á að upplýsa skólann um þarfir, menningu og stöðu nemandans. Auk þess fær skólinn upplýsingar um bakgrunn nemenda, tungumálafærni og fyrri skólagöngu. Námsáætlun skal byggð á upplýsingum og niðurstöðum stöðumatsins.
Með því að leggja fyrir Stöðumat fást upplýsingar sem leggja grunn að námi og kennslu fyrir nemendur af erlendum uppruna þar sem byggt er á styrkleikum þeirra og fyrri þekkingu. Stöðumatið veitir kennurum innsýn í reynslu, áhuga, fyrri þekkingu og styrkleika nemenda. Þekkingin sem skapast með Stöðumatinu geta kennarar nýtt sér til þess að skipuleggja nám nemenda til dæmis með vali á kennsluaðferðum, námsefni, námsmati og væntingar til nemendans sem bera með sér ólíkan tungumála- og menningarbakgrunn inn í skólastarfið. Hugsa má Stöðumatið sem skipulagt samtal sem byggir á áhuga fyrir margbreytileikanum, virðingu fyrir því sem börn bera með sér inn í skólastarfið og vilja til að virkja þær auðlindir sem nemendur búa yfir. Þannig geta kennarar styrkt við fjölmenningarlegan skólabrag þar sem tungumála- og menningarauðlindir nemenda eru viðurkenndar og nýttar í skólastarfinu. Stöðumatið gerir kennurum kleift að byggja upp eigin þekkingu og þekkingu skóla í átt til fjölmenningarlegs skólastarfs.
Markmiðið með Stöðumatinu er að styðja við vinnu kennara varðandi mat á þekkingu nemenda af erlendum uppruna þannig að kennarinn geti undirbúið og lagað kennsluna að þörfum nemandans og byggt ofan á fyrri þekkingu. Stöðumatið á að meta nemendur og kortleggja stöðu þeirra þannig að hægt sé að skipuleggja nám þeirra með hliðsjón af því hvar þeir standa. Hversu marga tíma þeir munu þurfa í ÍSAT kennslu og hvert skal stefna með kennslu í öðrum fögum.
Stöðumatið hentar nemendum með rofna skólagöngu. Varast ber samt að hugsa að matið sé meitlað í stein, því má hagræða eftir aðstæðum. Það er hluti í Stöðumatinu þar sem leitað er eftir óformlegri menntun barna. Möguleiki er að dýpka þann þátt og finna styrkleika barnanna sem um ræðir. Þá er hægt að gefa sér meiri tíma í þann part af Stöðumatinu sérstaklega þegar nemendur hafa fengið litla sem enga formlega menntun. Þá skiptir óformlega menntunin enn meira máli.
Stöðumatið leggur grunn að öllu námi nemandans. Tilgreindur ábyrgðaraðili sér til þess að það sé framkvæmt en einnig þarf að tryggja að allt starfsfólk sem kemur að nemandanum sé meðvitað um niðurstöður sem sýna námslega stöðu hans. Til þess að tryggja það og stuðla þar með að góðri samvinnu er mikilvægt að koma upp verklagi sem hentar. Sem dæmi má útbúa sameiginlegt upplýsingakjal á öruggu svæði á innra neti skólans þar sem allt starfsfólk sem kemur að námi nemandans og frístundastarfi, hafa aðgang. Í skjalið eru settar inn upplýsingar um nemandann út frá mati og færni hans kortlögð. Ekki er svo síður mikilvægt að uppfæra upplýsingarnar samhliða framförum, eða breytingum, þannig að þær séu alltaf réttar og lýsandi fyrir stöðu nemandans hverju sinni.
Hér fyrir neðan má sjá snið að slíku upplýsingaskjali eða námsprófíl: