Börn með rofna skólagöngu er hugtak sem lýsir fjölbreyttum nemendahópi sem deilir nokkrum sameiginlegum einkennum. Það hefur orðið rof á skólgöngu þeirra eða þau jafnvel aldrei gengið í skóla. Þau hafa hvorki möguleika á að stunda órofið nám í heimalandi sínu né annars staðar. Þau hafa oft takmarkaða kunnáttu í lestri og ritun og standa ekki jafnfætis jafnöldrum sínum á sínu sterkasta tungumáli auk þess að ná ekki sömu hæfniviðmiðum í öðrum fræðigreinum.
Börn með rofna skólagöngu koma flest til landsins í fylgd foreldra sinna, sum koma með öðrum ættingjum og stundum koma þau fylgdarlaus. Þau eiga það öll sameiginlegt að koma hingað vegna þess að þau hafa neyðst til að flýja aðstæður sem eru þeim skaðlegar eða valda þeim ótta og/eða skaða. Sökum þess er líklegt að þau hafi töluverða áfallasögu í farteskinu sem mikilvægt er að hafa í huga þegar skólaganga þeirra er skipulögð. Huga þarf sérstakalega að þessum börnum þar sem þau þurfa oft sértæk úrræði og kennslu.
Haustið 2023 var myndaður starfshópur um þróunarverkefni styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu. Starfshópurinn samanstóð af fjórum kennurum frá Reykjavíkurborg, Hafnarfirði og Reykjanesbæ en verkefnið var samstarfsverkefni þessara þriggja sveitarfélaga. Markmið verkefnisins var að styðja við uppbyggingu þekkingar varðandi málefni barna á flótta og með rofna skólagöngu. Það snýr í meginþáttum að móttöku, stöðumati, skipulagi náms, sálfélagslegum stuðningi nemenda, námsefni og gagnlegum kennsluaðferðum. Þessi síða heldur utan um vinnu og niðurstöður starfshópsins.