Menningarnæmri kennslu er skipt upp í fimm stig. Fyrsta lagi þurfa kennarar að setja sig inn í menningu nemenda sinna og þá er ekki verið að tala um „hetjur” og hátíðir landa heldur að skilja menningu á dýpri hátt. Kafa í djúpstæð undirliggjandi gildi, viðhorf og viðmið sem hafa áhrif á hegðun, væntingar og hugsunarhátt nemandans. Það þarf einnig að hafa í huga að þar sem menning okkar býr oft í undirmeðvitundinni gerum við okkur ekki alltaf grein fyrir hvernig hún hefur áhrif á athafnir okkar. Við áttum okkur oftast ekki á menningarmun fyrr en við stöndum frammi fyrir ágreiningi.
Dæmi: Nemandi slær annan nemanda í höfuðið. Við ræðum málið, förum eftir verkferlum og teljum okkur hafa leyst málið. Það sem við gerum okkur kannski ekki grein fyrir að samkvæmt menningu nemenda búa forfeður þeirra í höfðinu og með því að slá þá í höfuðið er nemandinn að sýna einu mestu vanvirðingu sem hægt er að sýna viðkomandi. Það er alls ekki búið að ganga frá því sem gerðist þar sem skilningur okkar á því var of einfaldur, við flokkum þetta sem ofbeldi (sem það er) en málið er mun flóknara en það leit út í byrjun. Þetta getur verið flókið og gott að átta sig á því að nemandi er ekki einungis afsprengi menningar sinnar. Hann er einstaklingur með sína eigin reynslu, fortíð, áhuga og fleira sem hefur áhrif á hugmyndir hans um heiminn og hvernig hann tekur ákvarðanir.
Í öðru lagi nýtir kennarinn þekkinguna sem hann hefur aflað um menningu nemenda til þess að skipuleggja kennsluna. Hann sér að nemandinn, þekking hans og reynsla er auðlind sem hægt er að víkka og byggja ofan á.
Í þriðja lagi þá býr kennarinn til umhverfi þar sem nemendum líður vel og þeir finna til öryggis. Rannsóknir hafa sýnt að þrátt fyrir að samfélagið fylgi ekki eftir skiptir það sköpun fyrir nemendur að eiga samfélag í skólanum sem styður þá og skilur.
Í fjórða lagi verður menningarnæmni að vera sýnileg í kennslustofunni. Þá þarf að velta fyrir sér hvernig skipst er á upplýsingum er það aðallega munnlega, skriflega eða á annan hátt. Umfang þátttöku nemenda í kennslu breytir viðhorfum þeirra á námi og hugmyndum kennara um þá. Menningarnæmir kennarar þekkja mismunandi leiðir til að læra og hugsa. Þeir nota bakgrunnsþekkingu sína á nemendanum til þess að skipuleggja nám sem er á forsendum hans. Þannig skapa þeir merkingabært nám.
Árangursrík kennsla er fimmta og lokamarkmiðið sem tekur mið af öllum hinum fjórum þáttunum. Kennari hefur þróað með sér menningarnæmni og með því skapað kennslu og rými sem er inngildandi. Kennslan tekur mið af þörfum, skilningi og áhuga nemenda þannig hefur hann ýtt undir að styrkleikar allra fái að njóta sín.
Heimild: Andrea DeCapua, 2017
HVERNIG VERÐ ÉG MENNINGARNÆMUR KENNARI?
Fyrsta skrefið er að mynda tengsl við nemandann. Koma á samskiptum sem snúa að því að báðir aðilar eru að læra. Það er ekki einungis nemandinn sem á að læra um það hvernig skólakerfið er og hvernig hann á að haga sér heldur þarf kennarinn um leið að fræðast með samtali við nemandann og fjölskyldu hans um þeirra menningu. Það þarf að búa til vettvang þar sem hægt er að eiga samtal. Gott er að hafa í huga að kennarinn fær líklega að heyra um áföll og annað sem nemendur eða fjölskyldur þeirra hafa gengið í gegnum sem getur leitt til þunglyndis eða annarra kvilla. Þar sem kennarar eru ekki sálfræðingar er gott að vera viðbúinn þessu og hafa upplýsingar um það hvert best er að vísa þeim áfram t.d. á þjónustumiðstöð, heimilislækni eða aðra þjónustu sem stendur þeim til boða.
Fyrri hugmyndir hafa verið á þá leið að huga að aðlögun innflytjenda og flóttafólks að samfélaginu þ.e. hversu hratt þeir læra tungumálið, hefðir, hegðun, gildi og viðmið og þannig séu þeir búnir að sýna fram á árangur. Þessi áhersla er samt ekki endilega það sem er best fyrir nemandann en það að snúa baki við menningu sinni, tungumáli, gildi og viðmiðum getur haft mikil áhrif á einstaklinga. Það að leggja áherslu á fjöltyngi og fjölmenningu hefur sýnt sig að það ýti undir heilbrigða sjálfsmynd nemenda og að þeir geti verið stoltur af bakgrunni sínum.
Kennslunni er skipt upp í þrjá flokka; aðstæður, ferli og verkefni. Aðstæður er námsumhverfi nemenda. Hvernig eru aðstæður þeirra og hversu mikil áhrif geta nemendur haft á námsumhverfið sitt? Með ferli er velt upp hugmyndum um það hvernig nemendur læra og grundvallarspurningin þar er hvort nemendur eru að læra einstaklingslega eða í hóp? Menning margra landa þar sem nemendur koma frá sem eru með rofna skólagöngu felur í sér það sem við myndum kalla hóphyggju. Mikilvægt er samt að það komi fram að ekki er hægt að alhæfa um það. Þess vegna getur verið að nemandinn kjósi frekar að vinna í hóp en einn. Einnig þarf að velta fyrir sér hvernig skila eigi verkefnum þar sem við erum oft að vinna með nemendur sem eru ólæsir eða rétt að byrja að læra að lesa. Að bjóða upp á munnleg skil er þá vænlegt til ávinnings.
Hvernig verkefni á þá að vinna? Þar sem hóphyggja er ráðandi þá lærir fólk með því að fylgjast með öðrum og endurtaka síðan aftur og aftur. Þetta eru góðir eiginleikar og margir kennarar benda á að nemendur sem koma frá menningarheimum þar sem lögð er áhersla á endurtekningu og hóphyggju að nemendur eru ekki hræddir við að gera mistök. Þeir eru til í að gera aftur og aftur sama hlutinn þar til þeir ná honum. Hægt er að byggja á þessum styrkleika en hafa þarf í huga að hér er verið að tala um verkefni sem eru hlutbundin og hafa sýnilegan afrakstur t.d. að gera við og taka í sundur raftæki. Þess vegna er gott að byrja á verkefnum sem eru hlutbundin. Markmið kennslunnar er einnig mikilvæg, hvort er verið að kenna efni eða hæfni? Þegar kenna á efni svo sem hugtök þá er gott að gera það í gegnum hæfni sem nemandinn hefur. Þegar kenna á hæfni er gott að byggja á þeim orðaforða sem nemandinn hefur yfir að ráða.
Kennarar sem eru menningarnæmir eru inngildandi í gegnum starf sitt þeir gera ráð fyrir öllum nemendum og aðlaga kennsluna sína að nemendum en ekki öfugt.
Heimild: Andrea DeCapua, 2017