Kennari sem starfar samkvæmt áfallamiðaðri nálgun er meðvitaður um að börn mæta í skólann alla daga með allt sitt líf í skólatöskunni. Suma daga er taskan þyngri en aðra og streitukerfið á meiri yfirsnúningi en að öllu jöfnu. Til að börn geti stundað nám og einbeitt sér þarf streitukerfið að vera í ró. Kennarinn þarf því alltaf að vera viðbúinn og tilbúinn til að grípa í verkfæri áfallamiðaðrar nálgunar.
Hvað kom fyrir? Þegar nemandi sýnir óæskilega hegðun spyr kennarann sig eða nemandann: „Hvað kom fyrir?“ í stað þess að byrja á því að skamma nemandann. Þetta kallar oft á hugarfarsbreytingu því oft er nærtækast að grípa til skamma. Áfallamiðaðir kennarar leita að rót vandans og skoða athafnir nemandans með tilliti til sögu hans og upplifana.
Ró og kveikjur: Börn sem hafa upplifað áföll eiga oft erfitt með að stjórna tilfinningum sínum og gjörðum. Stundum sýna þau það með orðum eða verkum en einnig getur óyrt hegðun eins og líkamstjáning, fas eða tónn gefið vísbendingu um stöðuna hverju sinni. Kennarinn þarf að þekkja þessi merki, ásamt því að vera vakandi fyrir hvað það er sem virkar sem kveikja og veldur endurupplifun á áfalli. Þegar barn missir fullkomna stjórn á sér þarf það að geta reitt sig á nærveru og stuðning til að ná aftur stjórn og jafnvægi. Í slíkum aðstæðum er mikilvægt að kennarinn haldi ró sinni og sýni það með yfirvegun í raddblæ, líkamstjáningu, orði og verki. Kennarinn viðurkennir tilfinningar barnsins og veitir því fulla athygli og sýnir því virðingu. Með þessum hætti má hjálpa barninu að læra betur inn á það hvað það er sem kveikir óæskilega hegðun og vanlíðan og hvernig það getur brugðist við með betri stjórn.
Tenging, traust og öryggi er megið stefið í áfallamiðaðri nálgun. Það getur tekið tíma að byggja upp tengsl þar sem gagnkvæmt traust og öryggi ríkir. Með jákvæðu viðmóti getur kennarinn lagt grunninn að góðum tengslum en slík tengsl eru mikilvæg undirstaða náms. Börnum gengur betur í skólanum líði þeim vel og eiga góð tengsl við einhvern innan skólans. Slík tengsl geta haft margþætt og jákvæð áhrif á lífsgæði barna, allt frá námsárangri og félagsfærni innan skóla sem utan. Kennarar sem hafa tileinkað sér áfallmiðaða nálgun gera sér far um að heilsa hverju barni og athuga hvernig þeim líður. Með þeirri nálgun sýna þeir barninu stuðning og umhyggjusemi. Tengingin og það að barnið upplifi að það sé velkomið getur skipt sköpum fyrir hegðun, líðan og tilfinningastjórnun. Kennarinn þarf að sýna að hann sé traustsins verður og styðja við börn óháð frammistöðu þeirra í námi eða framkomu. Slíkt samband getur leitt til betri félagslegrar færni og bættra samskipta við önnur börn.
Virk hlustun og full athygli: Börn hafa þörf fyrir að á þau sé hlustað með athygli og að það sem þau hafa að segja sé metið að verðleikum. Það krefst þess að kennarinn sýni börnum fulla athygli og sýni það til dæmis með því að endurspegla líkamstjáningu og látbragð viðkomandi, haldi tilsvörum í lágmarki en kinki kolli þess í stað eða noti stutt og hlutlaus orð eins og: Já, ókei, ahah, uhum, ég skil eða ég heyri. Þá er gott að spegla frásögn eða tilfinningar og draga saman það sem sagt var til að tryggja sameiginlegan skilning.
Fyrirsjáanleiki: Börn með áfallasögu geta átt erfit með að treysta hvort heldur sem er öðrum eða sjálfum sér. Grunnforsenda þess að vinna að bata er að skapa öryggi. Hluti þess er hafa eins mikinn fyrirsjáanleika og kostur er. Það gæti til dæmis átt við um að minna tímanlega á tiltekin atriði, s.s. skiptingu á milli tíma og breyttar áætlanir. Það sama á við um önnur uppábrot eða óvæntar uppákomur eins og leiksýningu á sal en þá ætti að undirbúa barnið sérstaklega eða að vera hjá því á meðan á uppákomunni stendur. Óvæntar uppákomur geta valdið endurupplifun á áfalli eða óæskilegri hegðun ásamt því að valda mikilli vanlíðan.
Styrkleikar og væntingar í stað þess að einblína á það sem uppá vantar hjá barninu sem upplifað hefur áföll ætti frekar að beina athyglinni að styrkleikum þess og áhugasviði. Barn sem hefur upplifað vonbrigði og valdaleysi hvað eftir annað þarf að fá tækifæri til að upplifa sigra og fá að taka þátt í ákvörðunum er það varðar. Gera ætti styrkleikum þeirra hátt undir höfði og veita þeim tækifæri til að sinna því sem þau hafa mikinn áhuga á þannig að þau fái tækifæri til að láta ljós sitt skína.
Hreyfing, hugleiðsla og uppbrot: Með hreyfingu má fá útrás fyrir hræðslu, uppsafnaða spennu og reiði. Þetta þarf ekki að valda mikilli truflun í kennslustofunni, að standa á fætur og rétta úr sér, hreyfa útlimi eða ganga eða hlaupa á staðnum, sem gerir sitt gagn. Eins getur hugleiðsla og/eða núvitundarstund reynst vel til að draga úr spennu. Slíkar æfingar gefa börnum tækifæri til að fara inn á við, tengjast og taka á móti tilfinningum sínum, líðan og hugsunum án þess að dæma.
Rými til að ná jafnvægi: Það getur gagnast börnum sem eiga í erfiðleikum með að stjórna skapi sínu, hegðun eða einbeitingu að bjóða því að finna nýjar leiðir til að vinna úr aðstæðum. Það getur til dæmis verið merki á milli kennarans og barnsins sem hjálpar því að einbeita sér að andardrættinum og telja upp á tíu. Þá getur verið gagnlegt að barnið geti farið afsíðis til að róa sig.
Ekki gleyma sjálfum sér stundum getur verið erfitt að aðskilja vinnu og persónulegt líf, ekki síst þegar skjólstæðingarnir eru börn sem hafa orðið fyrir áföllum. Mikilvægt er að stjórnendur og kennarar þekki merkin svo hægt sé að bregðast við fljótt og vel. Það má til að mynda bjóða upp á fræðslu í forvarnarskyni eða í kjölfar erfiðra upplifana. Þá þurfa kennarar að vera meðvitaðir um að hlúa að sjálfum sér með því að tileinka sér jákvæð bjargráð eins og að tryggja að grunnþarfir séu uppfylltar svo sem svefn, næring og hreyfing. Þá er nauðsynlegt að sinna áhugamálum og jafnvel hugleiðslu og núvitund. Öflugt stuðningsnet jafnt innan sem utan skóla er einnig mikilvægt. En stundum er besta hjálpin falin í þeirri vissu að verið sé að gera nemendum gagn með því að vera til staðar og hlusta.
ÞEGAR BARN HEFUR MISST STÓRN Á TILFINNINGUM SÍNUM EÐA VIÐBRÖGÐUM ÞARF AÐ HJÁLPA ÞVÍ AÐ NÁ STJÓRN SEM FYRST.
Það er hægt að grípa til ýmissa verkfæra í því augnamiði. Þegar börn hafa lært þessi bjargráð geta þau svo sjálf gripið til þeirra þegar þau lenda í slíkum aðstæðum.
Ýmsar öndunaræfingar eru róandi:
Magaöndun: Barnið horfir á magann hreyfast þegar það andar eða setur leikfang á magann og fylgist með því hreyfast í takt við andardráttinn.
Ferningsöndun: Anda inn og telja upp að fjórum á meðan, halda andanum inni og telja upp að fjórum, anda út og telja upp að fjórum á meðan, endurtekið eftir þörfum.
7/11 öndun: Anda inn og telja upp að sjö á meðan, anda út og telja upp á 11 á meðan. Fyrir yngri börn er heppilegt að nota 3/5 öndun.
Fingraöndun: Strjúka upp eftir þumalfingri og anda inn, strjúka niður eftir þumalfingri og anda út, strjúka upp eftir vísifingri og anda inn, strjúka niður eftir vísfingri og anda út. Þetta ferli er endurtekið við hvern fingur og byrjað aftur á þumalfingri ef nemandinn þarf lengri tíma til að róa sig.
Blómaöndun: Barnið ímyndar sér að það haldi á blómi, það lyktar af því til að finna góða lykt (andar inn) og blæs svo á það (andar út).
Hér er krækja í síðu með leiðbeiningum, núvitundar- og jógaæfingum
Aðrar gagnlegar róandi æfingar:
Sjúga eða drekka í gegnum rör getur haft róandi áhrif.
Ýmsar slökunaræfingar: spenna líkamann eða líkamsparta við innöndun, halda andanum inni með líkamann spenntan og anda svo út með góðu andvarpi.
Virkja öll skilningarvitin (5-4-3-2-1) þ.að er beina athyglinni að því sem barnið sér, heyrir, finnur lykt og bragð af og að lokum hvað finnur það í gegnum húðina.
Æfingar sem eru gagnlegar til að losa um spennu:
Hreyfing: Hoppa á trampolíni, kasta bolta í vegg, kreista stressbolta, hoppa, dansa og svo framvegis. Hreyfing og taktur dregur úr losun streituhormóna svo sem adrenalíns og kortisols.
Ýmsar teikniæfingar: parateikning og teikna með báðum höndum við tónlist.
Ýmislegt sem örvar skynfærin, svo sem leikir, ímyndun, hlutir, leikföng, bragð, lykt og hljóð. Leikur með sand, leir, stressboltar, slím, sulla í vatni með höndunum og fingramálun.
Heimildir: Karen Nóadóttir. Hvað kom fyrir þig? Áfallamiðuð nálgun í framhaldsskólum. Kristrún Sigurjónsdóttir, kennslufulltrúi fjölmenningar hjá Hafnarfjarðarbæ. Fyrirlestur og glærur
Mjög gagnlegt er að vera með sjónrænan tilfinningarvegg í skólastofunni þannig að nemandi sem á ekki orð yfir tilfinningar sínar á íslensku geti auðveldlega komið líðan sinni til skila með því að benda á mynd sem sýnir líðan hans.
Börn með flóttabakgrunn þurfa að takast á við ýmiskonar áskoranir tengdar aðlögun á Íslandi og í íslensku skólakerfi. Þau upplifa oft menningaráfall og með því að þekkja einkennin og bregðast við með réttum hætti má styðja við ferlið, skapa seiglu og færni til þess að takast á við aðstæður.
Líkamleg einkenni:
verður auðveldlega veikt (fær ítrekað sýkingar eða léttist)
verður gjarnan þreytt, sefur illa eða þarf óeðlilega mikinn svefn
er orkulítið, órólegt og sýnir streitueinkenni eins og til dæmis að naga neglur
hvetja til þess að hafa barnið heima ef það er með slæm einkenni kvefs, hósta eða önnur einkenni
fræða og styðja fjölskyldur við að nota aðferðir sem koma í veg fyrir veikindi (klæðnaður, handþvottur, næring, svefn og svo framvegis)
leyfa barninu að sofa eins og það þarf
hvetja fjölskyldur til þess að leggja áherslu á leik og virkni
leggja áherslu á leik og virkni í skólastarfinu
Tilfinningaleg einkenni:
aðskilnaðarkvíði
tilfinningarlegur óstöðugleiki og óvirkni
missir stjórn á tilfinningum
afturför í þroska
dregur sig í hlé og er sinnulaust
tekur ekki þátt í leik
heldur sig við ákveðin svæði í rými
hefur litla einbeitingu og truflast auðveldlega
sýnir aðra hegðun heima fyrir
tryggja rólega aðlögun og gera einn stöðugan aðila ábyrgan fyrir málum barnsins og fjölskyldu
fylgjast vel með, vera nálægt, þekkja kveikjur og grípa strax inn í þegar ber á óæskilegri hegðun
veita barninu tækifæri til þess að fá útrás fyrir tilfinningar svo sem hreyfingu, sköpun og skynörvunarleiki
færa barni sem heldur sig við ákveðin svæði, efnivið sem það þarf eða hjálpa því að fara á önnur svæði
veita aðgang að næðisrými sem barnið getur leitað í þegar það treystir sér ekki til þátttöku
hvetja barnið til þátttöku en ekki þvinga það
hvetja fjölskyldur til þess að nota móðurmálið sitt heima
Félagsleg einkenni:
barnið reiðir sig einungis á einn starfsmann
leikur sér eitt, er hrætt við hin börnin eða sýnir þeim ekki áhuga
sýnir stífleika við snertingu
er árásargjarnt í leik eða dregur sig í hlé
á erfitt með að mynda tengsl
forðast augnsamband
fylgist með öðrum í leik og virkni tímunum saman
veita barninu tækifæri til þess að fylgjast með (model language and play strategies)
hvetja til meiri þátttöku eftir því sem meira öryggi öðlast
hjálpa barninu að mynda vinatengsl
hjálpa barninu að byggja upp orðaforða tengdan félagslegri virkni/leik
nota einfalt mál og forðast flókin fyrirmæli og hugtök
nálgast barnið út frá gleði og leik
gera hóflegar kröfur til barnsins í námi og leik
hvetja önnur börn og starfsfólk sem kann tungumál barnsins að nota það á meðan öryggi er náð