Læsi er notað um þá færni að geta lesið ritað mál og skilið það. Í sinni þrengstu skilgreingu er því skipt niður í tvo flokka:
Færni í umskráningu (e. decoding) og orðakennslum (e. word recognition)
Málskilning (e. linguistic comprehension)
Í þeirri merkingu sem skólar og kennarar nota orðið læsi er það færni að geta ráðið í, lesið og skilið ýmis konar tákn eða merki í umhverfinu sem skynjuð verða með augum eða eyrum. Þá er er merkingin þríþætt:
Nánari viðmið um hvaða marki þarf að ná til að teljast læs.
Færni, sem nauðsynleg er til að skilja og miðla merkingu sem ekki er bundin við tungumál eða ritmál í hefðbundnum skilningi.
Félagslegt umhverfi eða aðstæður við lestur og ritun.
Heimild: Baldur Sigurðsson, 2023
Í Aðalnámskrá grunnskóla segir að nemendur á forstigi eigi að læra að tengja íslensk málhljóð við rittákn þeirra. Byrja að þjálfa sig í umskráningu og ná byrjunar færni í lesfimi.
Getur lesið og skilið einföld orð og einfaldar lykilsetningar sem honum hafa verið kenndar og eru algengar eða eru studdar myndefni.
Nýtir sér myndir og tákn til að skilja og skýra merkingu orða.
Getur lesið mjög einfalda texta með stuðningi til dæmis mynda.
Börn með rofna skólagöngu eru mörg ólæs á sínu sterkasta tungumáli. Það þýðir að þau þurfa ekki einungis að ná samnemendum sínum í þekkingu á námsefni heldur þurfa þau einnig að læra að lesa á tungumáli sem þau kunna ekki og þau hafa oft ekki lestrarfærni á öðru tungumáli til að byggja ofan á. Mikilvægt er samt að velta hindrunum og því sem nemendur hafa ekki með sér of mikið fyrir sér heldur að byggja á styrkleikum nemenda. Gott er að hafa í huga að margir þeirra koma frá samfélögum þar sem þeir eru vanir að horfa á hvernig á að gera og endurtaka þangað til þeir hafa náð því sem á að gera.
Því miður hefur lestrarkennsla barna með rofna skólagöngu ekki verið mikið rannsökuð en rannsakendur á læsi eru allir sammála um að markviss kennsla hæfi öllum. Allir sem eru byrjendur í lestri hafa gott af skýrri kerfisbundinni kennslu í hljóðkerfisvitund og umkóðunarfærni. Leggja þarf áherslu á:
hljóðkerfis- og hljóðavitund,
umskráningu (bæði í lestri og stafsetningu),
lesfimi,
orðaforða,
lesskilning
Fjórar aðferðir við að lesa orð. Fyrstu þrjár aðferðirnar í eftirfarandi upptalningu notum við til að lesa orð sem við höfum ekki séð áður. Fjórðu aðferðinni, sjónrænu leiðinni, beitum við þegar við þekkjum orðin sjónrænt og berum þau saman við orð sem við höfum lesið áður.
Að hljóða sig í gegnum orðin, í gegnum hljóðræna umskráningu, staf fyrir staf ( f-a-r-a) eða í orðabútum (fa-ra).
Að bera orðin saman við önnur orð sem lesandinn þekkir, orð sem hafa svipaðar stafarunur. Rím gagnast vel við þessa aðferð, en talið er að lesandinn þurfi að kunna hljóðaaðferðina (sbr. aðferð nr. 1) til að geta nýtt sér þessa leið með skilvirkum hætti.
Að giska á orðið út frá samhengi textans. Sú leið er hins vegar talin mjög ónákvæm. Hægt er að giska á orð af 20-30% nákvæmni út frá samhengi textans, en erfiðast er að giska á lykilorð í texta, eða aðeins með 10% árangri
Með því að kalla fram sjónræna mynd af orðinu úr langtímaminni. Þetta byggist á því að lesandinn hafi lært að þekkja orðin og geti sagt þau um leið og þau ber fyrir augu.
Sjónrænn lestur er talin hraðvirkasta og árangursríkasta leiðin til að lesa texta og ná góðum lesskilningi því sjónræni lesturinn krefst ekki einbeitingar heldur gerist hann ósjálfrátt. Samkvæmt kenningu um „sjónrænt nám orða“ (Sight Word Learning) er það ferli sem allir nemendur þurfa að ganga í gegnum til að ná fullkomnum tökum á lestri.
Heimildir: Leið til læsis
Tíu ráð sem gagnast hafa við kennslu nemenda með rofna skólagöngu:
Námsefnið hafi merkingu og þýðingu fyrir nemendur. Mikilvægi þess að nemendur tengist námsefninu.
Brjóta verkefnin niður í smáar einingar með stuðningi. Stuðningur getur verið kennarinn en einnig getur það verið myndir eða myndbönd. Kennarinn byrjar þá með miklum stuðningi en hægt og rólega dregur hann úr honum eftir þörfum nemandans.
Leggja áherslu á samvinnunám. Nemendur vinna saman en eru með mismunandi hlutverk. Mikilvægt er að gera nemendur ábyrga fyrir sínum hlutverkum.
Sameinaðu munnleg fyrirmæli með skriflegum. Rannsóknir sýna að það flýti fyrir læsi nemenda.
Fjölbreytt námsefni og aðferðir. Nýttu mismunandi aðferðir og hafðu í boði fjölbreytt námsefni.
Endurvinna hugtök, aðferðir og verkefni. Komdu aftur að efni sem þú hefur farið í á annan hátt. Brjóttu það niður og sýndu nemendum það í öðru samhengi.
Rútínur, nemendur eiga að átta sig á því til hvers er ætlast til að þeim. Hafðu í huga að búa til rútínur um það hvernig nemandi á að bera sig að.
Aðlagaðu textann, Hafðu myndir til að styðja við orðin. Hafðu textann einfaldan með myndastuðningi.
Spurðu beinna spurninga upp úr textanum.
Námsmat, mögulega getur námsmatið verið upptökur. Sýndu nemandanum hverjar framfarirnar eru. Námsmat sem er uppbyggilegt skilar sér margfalt til nemandans.
Heimildir: Nicoleta Filimon, 2023
Að skrifa sig til læsis (n. Å skrive seg til lesing). Tengsl ritunar og læsis eru órjúfanleg. Kennarar hafa nýtt sér þessi sterku tengsl til lestrarkennslu með því að láta nemendur nota tölvu til að læra stafina, skrifa út frá tali og læra að lesa um leið. Kostirnir eru að auðveldara er að skrifa á tölvu en að handskrifa, bókstafirnir á lyklaborðinu samsvara útliti bókstafanna á skjánum, að lesa eigin texta er undanfari þess að lesa texta annarra, samvinna við skriftina ýtir undir málvitund barna.
Lita lestur og skrift (e. Color reading and writing). Sumir mæla með að velja lit fyrir nafnorð, sagnorð, lýsingarorð, smáorð o.s.frv. Þannig megi styðja við málfræði uppbyggingu texta um leið og lestur er kenndur. Nemandi tengi þá liti við ákveðna orðflokka án þess þó endilega að þekkja hvað orðflokkar eru eða heitin á þeim.
Myndalestur, valin er mynd út frá áhugasviði nemenda. Fyrst eru nafnorðin skrifuð inn á hana, síðan sagnorðin og að lokum er lýsingarorðum bætt inn á hana.
Orð á sterkasta tungumáli nemandans eru sýnileg í kennslustofu. Þrátt fyrir að nemendur lesi ekki á sínu sterkasta tungumáli hafa rannsóknir bent til þess að það að sjá sitt tungumál ýti undir læsi nemenda og áhuga þeirra á lestri.
Lestrarstigi (e. Reading ladder). Málsgrein er skipt milli lína, efst er einungis fyrsta orðið, í næstu línu er síðan fyrsta og annað orðið í málsgreininni og þannig bætast öll orðin við koll af kolli þangað til í neðstu línu er heil málsgrein. Nemendur lesa þá aftur og aftur sömu orðin þar til málsgreinin er orðin heil.
Dæmi: Ég
Ég heiti
Ég heiti Lóa.
Stundum standa kennarar frammi fyrir því að nýkomnir nemendur hafa lítið eða jafnvel ekkert verið í skóla óháð aldri. Stálpaðir nemendur og unglingar eru því jafnvel ólæsir þegar þeir hefja námið. Byrja þarf því að kenna þeim að lesa ásamt öllu hinu. Auður Soffíu Björgvinsdóttir, læsifræðingur og doktorsnemi, segir að það sé ekki til nein töfralausn til að kenna eldri nemendum að lesa. Það þýði ekkert annað en að byrja á byrjuninni burt séð frá aldri nemendanna, þ.e. að leggja inn hljóð og heiti stafa og þjálfa færni í að tengja þetta tvennt saman. Hversu barnalegt sem það kunni að virðast að kenna vel stálpuðum nemendum eða jafnvel fullorðnum á sama hátt og sex ára börnum sé það nauðsynlegt. Hún segir að nemendur þurfi að læra að þekkja hvern einasta bókstaf og hvert einasta hljóð. Þekking á hljóði hvers bókstafs sé límið sem festir framburð og merkingu orða í minni lesandans, því verið ekki hjá því komist að byrja á að fara frá minnstu einingunum, tengsl málhljóðs og bókstafs. Auður leggur áherslu á að þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að kenna grunninn þurfi að gæta þess að lestrarkennslan sé ekki eingöngu í tómarúmi heldur eins mikið og hægt er í merkingarbæru samhengi texta sem verið er að vinna með. Það sé áhrifaríkt að nemendur fái mörg tækifæri til að vinna ítarlega með orðaforða þeirra orða sem þeir eru að læra að lesa t.d. með hlustun, samræðu, lestri og ritun. Hún nefnir einnig að hafa verið í huga, séu framfarir óeðlilega hægar, að málþroskaröskun og dyslexía nemenda sem læra íslensku sem annað tungumál geti hamlað nemendum í nýja tungumálinu eins og móðurmáli en það geti verið erfitt að koma auga á þann vanda. Mikilvægt sé að reyna að átta sig á hvort vandinn geti legið dýpra en svo að nemandinn sé að læra nýtt mál. Að skipuleggja lestrarkennslu krefst þess að staða nemenda sé vel kortlögð og títt og reglulegt mat á framförum sé þáttur í kennslunni.
Anna Lind Pétursdóttir, prófessor við menntavísindasviðs Hí, tekur í sama streng og Auður og segir að öflug lestrarkennsla í upphafi geti fyrirbyggt vanda. Markviss hljóðaaðferð og félagakennsla skori hátt í árangursmælingum á gagnreyndum aðferðum. Hún mæli því með, fyrir byrjendur í lestri, markvissri og nákvæmri hljóðaaðferð, þar sem notuð er tíð endurgjöf, hrós og leiðrétting og endurtekinn lestur til að festa í minni og því til viðbótar skipulagða félagakennslu í lestri. Anna Lind segir að það felist mikill og vannýttur mannauður í nemendunum í kennslustofunni þegar kemur að lestrarkennslu og þjálfun. Þeir séu frábærir aðstoðarkennarar sem læri mikið á því að kenna hverjir öðrum. Hún segir Pals aðferðina fullkomna í félagakennslu en Hulda Karen Daníelsdóttir hóf innleiðingu á Pals eftir að hafa kynnt sér gagnreyndar aðferðir sem nýtast vel nemendum með íslensku sem annað tungumál.
K-pals var þróað fyrir elstu nemendur í leikskólum en nýtist mjög vel í kennslu nýkominna nemenda á öllum aldri. Í K-pals er farið frá hinu einfalda til hins flóknara á kerfisbundinn hátt. Lögð er áhersla á hljóðkerfisvitund, hljóðaþekkingu, umskráningu og lestur. G-pals er svo framhald af K-pals, en þar eykst þyngdarstigið hraðar.
Pals er hluti af heildstæðri lestrarkennslu ásamt kennslu í orðaforða og lesskilningi og er hannað til að sinna fjölbreyttum þörfum. Rannsóknir hafa sýnt að Pals hefur jákvæð áhrif á lestrarfærni fjölbreytts hóps, ásamt því að hafa jákvæð áhrif á félagsleg samskipti barna með áskoranir og getur ýtt undir virka þátttöku nemenda og jákvæðari samskipti.
Í nýrri íslenskri rannsókn kemur fram að nemendur sem höfðu verið greindir í áhættu hvað varðar lestrarnám og fengu lestrarkennslu sem innihélt K-pals eða G-pals lásu að meðaltali 24 fleiri réttlesin bókstafahljóð á mínútu á einu skólaári en samanburðarhópar í skólum sem nýttu aðrar aðferðir. Nemendur sem hafa íslensku sem annað tungumál fór einnig meira fram í Pals-skólunum en í samanburðarskólum og var munurinn 25 bókstafahljóð á mínútu. Sama gilti um rétt lesin orð á mínútu, þ.e. að nemendum í Pals-skólum fór meira fram en í samanburðarskólum.
Heimild: Upptaka frá ráðstefnu.
Í Íslenskuveri Breiðholtsskóla fá nemendur í 5.-10. bekk sem eru nýkomnir til Íslands, íslenskukennslu í 20 kennslustundir á viku. Mikil reynsla hefur byggst upp í verinu. Hlutverk íslenskuvers er að mennta nemendur, þar til þeir hafa náð 1. stigi í íslensku sem öðru tungumáli, samkvæmt hæfniviðmiðum aðalnámskrá grunnskóla. Góð lestrarkunnátta og lesskilningur leggur grunn að áframhaldandi námi nemenda. Hér er krækja í leiðbeiningar frá Íslenskuverinu.
Börn með rofna skólagöngu eru oft að stíga sín fyrstu skref í lestri hvort sem það er að þau þekkja ekki latneska stafrófið eða eru byrjendur í lestri. Gott er að búa til Qr kóða með myndum fyrir þau um stoðir sem eru í boði. Dæmi um slíkt er að finna á síðu Miðju máls og læsis.
Leiðarvísir Fyrirkomulag lesturs í íslenskuveri Breiðholtsskóla
Sjö góðar leiðir til að kynna nýjan orðaforða
Á síðunni SÍSL er að finna allt um Pals kennsluaðferðina en hún hefur þótt nýtast vel til að kenna börnum með rofna skólagöngu að lesa.
Á síðunni fjölbreytt kennsla.is eru einföld lesskilningsverkefni sem henta vel með orðainnlögn á 1. stigi.
Myndbönd um lestrarkennslu á norsku.