Réttur til að skilja tungumál og geta tjáð sig er tryggður í Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna. Þetta á sérstaklega við um það mál sem gerir börnum mögulegt að taka fullan þátt samfélaginu sem þau búa í. Tryggja þarf að börn læri málið eins vel og kostur er þannig að þau hafi tækifæri til menntunar og velja sér starfsvettvang síðarmeir, ásamt því að taka fullan þátt í öðrum þáttum samfélagsins. Það er því nauðsynlegt að börn sem búa á Íslandi læri íslensku.
Tungumál lærist í því hlutfalli sem barnið hefur snertingu við málið, því meiri tíma sem það ver í málumhverfinu, heyrir málið og talar, því hraðar og betur gengur því að tileinka sér málið. Dr. Elín Þöll Þorsteinsdóttir segir að börn þurfi að dvelja að minnsta kosti helming vökutíma síns í málumhverfinu til að ná góðum árangri í málinu. Hún hvetur til þess börn læri tungumálið sem talað er á heimilinu og stutt sé við það eins og kostur sé. Hún bendir hins vegar á að rannsóknir sýni að hversu gott sem barnið í því máli stýri það ekki því hversu vel barninu gengur að læra íslensku. Hæfni í tungumáli heimilisins sé ekki skilyrði fyrir framförum í íslensku. Börn sem skipti vökutíma sínum á milli tveggja tungumála frá bernsku tali bæði tungumálin nokkurn veginn jafn vel. Börn sem heyri hins vegar annað tugumálið meira en hitt læri meira og hraðar í því máli. Mikilvægt sé að börn eigi sér sterkasta tungumál og það sé það tungumál sem þau þurfi á að halda til að eiga sömu tækifæri og aðrir í samfélaginu sem það býr í.
Börn þróa með sér málvitund um 5 ára aldurinn. Málvitund er sá hæfileiki sem gerir börnum kleift að hugsa um að þau séu að tala tungumálið. Fyrsta merkið um málvitund hjá börnum er hljóðkerfisvitund, það er þegar börn átta sig á að málið er búið til úr orðum og orðin búin til úr hljóðum. Þetta er undirstaða þess að börn geti lært að lesa. Málvitund getur flust á milli tungumála og börn nýtt sér hana við það að læra tungumál. Málkunnátta flyst einungis á milli tungumála í gegnum málvitund. Börn sem hafa lært að lesa á einu tungumáli þurfa ekki að byrja frá grunni að læra að lesa á nýju tungumáli. Þau hafa vald á tækninni og geta nýtt hana á báðum tungumálunum. Þau byrja fljótt að lesa á nýja tungumálinu þó að framburðurinn sé ekki fullkominn. Orðaforði flyst hins vegar ekki á milli tungumála. Þó að barn kunni orð á einu máli þýðir það ekki að það læri það sí svona á öðru tugumáli. Þetta á einnig við um málfræði og setningaskipan. Börn sem kunna að beygja á íslensku kunna ekki sjálfkrafa að beygja á ensku sama hversu vel það kann íslenskuna. Það gerist í stigshlutfalli við það hversu mikið barnið heyrir tungumálið. Börn geta hins vegar nýtt sér málvitundina, þ.e. þau geta hugsað um tungumálin og borið þau saman og velt fyrir sér t.d. því sem er líkt og ólíkt.
Hægt er að læra mál á tvennan hátt, þ.e. með meðvituðum og ómeðvituðum lærdómi. Lítil börn læra tungumál á ómeðvitaðan hátt þar sem ekki er hægt að kenna þeim reglur. Þetta er eiginleiki sem helst út ævina. Þegar börn hafa öðlast málvitund geta þau lært tungumál meðvitað. Þá er hægt að útskýra fyrir þeim hvers vegna þetta eða hitt sé svona og benda þeim á reglurnar. Margt í málinu lærist vel á þennan hátt. Dr. Elín Þöll segir að því sé alveg óhætt að kenna t.d. málfræðireglur í skólum og það geti jafnvel hraðað mjög tungumálakunnáttu að útskýra málið fyrir börnunum.
Rannsóknir sýna að börn sem læra íslensku sem annað mál læra málið mun hægar en börn sem læra tungumál margra annara landa sem annað tungumál. Dr. Elín Þöll hefur velt fyrir sér hvers vegna það sé og hefur sett fram spurningar eins og: Er skóladagurinn á Íslandi of stuttur þar sem hann er um 30% vökutíma barna? Er tryggt að börnin séu í alíslensku málumhverfi á skólatímanum? Horfa börnin á sjónvarp á öðru tungumáli en íslensku? Fara tómstundir fram á íslensku? Hér á landi endurtaka börn ekki bekki nái þau ekki tilskyldum árangri heldur fara áfram í enn erfiðari málumhverfi. Er það hluti af vandanum? Er of mikið framboð af einfölduðu námsefni? Börn læri því ekki flóknari orð sem þau þurfa þó að kunna? Er verið að kenna hagnýta málfræði og markvissa orðaforðakennslu í tengslum við námsefnið?
Elín Þöll nefnir einnig að sú mýta sé í gangi að íslenskan sé svo erfitt tungumál og það geti leitt til þess að ekki séu gerðar nægilegar kröfur til barnanna. Staðreyndin sé hins vegar sú að það sé auðveldara að læra tungmál með flókin beygingarkerfi en einföld.
Í Aðalnámsskrá eru hæfnirammar fyrir íslensku sem annað mál. Nýkomnir nemendur með rofna skólagöngu sem hefja nám í grunnskóla fylgja annars vegar forstigi og hins vegar 1. stigi. Hæfnirammarnir eru þrepaskiptir og lýsa stigvaxandi hæfni nemenda í íslensku sem öðru tungumáli. Römmunum er ætlað að lýsa hæfni sem krafist er í notkun íslensku á öllum sviðum tungumálanáms. Hæfnirammarnir miða ekki við aldur nemandans heldur stöðu hans í íslensku. Þó má gera ráð fyrir að yngri nemendur fylgi viðmiðum í íslensku sem öðru tungumáli í skemmri tíma en þeir eldri.
Forstig er fyrir nemendur með litla sem enga þekkingu á íslensku tungumáli, þá sem eru ólæsir í móðurmáli sínu, þekkja ekki latneskt stafróf eða þurfa sérstaka þjálfun í íslenskum málhljóðum og að tengja þau við rittáknin. Áherslan er á lestur og íslenskt hljóðkerfi á þessu stigi. Þær hæfnilýsingar sem eiga við forstig eru þau viðmið sem unnið skal að. Að loknu forstigi er miðað við að nemendur nái hæfni
sem lýst er á 1. stigi að því gefnu að hæfniviðmiðum forstigs sé náð.
1. stig er fyrir nemendur sem teljast byrjendur í íslensku en eru vel læsir í móðurmáli, þekkja latneskt letur og eiga auðvelt með að tileinka sér íslensk málhljóð og íslensk rittákn. Áhersla er á grunnorðaforða, grunnþekkingu í íslenskri málfræði, einfaldar ritunaræfingar, mikinn lestur og hlustun auk markvissrar talþjálfunar í almennu og daglegu tali.
Hér eru myndirnar af hæfniviðmiðunum á pdf formi.
Gæðum orðin lífi: Hvernig hjálpum við nemendum að tileinka sér orðaforða námsgreina?
Að kenna orðaforða. Glærur frá Donata H. Bukowska.