Gera má ráð fyrir að flestir nemendur sem koma hingað til lands og eiga rofna skólagöngu að baki hafi verið á flótta um lengri eða skemmri tíma. Sumir þeirra koma beint frá heimalandi sínu á meðan að aðrir hafa hrakist á flótta milli landsvæða í eigin landi, á milli landa eða dvalið í lengri eða skemmri tíma í flóttamannabúðum. Líklegt þykir á meðan að þessu tímabili stóð hafi tilveru þeirra verið kollvarpað og þeir lent í aðstæðum sem erfitt er fyrir fólk sem býr við öryggi að skilja til fullnustu. Það er hins vegar mikilvægt að starfsfólk skólasamfélagsins sé meðvitað um að börn á flótta eru að koma úr erfiðum aðstæðum og geta þurft víðtækan stuðning.
Menntun eru mannréttindi og því grundvallarréttur flóttafólks í móttökulandi. Hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna segir líka að menntun sé undirstaða þess að börn á flótta og fjölskyldur þeirra geti endurbyggt líf sitt og dafnað í nýju landi.
Flóttafólki á Íslandi hefur fjölgað umtalsvert á síðustu árum af ýmsum ástæðum. Í takt við þessa fjölgun hefur umsóknum um alþjóðlega vernd einnig fjölgað. Því er enn brýnna að íslenskt skólakerfi sé í stakk búið til að takast á við fjölbreyttari nemendahóp.
Heimild: www.unhcr.org.
Tölfræði verndarsviðs Útlendingastofnunar
Fleiri nemendur með flóttabakgrunn eru í íslenskum skólum en nokkru sinni fyrr, það er því mikilvægt að ræða málefni flóttafólks og fólks í leit að aðlþjóðlegri vernd í skólastofunni. Þannig skapast grundvöllur fyrir aukinni þekkingu og auknum skilnings innan skólasamfélagsins, sem jafnframt dregur úr mögulegum fordómum. Flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna hefur þróað kennsluefni um flóttafólk og er nú íslensk útgáfa kennsluefnisins fáanleg á vefslóðinni: https://www.unhcr.org/neu/is/fraedsla-um-flottafolk. Kennsluefnið samanstendur af myndskeiðum, æfingum, verkefnum og kennarahandbók.
ÁSKORANIR SEM GETA MÆTT BÖRNUM MEÐ FLÓTTABAKGRUNN Í NÝJU LANDI
Þau þurfa að læra nýtt tungumál, vinna upp rofna skólagöngu og aðlagast nýju menntakerfi.
Þau þurfa að læra á nýja menningu, siði og venjur, ásamt skráðum og óskráðum reglum samfélagsins.
Þau gætu þurft að tileinka sér nýjar samskiptaleiðir, ásamt því að eignast nýja vini og þróa með sér sterka sjálfsmynd í nýju landi.
Þau þurfa að takast á við sorg, missi, aðskilnað og áföll.
Þau þurfa að búa í tveimur menningarheimum, sem reynir á að finna jafnvægi á milli fjölskyldu annars vegar og nýja samfélagsins hins vegar.
Þau þurfa að læra að treysta og finna fyrir öryggi í nýja landinu en það er undirstaða alls sem á eftir kemur.