Öll börn eiga rétt á grunnmenntun og ber að tryggja þeim jöfn tækifæri til menntunar. Réttur barna til menntunar er meðal annars tryggður í grunnskólalögum á Íslandi og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem Ísland fullgilti árið 2013. Íslensk menntastefna leggur áherslu á jafnan rétt allra barna til náms og félagslegrar inngildingar. Grunnskólalög kveða einnig á um að skólar eigi að búa yfir móttökuáætlun ef nemandi hefur annað móðurmál en íslensku.
Rannsóknir sýna að skólar gegna mikilvægu hlutverki þegar kemur að menntun og inngildingu barna með flóttabakgrunn, ekki einungis út frá námsmöguleikum, heldur er skóli einnig vettvangur fyrir nemendur til að þjálfa félagstengsl, skapa vináttu með jafnöldrum, læra tungumálið og kynnast nýju samfélagi. Móttöku barna með flóttabakgrunn fylgir ákveðin áskorun, sér í lagi þegar þau hafa rofna skólagöngu að baki. Þau þurfa annars konar nálgun og stuðning þar sem sértækum þörfum þeirra er mætt. Lykilatriði þar að lútandi er að sveitarfélög og skólar hafi fastmótaða stefnu að leiðarljósi, þar sem vísað er til barna með rofna skólagöngu. Skýr skólastefna, með vísan til allra hópa innan skólasamfélagsins, stuðlar að því að allir gangi í takt. Slík sýn er sérstaklega mikilvæg þegar kemur að móttöku og skipulagi náms barna í viðkvæmri stöðu.
LEIÐARLJÓS
Leiðarljós í fjölmenningarmálum og í skipulagi náms barna í viðkvæmri stöðu þarf að móta. Í fjölmenningarfræðum er lögð áhersla á félagslegt réttlæti - sjá í aðalnámskrá, af mannúð og alúð. Fjölmörgum þáttum ber að huga að í þágu farsæls náms barna með rofna skólagöngu.
Stefna byggir fyrst og fremst á því leiðarljósi sem skóli setur sér en þarf einnig að vera raunhæf og taka mið af lögum og skyldum. Það er ekki síður mikilvægt að huga að innleiðingu og framkvæmd stefnu eins og það er að skilgreina hana og móta. Stefna gefur tóninn um sameiginleg gildi og fyrir hvað skólastarfið stendur.