Í kennsluáætlun frá Auðunni Guðna Lund, kennara, í Háteigsskóla má fá mjög góðar hugmyndir um stafainnlögn og lestrarkennslu ásamt fleiru í íslensku sem öðru tungumáli.
Kennsluáætlun í íslensku sem öðru tungumáli frá Íslenskuverinu í Breiðholtsskóla.
Kennsluskipulag í íslensku sem öðru tungumáli (Hringekja).
Kennsluáætlun fyrir nemanda í 2. bekk sem hafði hvorki verið í leik- né grunnskóla.
Fyrir kemur að nemendur á grunnskólaaldri sem hafa aldrei verið í skóla hefji nám í grunnskólum. Það er einstaklingsbundið hvernig best er að bregðast við þegar þannig háttar. Sumir nemendur hafa einhverja þekkingu á því hvað fer fram í skólum og hvernig á að bera sig að á meðan aðrir hafa litla sem enga hugmynd um það. Í öllu falli þarf að búa til einstaklingsmiðaða námsskrá þar sem gerðar eru áætlanir um hvernig eigi að haga kennslunni og gera þarf ráð fyrir að nemandinn fái að minnsta kosti sérstaka kennslu í íslensku, lestri og stærðfræði og aðlagað námsefni í öðrum greinum. Í þeim tilfellum þar sem nemandi hefur litla þekkingu á því hvað felst því að vera í skóla og hefur jafnvel mikla áfallasögu þarf oft að byrja á því að kenna skólafærni. Nemandinn er jafnvel ekki tilbúinn til að vera inn í bekk fullan skóladag og þá þarf jafnvel að grípa til skertrar stundatöflu. Nemandinn þarf að fá tíma til að venjast nýjum aðstæðum, læra hvað er ætlast til af honum og um hvað skólastarfið snýst. Í sumum tilfellunum þurfa nemendur jafnvel að fá maður á mann kennslu um tíma. Þegar nemandanum er mætt á þeim stað sem hann er á með markvissri kennslu og skipulagi má oft ná mjög góðum árangri á stuttum tíma. Eftir því sem nemandinn lærir á kerfið er hægt að lengja stundatöfluna og taka meiri þátt inn í almennum bekk.
Hér er að finna kennsluáætlun fyrir nemanda í 2. bekk sem hafði hvorki verið í leik- né grunnskóla. Hann hafði lítið úthald í kennslustundum og áttaði sig ekki til hvers var ætlast af honum. Það braust út í hegðunarvanda, auk þess lenti nemandinn í útistöðum við aðra nemendur. Ákveðið var í samráði við foreldra að stíga til baka og taka nemandann úr aðstæðum sem hann réði alls ekki við, stytta stundaskrána og veita maður á mann þjónustu í von um að hann myndi öðlast grunnskólafærni fljótt og vel. Þó að þessi áætlun hafi miðast við nemanda sem hóf nám í 2. bekk eftir áramót má vel útfæra hana fyrir eldri nemendur. Áður en hafist er handa ætti að halda fund með foreldrum og nemandanum þar sem farið er yfir helstu skólareglur og kröfur með aðstoð túlks.