Kennslu barna með rofna skólagöngu þarf að skipuleggja vel með fyrri þekkingu og styrkleika þeirra til hliðsjónar. Nauðsynlegt er að nota niðurstöður úr stöðumati til að gera einstaklingsnámskrár barnanna. Skipta má kennslunni gróflega upp í tvær aðferðir. Annars vegar þar sem kennarar leggja inn ákveðinn orðaforða og hins vegar þar sem börnunum eru gefin tækifæri til þess að uppgötva og læra sjálf. Mikilvægt er að notast við báðar aðferðirnar og jafnvel að hafa þær samtvinnanlegar.
Fjölbreytileiki er æskilegur í orðaforðavinnu barna sem eru byrjendur í íslensku með áhersla á hlutbundna vinnu og verkefni sem reynir á fleiri en eitt skilningarvit. Munnleg kennsla ein og sér er ekki vænleg til árangurs en um leið og mynd er bætt við orð aukast líkur á námi til muna. Þegar fleiri skilningarvitum er bætt við aukast líkurnar enn frekar. Til að mynda þegar unnið er með orðaforða tengdum mat er hægt að bæta lyktarskyni við og þegar unnið er með ýmis lýsingarorð er hægt að bæta við snertiskyni.
Vert er að hafa í huga að börn með rofna skólagöngu eru jafnvel í skóla í fyrsta sinn á ævinni þegar þau koma til Íslands. Það er aukið álag að tileinka sér siði og venjur í framandi landi í ofanílag við það formlega nám sem á sér stað í skólanum. Allar aðstæður sem börnin upplifa eru þau að læra og því er mikilvægt að gefa þeim tíma og næði til að draga sig í hlé ef aðstæður verða yfirþyrmandi.
SAMSKIPTI
Leggðu áherslu á samskipti við barnið. Forgangsraðaðu samskiptum og gerðu þau hluta af rútínunni í kennslustofunni. Nemendur í íslensku sem annað tungumál verða að byggja upp orðaforða. Rannsóknir sýna að nemendur tala ekki mikið í skólum. Það verður að skapa aðstæður þar sem reynir á samskipti. Nemendur verða að fá dagleg tækifæri og helst oftar en einu sinni á dag þar sem þeir eru í samskiptum við kennara.
SAMÞÆTTING
Kennarar sem vinna með barnið vita allir hvaða orðaforða er verið að leggja inn og þeir nota þau orð í samskiptum við barnið. Allir kennarar eru íslenskukennarar og eru að vinna að sameiginlegu markmiði að gefa barninu ný orð og um leið að kenna íslensku. Endurtekning er lykilinn að málinu og því oftar sem barnið heyrir orðin og hefur tækifæri til að nota þau því fyrr nær það þeim.
SKIPULAG
Skipuleggðu kennsluna með rútínu í huga. Hafðu flesta daga sem fyrirsjáanlegasta. Þannig að barnið sé alltaf í sömu rútínu. Byrjaðu alla daga eins, reyndu að leggja inn orð á svipaðan hátt, kenndu reglur í skólastofunni eins og hvernig nemendur biðja um að fá að fara á salernið, rétta upp hönd, hvenær má standa upp og svo framvegis.
BRÚ
Mikilvægt er að átta sig á að sumstaðar er hóphyggja meira ráðandi en einstaklingshyggja eins og tíðkast á flestum vesturlöndum. Börn læra þá í gegnum athafnir og þau eru að vinna að sameiginlegum markmiðum. Þar sem einstaklingshyggja ræður ríkjum eins og á Íslandi eru nemendur sjálfir ábyrgir fyrir námi og framförum. Þannig er því ekki háttað alls staðar og þarf að hyggja að því í skipulagi fyrir nemendur sem eru vanari hóphyggju. Börn geta verið vanari að nám fari í gegnum praktíska hluti eins til dæmis að elda mat, gera við hluti eða byggja þá. Þá er gott að byrja á að kenna orðaforðann í gegnum athafnir. Formlegt nám byggist oft upp á huglægan hátt en ekki hlutlægan. Við þurfum að muna að fyrir flesta hentar hlutlægt nám betur.
FRÆÐILEGT
Huga þarf af fræðilega orðaforðanum líka og hvernig best er að kenna hann. Hér er átt við orðaforða sem við tengjum við ákveðnar námsgreinar. Það geta verið heiti á verkfærum í smíð, textíl, sjónlistum og smíði sem og náttúrugreinum, samfélagsgreinum, stærðfræði o.fl. Tengdu saman daglegan orðaforða við þann fræðilega sem nemendur þurfa að tileinka sér til Þess að geta tekið þátt í mismunandi námsgreinum.
TJÁSKIPTATÆKNI OG MYNDRÆNT SKIPULAG
Settu upp myndrænt skipulag á veggi í skólastofunni og þar á meðal stafrófið. Notið myndræna lyklakippu með algengum spurningum eins og að fara á salernið o.fl. Veltu fyrir þér hvort að tæknin muni nýtast.
BYGGJA Á FYRRI ÞEKKINGU
Gerðu einstaklingsáætlun í samvinnu við fjölmenningarteymi skólans eða ÍSAT kennara. Áætlunin á að vera byggð út frá Stöðumatinu. Leggðu áherslu á að vinna út frá fyrri þekkingu, styrkleikum og áhugasviði nemandans.
HLUTBUNDIN VERKEFNI
Nýttu þér verkefni sem eru verkleg til að byrja með sem þjálfa til að mynda tal, fín- og grófhreyfingar.
ORÐAFORÐAÞJÁLFUN
Hafðu stjórn á orðaforðanum sem þú ert að kenna. Ekki leggja inn of mörg orð í einu. Veldu fá orð til að byrja með og orð sem þér finnst mikilvægast að nemandinn nái. Þú getur þurft að umorða, stytta málsgreinar, tala skýrt og hægt. Ekki tala hærra eins og nemandinn heyri ekki. Reyndu frekar að nýta myndir þér til stuðnings eða þá hluti og/eða tækni sem þú hefur tiltæk nálægt þér.
LEGGJA ÁHERSLU Á SAMSKIPTI
Gefðu tækifæri til samskipta reyndu að koma í veg fyrir að nemandi geti svarað spurningum með já, eða nei svörum. Gefðu nemandanum langan tíma til þess að svara. Hann getur þurft að hugsa svarið á öðru tungumáli og síðan yfirfæra það á íslensku.
FJÖLBREYTT NÁMSMAT
Hafðu námsmatið fjölbreytt og mundu að best er að hafa það munnlegt þegar það er hægt. Reyndu að forðast það að hafa það skriflegt sérstaklega til að byrja með.
STYRKJA SKÓLA- OG FÉLAGSFÆRNI
Leyfðu nemendum að vinna saman í hópum en hafðu í huga að það þarf að kenna félagsfærni. Margar óskrifaðar reglur þarf að orða og kenna. Best er að sýna nemendum hvernig þeir eigi að haga sér, setja upp leikþátt um hvernig hópavinna eigi að vera. Kenndu og sýndu þá færni sem þér finnst mikilvæg að nemandinn búi yfir til dæmis hvernig vinna á verkefni, standa í röð og fleira.
LÆSI OG LESTUR
Finndu bækur sem henta aldri nemanda. Það er samt mikilvægt að byrja létt. Hér er möguleiki á að nýta tæknina eins og til dæmis Immersive Reader þar sem þýða má texta á all mörg tungumál og láta tölvuna lesa upp textann.
NÝTA FJÖLBREYTTAN MENNINGARBAKGRUNN
Nýttu þér menningu nemandans og tungumál hans eins og með því að hengja upp algeng orð í hans sterkasta tungumáli og hafa upphafstafi hans sýnilega ef hann tilheyrir ekki íslenska stafrófinu. Biddu nemendur um að kynna sína menningu til dæmis með verkefni eins og menningarmóti.
VÆNTINGAR
Hafðu væntingar þínar til nemandans í samræmi við getu hans. Þegar hann vex þá eykur þú væntingar þínar. Mundu að hann er að öllum líkindum að stíga sín fyrstu skref í skóla og það getur verið margt sem hann þarf að venjast og yfirstíga á sama tíma.
ÁSKORANIR
STÖÐUMAT
Eitt af því fyrsta sem ætti að gera þegar nýr nemandi með rofna skólagöngu kemur í skólann er að reyna að finna út hvar hann stendur námslega. Það má til dæmis gera með Stöðumatinu. Sumir gætu hafa dregist lítilega aftur úr á meðan aðrir hafa misst mörg ár úr skóla eða jafnvel aldrei gengið í skóla.
TUNGUMÁLAKENNSLA
Allir nýkomnir nemendur þurfa að læra íslensku. Skólinn þarf að bjóða upp á öfluga og markvissa íslenskukennslu þar sem stuðst er við námsmarkmið í íslensku sem öðru tungumáli samkvæmt aðalnámskrá.
UPPRUNI
Nemendurnir koma oft frá löndum sem eru mjög ólík Íslandi að öllu leyti. Þeir koma jafnvel frá löndum þar sem hefðir varðandi menntun er gjörólík því sem við eigum að venjast. Nemendurnir eru því vanir öðruvísi kennsluaðferðum, agatækni, kennsluáætlunum, námsskrá, siðum og náms- og matsaðferðum. Til að lágmarka misskilning ætti að veita nemendum eins miklar upplýsingar um skólalífið og hægt er. Til að auðvelda það er æskilegt að fá túlk til að túlka samtalið. Þá er einnig mikilvægt að skipuleggja skólastarfið þannig að það komi til móts við nýja nemandann og að vel sé tekið á móti honum svo að hann upplifi að hann sé velkominn sem er fyrsta skrefið í átt að örygginu sem er mikilvæg undirstaða alls.
ÁFÖLL, STREITA OG GEÐHEILSA
Mörg börn sem hafa verið á flótta hafa upplifað hræðilega atburði og jafnvel orðið fyrir ofbeldi eða misnotkun. Þá hafa mörg þeirra lagt í mikla hættuför til að komast í öruggt skjól. Þessar upplifanir hafa hugsanlega valdið þeim streitu eða alvarlegum kvillum eins og áfallastreituröskun. Þá getur sá tími sem líður frá því að nemandinn óskar eftir vernd hér á landi og honum er veitt vernd einnig verið mjög streituvaldandi. Biðin er oft löng og óvissan mikil. Ef nemandinn þjáist af áfallastreitu eða geðröskunum getur það leitt til þess að nemandinn á erfitt með að læra og hegðun verður ábótavant. Það getur haft áhrif á andrúmsloftið í bekknum og valdið truflun á námi og vellíðan annara nemenda. Það er því mikilvægt að þekkja til áfallamiðaðar nálgunar í skólastarfi til að geta sem best komið til móts við nemandann. Í flestum tilfellum batnar andleg líðan nemandans þegar hann kemst í öruggt og uppbyggilegt námsumhverfi.
STUÐNINGUR VIÐ KENNARA OG STARFSFÓLK
Styrkja þarf kennara og starfsfólk með fræðslu og ráðgjöf varðandi málefni og aðstæður barna með flóttabakgrunn og veita þeim nauðsynlegan stuðning svo sem með handleiðslu.
Heimildir: Fyrirlestur og glærur: Kristrún Sigurjónsdóttir,
kennslufulltrúi fjölmenningar hjá Hafnarfjarðarbæ
https://www.unhcr.org
MARGÞÆTTUR STUÐNINGUR Í SKÓLUM
Nemendur með rofna skólagöngu þurfa á margþættum stuðningi að halda í nýjum aðstæðum. Leggja þarf áherslu á að styðja þá jafnt námslega, félagslega og tilfinningalega. Þegar lögð er áhersla á alla þessa þætti er líklegra að nemendur farnist betur í leik og starfi.
Tveir í takt er aðferð til að taka á móti nýjum nemendum. Þær Sólveig Magnúsdóttir og Hekla Hannibalsdóttir þýddu bækling úr dönsku. Hér er hægt er að nálgast skjal sem kennarar geta útfært að vild.