Áfallamiðuð kennslufræði er aðferð sem miðar að því að koma til móts við þarfir barna sem eiga sér áfallasögu, að skólasamfélagið skilji hvað liggur að baki þeirra andlegu, félagslegu, tilfinningalegu og námslegu erfiðleika sem liggja að baki þeirra barna sem takast á við áföll. Starfsfólk lærir að takast á við áfallaviðbrögð á nýjan hátt. Þegar börn komast í tilfinningalegt uppnám eða bregðast við aðstæðum á óæskilegan máta heldur starfsmaðurinn ró sinni í stað þess að aga barnið, setja því skilyrði og hömlur. Hann reynir að skilja og finna út hvað það var sem olli viðbrögðunum. Starfsfólk ætti að temja sér að horfa á barnið í gegnum áfallagleraugu. Ekki einungis á þau börn sem hafa verið á flótta heldur öll börn því rannsóknir sýna að stór hluti barna upplifa einhverskonar áföll og því fleiri áföll sem einstaklingur lendir í því líklegra er að þau hafi líkamleg og andleg áhrif á hann.
Heimild: Karen Nóadóttir. Hvað kom fyrir þig? Áfallamiðuð nálgun í framhaldsskólum.
Óumbeðin snerting, hækkaður rómur og háðslegar athugasemdir um fjölskyldumeðlimi eru allt dæmi um hugsanlegar kveikjur á endurupplifun áfalls. Þetta er þó ekki tæmandi listi þar sem það er mjög einstaklingsbundið hvað það er sem vekur upp áfall. Mikilvægt er að reyna að koma auga á hvað það er sem veldur því hjá hverjum nemanda. Þannig má draga úr líkum á kveikjum og bregðast við á viðeigandi hátt komi þær óvart upp. Leggja ætti áherslu á gagnkvæma virðingu á milli allra í kennslustofunni, auka tengslamyndun og draga úr valdabaráttu. Börn sem hafa orðið fyrir áföllum og áfallastreitu segja að það sé nauðsynlegt að kennarar sýni þeim fullan áhuga, hafi trú á þeim og geri til þeirra miklar kröfur. Þau segja að litlar væntingar til árangurs dragi enn frekar úr áhuga á námi.