Tjáskipti þýða mun meira en að tjá sig í mæltu máli. Tjáskipti snúast ekki einungis um upplýsingar eða fyrirmæli, heldur einnig og jafnvel meira um tilfinningar, líðan, vilja og óskir og ekki síst nánd og tengingu við aðra manneskju.
Tjáskipti snúast um að skapa merkingu saman, upplýsa um hana og viðhorf, hafa skoðanir á henni og þau þróast þegar sjónarmið okkar mætir sjónarmiðum annarra. Það að skiptast á tilfinningum og fá staðfestingu annarra á upplifun sinni, óskum og vilja er það sem allir sækjast eftir.
Þegar nemandi talar hvorki né skilur íslensku er áskorun fyrir alla. Veita þarf því tækifæri til annars konar tjáskipta en í mæltu máli. Tjáskipti snúast ekki bara um upplýsingar eða fyrirmæli heldur einnig um tilfinningar, líðan, vilja og óskir ásamt upplifun af nánd og tengingu við starfsfólk og samnemendur. Sameiginleg tjáskipti veita öryggi, skýra væntingar og gera nemendum kleift að tjá grunnþarfir sínar og annað mikilvægt. Áhrifarík tjáskipti eiga sér stað þegar annar aðili skilur tilgang og merkingu tjáskipta. Með hvaða móti tjáskiptin fara fram er aukatriði svo lengi sem sameiginlegur skilningur er á tjáningunni.
Hið sjónræna er það sem við flest öll eigum sameiginlegt og er óháð tungumáli.
Kennari þarf að setja sig í spor nemanda sem skilur ekki né les íslenskt mál og getur ekki gert sig skiljanlegan. Það er mjög hjálplegt þegar myndrænt skipulag og tjáskiptaform er til staðar í skólastofunni. Sem dæmi má nefna:
myndræna stundatöflu
kippur með myndum til helstu grunntjáskipta (hægt að hafa í hálsbandi)
myndrænan tilfinningavegg
tjáskiptaborð/tungumálamottur
myndræn og sýnileg orð og hugtök sem nemendur tengja við svo sem vinir, fjölskylda, heimili, leikir, skólastofa og annað námstengt.
Það er einnig mikilvægt að leggja ávallt áherslu á talað mál/íslenskuna samhliða notkun á myndrænum tjáskiptum svo nemendur tileinki sér orðin og læri að nota þau.
Myndrænar skólareglur
Til að geta farið eftir reglum sem gilda í skólanum þurfa þær að vera sýnilegar og á áberandi stöðum. Fyrir börn sem eru byrjendur í íslensku er mikilvægt fyrir þau að hafa slíkar reglur myndrænar og með einföldum táknum. Efni í myndrænu formi er það sem fólk á hvað auðveldast með að skilja.
Sjónræn stundatafla og tilfinningaspjöld
Sjónræn stundatafla á íslensku og arabísku
Tilfinningaspjöld