Líklegt er að börn sem hafa verið á flótta og eru með rofna skólagöngu að baki séu að koma úr aðstæðum þar sem þau hafa orðið fyrir áföllum. Börn hafa í mörgum tilfellum sára lífsreynslu að baki sem gerir það að verkum að þau eiga bágt með að bregðast við „eðlilegum“ kringumstæðum á „eðlilegan“ hátt. Hætt er við því að börn með flóttabakgrunn fái á sig þann stimpil að þau séu óalandi og óferjandi. Staðreyndin er hins vegar sú að börnin ráða ekki yfir viðbrögðum sínum þar sem að afleiðingar áfallanna hafa tekið yfir. Það er því mikilvægt að þeir sem starfa með börnum sem hafa upplifað áföll og þjást af áfallastreitu þekki einkennin, geti skilið þau og beitt aðferðum sem gagnast.
LÍFFRÆÐI- OG LÍKAMLEG
ÁHRIF ÁFALLA
Áfallastreita er lífeðlisfræðileg viðbrögð líkamans við langvarandi og mikils magns streituhormóna í líkamanum. Þetta ástand verður til þess að líkaminn nær ekki að koma jafnvægi á streituhormónaflæði líkamanns og það leiðir til sálræns- og líkamlegs skaða í heila og taugakerfinu. Hjá börnum getur þetta ástand haft skaðleg áhrif á þroska heilans og getur til dæmis leitt til málþroskavanda, lakri félagslegra- og tilfinningalegrar hæfni sem og vitrænnar getu. Stöðug og langvarandi streita hefur einnig þau áhrif á heilastarfsemina að getan til að greina á milli ólíkra aðstæðna minnkar og þar með er líklegra að einstaklingurinn misskilji og bregðist við af öfgakenndum hætti, jafnvel við sárasaklausum aðstæðum. Þá getur þeim reynst erfiðara að hafa stjórn á tilfinningum, hvötum og rökhugsun. Líkamleg viðbrögð við langvarandi streitu geta birst til dæmis sem hjartsláttartruflanir, svefntruflanir, magaverkir, útbrot, hormónaójafnvægi og síendurteknar sýkingar og veikindi. Af ofansögðu má því draga þá ályktun að verði nemendur fyrir áföllum og skaðlegri streitu hafi það áhrif á líkamsstarfsemina, virkni heila og þar með námshæfni og vitræna getu.
Heimild: Guðný Jórunn Gunnarsdóttir. Áfallamiðaðir kennsluhættir.
Frásögn af því hvernig ósjálfráði hluti heilans tekur völdin þegar að hann heldur að hætta steðji að
Nemandi í 10. bekk ákvað að fara með bekkjarfélögum sínum í bíó. Þegar þeir eru við það að ganga inn í anddyrið ekur mótorhjól fram hjá og um leið heyrist hvellur úr púströri þess. Nemandinn hendir sér í gólfið, hniprar sig saman og ver höfuð sitt með höndunum. Félagar hans fara að skellihlæja og spyrja hvað sé eiginlega að honum. Nemandinn verður skömmustulegur og veit ekki hverju hann á að svara. Honum líður illa yfir að hafa gert sig að fífli fyrir framan félaga sína. Nokkru síðar á hann tíma hjá sálfræðingi sem hann fer reglulega til. Hann segir honum frá atvikinu og spyr hvers vegna í ósköpunum hann hafi gert þetta þar sem hann viti alveg að hann sé óhultur fyrir sprengingum á Íslandi. Sálfræðingurinn útskýrir þetta fyrir honum. Það má hugsa sér heilann eins og öfugan þríhyrning sem búið er að skipta í fjögur lög. Í efsta laginu er þróaðasti hluti heilans og þar fer til dæmis fram rökhugsun. Hin þrjú lögin eru frumstæðari hlutar heilans. Þar skynjum við til dæmis lykt, hljóð, snertingu og bragð. Þar fer engin rökhugsun fram. Þegar þú heyrðir sprengjuhvellinn brást frumstæði hluti heilans ósjálfrátt við. Um leið og þú heyrðir hvellinn sagði frumstæði hlutinn þér að henda þér í jörðina og leita þér skjóls til að forða þér undan sprengjum. Það voru þessi viðbrögð sem héldu í þér lífinu í gamla heimalandinu þínu. Þegar frumstæði hluti heilans heyrði hvellinn fyrir utan bíóið sagði hann þér að gera það sama og þú varst vanur að gera þegar þú heyrðir sprengjuhvell. Hann hélt að þú værir í raunverulegri lífshættu. Það var enginn tími til að senda boðin upp í efsta lag heilans þannig að þú gætir tekið meðvitaða ákvörðun um að kasta þér ekki í gólfið þar sem þú ert staddur núna í örygginu á Íslandi. Slíkt hik hefði geta kostað þig lífið áður. Það var engin leið fyrir þig að bregðast við á annan hátt í þessum aðstæðum.
Viðbrögð við áfallastreitu geta birst á ólíkan hátt hjá börnum. Á meðan sumir beina sársaukafullum tilfinningum meira inn á við, eru bældari, láta sem minnst fyrir sér fara og eru líklegri til að glíma við sjálfskaðandi hegðun eru aðrir hins vegar líklegri til að fá tilfinningalega útrás sem birtist í hegðunarvanda, slagsmálum og jafnvel afbrotum. Stúlkur eru líklegri til að bæla tilfinningar sínar og leita inn á við á meðan drengir verða oftar baldnir. Drengir sýna gjarnan hegðunarerfiðleika á borð við skapofsa, tilefnislaus áflog og ögranir. Stúlkur hins vegar geta sýnt kaldlyndi, verið hrokafullar, ósvífnar og sýnt óbeina árásargirni sem kemur til dæmis fram í því þær slúðra og finna sér skotmark til að niðurlægja með það að leiðarljósi að upphefja sjálfsmynd sína. Á hinn bóginn geta stúlkur sem þjást að áfallastreitu einnig lagt ofur áherslu á að halda friðinn og eiga þessar stúlkur á hættu að lenda undir hælnum á öðrum.
Börn sem hafa orðið fyrir áföllum og áfallastreitu eru líklegri til bregðast harkalega við aðstæðum sem öðrum þykja eðlilegar. Þau geta sýnt ofurárverkni eða mistúlkað samskipti og félagslegar aðstæður. Þrátt fyrir að börn séu komin í öruggt umhverfi er líklegt að þau endurupplifi þær tilfinningar sem áfallið olli. Lykt, hljóð, bragð og dagsetningar geta til dæmis vakið upp slæmar minningar, erfiðar tilfinningar og hugsanir eða aðra tilfinningalega skynjun sem kemur fyrirvaralaust. Þetta getur svo ýtt undir viðbrögð hjá börnum eins og til dæmis óhlýðni, reiðiköst eða árásargirni. Þá geta börn átt til að þróa með sér svokallaða forðun sem birtist til dæmis í því að nemendur forðast líkamlega áreynslu þar sem hún getur vakið upp óþægilegar tilfinningar frá því að áfallið átti sér stað og varð til þess að þeir urðu til dæmis móðir eða hjartsláttur jókst. Þessi forðun getur birst í ótal myndum sem oft er erfitt að tengja við áfall á augljósan hátt.
Börn sem eru haldin áfallastreitu sýna oft litla stjórn á geðslagi. Þau finna oft fyrir kvíða, fælni og þunglyndi. Þau hafa einnig oft slaka sjálfsskynjun og verða samdauna ástandi sínu. Þau geta líka staðið höllum fæti varðandi færni í félagslegum samskiptum. Þau geta sýnt óviðeigandi hegðun en gera sér ekki grein fyrir afleiðingum hennar, eiga erfitt með að setja sig í spor annarra, treysta öðrum eða aðlaga sig að þörfum annarra. Þau mistúlka viðbrögð og félagslegar aðstæður og þeim getur gengið erfiðlega að hafa stjórn á hvatvísi, skapi og árásargirni.
Heimild: Guðný Jórunn Gunnarsdóttir. Áfallamiðaðir
kennsluhættir. Karen Nóadóttir. Hvað kom fyrir þig? Áfallamiðuð nálgun í framhaldsskólum.
Í ljós hefur komið að börn sem búa yfir áfallasögu ná oft lakari námsárangri en önnur börn. Margþættar ástæður geta legið þar að baki. Það getur reynst börnum sem hafa upplifað mikla áfallastreitu erfitt að takast á við þær kröfur sem gerðar eru í skólastofunni varðandi það til dæmis að halda athygli og einbeitingu, leggja á minnið, skipuleggja sig, skilja og hafa stjórn á skapi sínu og hegðun. Hugur barna og orka er upptekin af þeim sársauka sem þau hafa upplifað og því hafa þau litla getu að takast á við önnur verkefni eins og nám. Stundum birtist þetta í því að einn daginn man barnið það sem það hefur lært en ekki þann næsta. Þá getur mikil vanlíðan á borð við þunglyndi, kvíða og hegðunarvandi hamlað virkni í skóla.
Heimildir: Guðný Jórunn Gunnarsdóttir. Áfallamiðaðir kennsluhættir. Karen Nóadóttir. Hvað kom fyrir þig? Áfallamiðuð nálgun í framhaldsskólum.
Að flytjast á milli landa og menningarheima getur verið börnum og ungmennum það erfitt að hægt er að tala um menningaráfall. Mikið tilfinningalegt uppnám við flutninga getur gengið nærri börnum en þau hafa þurft að segja skilið við sitt fyrra líf, heimili, vini og ættingja. Við taka framandi og jafnvel gjörólíkar aðstæður bæði í umhverfi og félagslegar. Það getur verið mikill streituvaldur að skilja ekki fyllilega umhverfið og tungumálið í framandi landi og börn upplifa oft einnig vanmátt foreldra sinna til að aðstoða þau.
Menningaráfall hefur verið greint í fimm stig:
Fyrsta stigið, sem oft er kallað hveitibrauðsdagar, einkennist af spennandi tíma og væntingum til nýja landsins.
Annað stigið er hið raunverulega áfall. Það einkennist af almennri vanlíðan, kjarkmissi og brotinni sjálfsmynd. Þá sýnir fólk gjarnan fjandsamlega afstöðu gagnvart gestgjafalandinu.
Þriðja stigið einkennist af því að fólk hellir sér í nýja lifnaðarhætti. Þetta stig kemur oftast í lok fyrsta ársins. Samskipti við innfædda nást og þekking á nýrri menningu eykst.
Fjórða stigið er eins konar lokastig aðlögunarinnar og einkennist af aðlögun og fullri þátttöku í nýju samfélagi.
Fimmta stigið hefur örlítið aðra hlið eða ef/þegar fólk flytur aftur til heimalands síns. Það getur kallað fram annars konar menningaráfall eða endurkomuáfall sem er afleiðing af því að viðkomandi hefur verið lengi í burtu frá heimalandi sínu.
Auk ofangreinds eru erlendar fjölskyldur oft án náinna ættingja og vina.