Öll vilja tilheyra og skipta máli. Börn með flóttabakgrunn standa frammi fyrir þeirri áskorun að aðlagast breyttum aðstæðum og er því brýnt að þau upplifi að þau tilheyri samfélagi. Skólar gegna þar áríðandi og þörfu hlutverki. Fyrsta og jafnframt mikilvægasta skrefið sem skólar þurfa að stíga í samvinnu við fjölskyldur með flóttabakgrunn er að skapa traust á milli þeirra og meðlima fjölskyldnanna.
Í grunnskólalögum kveður á um að skólar skuli taka á móti börnum sem eru að hefja nám sitt hér á landi samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Móttökuáætlun vegna barna með annað móðurmál en íslensku skal taka mið af bakgrunni þeirra, tungumálafærni og færni á öðrum námssviðum. Tryggja á að börn og foreldrar fái ráðgjöf og aðgang að upplýsingum um grunnskólastarf. Í tilvikum barna með flóttabakgrunn og rofna skólagöngu er vel mótuð móttökuáætlun nauðsynleg.
Til að stuðla að farsælli móttöku þarf skóli að hafa fastmótaða stefnu og móttökuáætlun sem allir starfsmenn skólans eru meðvitaðir um. Það er mikilvægt að kennarar og starfsfólk hafi þá þekkingu og hæfni sem til þarf þegar kemur að móttöku barna með flóttabakgrunn og að það sé vel upplýst um aðstæður hverju sinni. Einnig er mikilvægt að ábyrgðaraðili sé til staðar innan skólans eða virkt fjölmenningarteymi. Ábyrgðaraðilar sinna því hlutverki að hlúa að skólastarfi í þágu viðkomandi hóps barna og fjölskyldna þeirra. Þeir þurfa líka að stuðla að jákvæðu viðhorfi í þágu verkefna sem þeim tengjast. Þeirra hlutverk felst auk þess í því að taka faglegar ákvarðanir sem varða nám barna af erlendum uppruna, afla þekkingar sem skortir innan skólans og tryggja að allir starfsmenn fái viðeigandi upplýsingar og fræðslu. Ásamt stefnu er samvinna allra lykilatriði í þessu samhengi sem og stuðningur stjórnenda.
GAGNLEGIR TENGLAR
Móttökuáætlun Reykjavíkurborgar
Á vef Miðju máls og læsi er mikið af gagnlegum upplýsingum. Hér er krækja í upplýsingar sem henta vel ólæsum foreldrum.
Á vefnum Tengjumst eru myndbönd á fjórum tungumálum sem fjalla um mikilvæg málefni tengd skólagöngu barna.
Á vefnum Landneminn.is koma fram ýmsar upplýsingar um íslenskt samfélag. Upplýsingarnar eru á 9 tungumálum. Tilvalið er að benda foreldrum á vefinn eða senda þeim krækjuna.
Hjá Reykjavíkurborg starfa brúarsmiðir. Markmið þeirra er að byggja brú á milli fjöltyngdra barna og foreldra þeirra. Þeir halda úti Fésbókarsíðum sem ef til vill geta nýst foreldrum í öðrum sveitarfélögum: Hér eru krækjur í síður á arabísku, filippeysku, pólsku og úkraínsku.