Flóttafólk er ekki einsleitur hópur enda um einstaklinga að ræða sem koma úr ólíkum aðstæðum. Það á þó sameiginlega reynslu að baki; að hafa neyðst til að flýja heimaland sitt vegna stríðsátaka, ofbeldis, ofsókna eða annarra aðstæðna. Sú tilvera sem fólk hefur skapað sér verður eftir í heimalandinu. Í viðtökulandi tekur oft við erfitt tímabil þar sem fólk býr við slæman kost og mikla óvissu á meðan að mál þeirra eru til vinnslu. Þegar því ferli er lokið hefst svo nýtt líf í nýjum aðstæðum sem reynir meðal annars á efnahags- menningar- og félagslega getu fólks. Það þarf að læra að fóta sig í nýju samfélagi þar sem reglur, menning og tungumál getur verið gjörólíkt því sem fólk hefur átt við að venjast.
Alls kyns áskoranir mæta flóttafólki í nýju samfélagi, ber þar einna helst að nefna húsnæðis- og atvinnutengd mál. Einnig getur reynst flókið að skrá börn í skóla og erfitt getur verið að eiga samskipti við aðila innan skólasamfélagsins. Sumt fólk finnur fyrir fordómum en slík reynsla getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd þess. Margt flóttafólk hlýtur einhvers konar skaða af reynslu sinni sem það þarf í ofanálag að vinna úr.