Félagsfærni er lærð hegðun sem börn læra í uppvextinum af þeim sem þau umgangast mest og ýmsum öðrum fyrirmyndum sem þau líta upp til. Góð félagsfærni er grunnur að góðum samskiptum og vellíðan. Nemendur sem eru nýkomnir til landsins og hafa alist upp við ólíka menningu, gildi og viðmið lenda stundum í vandræðum í samskiptum. Þeir þekkja ekki til hvers er ætlast til af þeim eða þær skráðu og óskráðu reglur sem gilda í nýja samfélaginu. Á sama hátt þekkja íbúar nýja samfélagsins oft ekki til menningarinnar, gildanna, viðmiðanna og óskráðu reglnanna þaðan sem barnið kemur. Það sem þykir eðlilegt í þeirra menningu getur verið óviðeigandi í íslenskri menningu og svo öfugt sem getur valdið því að nemendur lenda í árekstrum, virða ekki mörk, segja óviðeigandi hluti og svo framvegis. Þetta getur svo leitt til þess að nemendur einangrast og eiga erfitt uppdráttar. Það er því mikilvægt að kenna báðum hópum umburðarlyndi og þjálfa þá í félagsfærni.
Vinátta er mikilvægur þáttur í félags- og tilfinningalegum þroska barna. Góð samskipti við jafnaldra eflir sjálfsvirðingu og tilfinningafærni. Hægt er að kenna börnum félagsfærni og góð samskipti og þjálfa þau í samningaviðræðum og að leysa úr vandamálum. Börn læra í gegnum vináttu að bera virðingu, sýna samkennd og skilja hvort annað. Færni í félagslegum samskiptum hafa jákvæð áhrif á andlega líðan barna og er mikilvæg fyrir framtíðina, s.s. skólagöngu og síðar vinnumarkaði.
Börn sem eru skilin út undan og er hafnað eru hins vegar líklegri til að sýna andfélagslega hegðun og tilfinningalega erfiðleika. Þau geta upplifað einmanaleika, reiði, kvíða og dapurleika og eru líklegri til að verða fyrir einelti eða áreiti en aðrir. Þau upplifa því ekki jákvæð tengsl við aðra og þar með þróast ekki félagsfærni þeirra sem hefur bein neikvæð áhrif á fullorðinsár.
Það er því mikilvægt að fylgjast vel með samskiptum nemenda og bregðast við sýni sig að nýkomna nemandanum er hafnað og hjálpa honum og hinum að skilja þær félagslegur væntingar sem gerðar eru til þeirra.
The Fast Track Friendship Group Manual. Bierman, K.L., o.fl.
Ákveðin áskorun felst í því að kenna nemendum sem ekki skilja tungumálið félagsfærni en með hjálp mynda, þýðingaforrita og leikrænnar tjáningar má aðlaga námsefnið þannig að nemendur skilji það sem um er að ræða. Í Bjargi í Hvaleyrarskóla, sem er móttökudeild fyrir nemendur í leit að alþjóðlegri vernd hefur verið lögð áhersla á að kenna félagsfærni. Þar hefur námsefnið Geðrækt og vellíðan nemenda, verkefnabanki náms og starfsráðgjafa reynst einkar vel. Í bókinni sem er þróunarverkefni er að finna hagnýt verkefni sem nýtast í vinnu með börnum. Verkefnin í bókinni hafa þær Helga Rúna Þorsteinsdóttir, Katrín Anna Eyvindardóttir og Rósa Simsen, náms- og starfsráðgjafar, sett saman og staðfært. Í bókinni er að finna verkefni fyrir nemendur á aldrinum 6 - 12 ára. Bókina er hægt að panta á: katríney@hofstaðaskoli.is eða rosasi@sjalandsskoli.is. Félagsfærnisögur hafa einnig reynst vel. Hér er krækja á síðu þar sem finna má góðar félagsfærnisögur og hér er krækja á síðu þar sem hugmyndafræðin á bak við félagsfærnisögur er útskýrð, farið yfir hvað þær eiga að innihalda og gefin góð ráð um hvernig best er að búa til sínar eigin félagsfærnisögur. Hér er krækja í ýmis spil sem þjálfa félagsfærni og hér er krækja í Félagsfærnispilið. Hér er svo krækja á síðu þar sem hefur verið safnað saman ýmis konar efni sem nýta má til að efla félagsfærni nemenda.
FÉLAGSLEGAR OG TILFINNINGALEGAR ÞARFIR
Vegna upplifana og reynslu barna með rofna skólagöngu er líklegt að þau séu að vinna úr áföllum sem þau hafa orðið fyrir á ævi sinni. Þau geta einnig verið að upplifa eftirfarandi þætti:
Aðskilnað frá fjölskyldu, vinum og vandamönnum sem getur valdið félagslegri og sálrænni einangrun.
Átt í erfiðleikum með sjálfsmynd sína.
Ekki áttað sig á tilfinningum sínum eða hvar þau tilheyra og hver tilgangur þeirra er.
Takmarkað stuðningsnet.
Erfiðleika með að aðlagast nýju umhverfi og menningu.
Þessar og aðrar félagslegar og tilfinningarlegar upplifanir geta þess vegna vakið upp erfiðleika í samskiptum. Einnig þarf barnið að reyna að eignast vini í umhverfi sem er með fullt af nýjum óskrifuðum reglum sem þarf að fara eftir og mögulega er umhverfið fjandsamlegt því. Hvernig getur umsjónarkennari stutt við barnið í þessum aðstæðum? Þegar kennari skilur hvað getur verið að hrjá barnið á hann mun auðveldara með að styðja við það. Það þarf ekki að vera sálfræðingur til þess að sýna samúð og stuðning. Skipulagt og fyrirsjánlegt skólaumhverfi er góður grunnur og stuðningur við barnið.
Börn með rofna skólagöngu eiga oft í erfiðleikum með:
Reglur í samskiptum í nýju umhverfi, til dæmis hvernig á að ávarpa fólk, hvernig þú truflar einhvern á kurteisislegan hátt og svo framvegis.
Hvernig á að ráðleggja öðrum, biðja um eitthvað, neita kurteisislega og svo framvegis.
Hvernig lýsa á skoðun sinni á kurteisislegan hátt.
Ráð til að efla félagsfærni:
Bein vinna með barninu. Félagsfærnisögur og vinahópar.
Kennsla í samskiptafærni.
Kenna og styrkja félagsleg gildi og hegðun.
Byggja upp sjálfstraust barnsins.
Hlutverk kennara:
Að tryggja að barninu líði vel í skólaumhverfinu, að byggja upp gagnkvæmt traust.
Að fara í gegnum daginn með barninu og undirbúa allar aðstæður þar sem ramma sleppir og kennari hefur ekki yfirsýn (frímínútur, matsalur, leikfimi, sund). Gott er að styðjast við félagsfærnisögur í þeirri vinnu.
Að para barnið með við félagslega sterkan einstakling í þessum aðstæðum og vera búinn að tala við barnið og undirbúa hvað það geri í erfiðum aðstæðum. Bæði mætti nota hlutverkaleiki og félagsfærnisögur. Verkefnið Tveir í takt gæti nýst vel í þessari vinnu.
Að koma á vinahópum í frímínútum og eða eftir skóla í samvinnu við foreldra. Dæmi um útfærslu á vinahópum.
Að brjóta upp þann tíma sem barnið er í frjálsumleik til að byrja með þar sem sum börn þurfa að læra að leika sér við aðra.
Að vera í góðu samstarfi við foreldra er mjög mikilvægt þar sem foreldrar geta viðhaldið vinatengslum sem komið er á í skóla. Einnig geta foreldrar farið yfir þá félagsfærni sem verið er að vinna með í skóla og notað félagsfærnisögur í því sambandi.
Nota umbunarkerfi til að styrkja hegðunina og viðhalda henni. Margt sem nú þegar er gert í skólanum, s.s. lausnir á ágreiningi, skapgerðarfræðsla, lífsleikni, samvinnunám, má nota til þess að auka félagslega hegðun og samskipti nemenda.
Hér á eftir eru dæmi um félagsfærni sem börn geta átt í erfiðleikum með og mætti kenna sérstaklega:
Hvernig hlusta skal á aðra án þess að grípa fram í.
Hvernig taka má þátt í samræðum án þess að yfirtaka umræðuna.
Hvernig hefja má samræður og samvinnu við aðra.
Hvernig vera má ósammála.
Hvernig veita má og þiggja hrós/gullhamra.
Hvernig deila skal með öðrum og skiptast á.
Hvernig biðja skal um hjálp.
Hvernig fara má í leik og sætta sig við að tapa.
Hvernig biðja skal fyrirgefningar.
Almennir mannasiðir – nota orð og líkamstjáningu sem eru kurteisleg.
Vitund nemenda um réttu aðferðirnar er aukin með því að gefa góðar fyrirmyndir, taka eftir þeim og hvetja þegar þeir sýna félagsfærni, bæði í og utan kennslustofu.
Þegar leiðbeint er og leiðrétt, er þess gætt að það sé hvorki gert af dómhörku né þannig að nemandinn verði vandræðalegur, heldur sé til þess fallið að kenna jákvæða félagslega framgöngu.
Heimildir: Luis Javier Pentón Herrera, Brenda Custodio, Judith O’Loughlin og Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu.