Þar sem líklegt er að börn með rofna skólagöngu hafi upplifað áföll á lífsleiðinni er vert fyrir þá sem starfa með þeim að kynna sér hugmyndafræði um áfallamiðaða nálgun. Hugmyndafræðin byggir á að viðkomandi hafi þekkingu og skilning á áföllum, algengi þeirra og afleiðingum. Horft er til þeirra áhrifa sem áfallið hefur á sjálfsvitund barnsins og viðhorf þess til annarra. Hugmyndafræðin gengur út á að barninu er veitt náin athygli og horft á það sem heild. Líf þess og hegðun er skoðuð út frá sögu þess, því sem það varð fyrir og upplifði. Með því að horfa á barnið þessum augum fæst aukinn skilningur á viðbrögðum þess og þau bjargráð sem það grípur til í ákveðnum aðstæðum. Bjargráðin eru ekki endilega þau sem gagnast því best í daglegum aðstæðum í skólanum heldur þau sem það hefur þróað með sér vegna þess sem það upplifði. Þau gögnuðust barninu áður í svipuðum aðstæðum og því heldur það áfram að nota bjargráðin í nýju aðstæðunum. Barnið þarf að fá hjálp við að læra ný og betri bjargráð. Áfallamiðuð nálgun er ekki meðferð sem slík heldur er barninu mætt á forsendum þess, aðstæður eru sniðnar að þörfum barnsins þannig að það upplifi sig bæði öruggt og velkomið. Markmiðið er að barnið öðlist trú, skilning og stjórn á lífi sínu, og hegðun, með því að kenna því jákvæð bjargráð.
Eigi áfallamiðuð nálgun að standa undir nafni ættu allir sem koma að barninu að hafa að minnsta kosti grundvallarþekkingu á áföllum. Best er þó þegar allir í skólanum starfa í anda áfallamiðaðrar nálgunar. Hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að þó að einungis einn fullorðinn aðili í skólanum tileinki sér þessa nálgun og nái til barnsins að það geti skipt sköpum. Rannsóknir sýna að góð tenging barns, þó ekki sé við nema einn fullorðinn einstakling í skólanum, getur haft mikið að segja um farsæld þess og framtíð.
Heimild: Karen Nóadóttir. Hvað kom fyrir þig? Áfallamiðuð nálgun í framhaldsskólum.
ÖRYGGI
Í áfallamiðaðri nálgun þarf fyrst og fremst að tryggja öruggar aðstæður en án öryggis á lítil framför sér stað. Þetta á bæði við um líkamlegt og sálrænt öryggi. Nemandi og kennarar áveða saman hvað þarf til að skapa slíkar aðstæður. Kennarar og skólastjórnendur bera svo ábyrgð á því að því sé framfylgt.
TRAUST
Traust og gagnsæi þarf að ríkja í upplýsingagjöf og samskiptum. Nemandinn er hafður með í ráðum og upplýstur. Hann er upplýstur um ákvarðanatökur, breytingar á áætlunum, kennsluaðferðir og námsmat þar sem slíkar upplýsingar eykur og viðheldur trausti á milli nemanda og kennara.
JAFNINGJASTUÐNINGUR
Nemendur sem hafa upplifað áföll halda oft að þeir séu einir á báti. Stuðningur frá öðrum með sambærilega reynslu getur reynst góður og eflt von, traust og öryggi, jafnframt því að stuðla að bata.
SAMVINNA
Lögð er áhersla á að bati eigi sér stað með samskiptum við annað fólk.
VALDEFLING
Lögð er áhersla á að nemandinn hafi rödd og val eða að valdefla hann með það að markmiði að efla styrkleika hans, hæfni og seiglu.
JAFNRÉTTI
Þá er horft fram hjá staðalímyndum varðandi kyn, aldur, trú, kynhneigð, menningu og uppruna. Öll eru jöfn þeim er mætt þar sem þau eru stödd hverju sinni.
Elisabet Nord (2023) leggur til áfallamiðaða nálgun sem kallast The three pillars of trauma-informed care sem er byggð á víðtækum rannsóknum Dr. Howard Bath á börnum og áföllum. Nálgunin veitir fullorðnum einstaklingum sem vinna með börnum grunnþekkingu á áföllum og hvernig þeir geta skilið og brugðist við þörfum barnanna. Þrjár stoðir leiðbeina starfsmönnum hvernig þeir geta hjálpað börnum að upplifa öryggi, jákvæð tengsl og aðferðir til þess að bregðast við. Unnið er með umhverfi barnanna og það nýtt til þess að börnum líði vel og séu örugg.
Barn sem hefur upplifað áfall finnst það vera eitt og treystir ekki fullorðnum. Tryggja þarf öryggi þeirra bæði líkamlegt og tilfinningalegt. Flestum börnum langar að tilheyra og vera eins og önnur börn. Þau eiga það til að skammast sín fyrir að vera ekki eins. Hvernig geta þau tilheyrt hópnum? Flest börn þrá ekkert meira. Þau börn sem komast í gegnum áföll eru þau sem mynda tengsl við fólk. Það verður að hjálpa þeim að mynda þessi tengsl.
Dr. Bath segir að það skipti meira máli að stuðningur komi frá kennara en að nemandi ráði við tilfinningar sínar. Spyrjum okkur að því hvernig við getum hjálpað þeim að róa sig og nefna tilfinningar sínar.
Hér fyrir neðan eru myndbönd þar sem Dr. Howard Bath fer yfir í mjög stuttu máli út á hvað áfallamiðuð nálgun gengur út á.
Karen Nóadóttir hefur skrifað um og haldið fyrirlestra um áfallamiðaða nálgun í skólum. Hún gaf út bækling fyrir kennara sem má nálgast hjá henni: karennoadottir@gmail.com. Hún er enn fremur að undirbúa vefsíðu sem fjallar um áfallamiðaða nálgun: www.afmn.is sem fer í loftið fljótlega.
Fimm stig menningaráfalls: Hér er krækja í áhugaverða grein um hvernig fólk fer í gegnum fimm stig menningaráfalls þegar það sest að í nýju landi.
Áfallamiðuðnálgun sem byggir á 10 stoðum
https://tipps.ssw.umich.edu/
Dr. Howard Bath hefur skrifað um og haldið fyririlestra um áfallamiðaða nálgun Hér eru tenglar á greinar eftir hann.
https://www.traumebevisst.no/kompetanseutvikling/filer/23_4_Bath3pillars.pdf
Bækur
What Happend To You eftir Oprah Winfrey og Bruce D. Perry
The Boy Who Was Raised As a Dog Bruce D. Perry og Maia Szalavitz