Þegar von er á nýjum nemanda með flóttabakgrunn þarf að huga að aðstæðum og hvernig verður sem best tekið á móti honum. Vert er að hafa eftirfarandi skref í huga:
Skoða eigið viðhorf til fjölmenningarmála og móttöku nemanda með flóttabakgrunn.
Þekkja stefnu og/eða móttökuáætlun skólans.
Hafa ákveðinn samstarfsaðila eða teymi til stuðnings.
Fræðast og fræða aðra nemendur almennt um málefni flóttafólks. Hér er krækja á námsefni um fólk á flótta frá UNHCR á Íslandi.
Undirbúa móttökuviðtal og stöðumat.
Boða foreldra ásamt nemanda í fyrsta viðtal og panta túlk.
Umtalsverðar líkur eru á að nemandinn og foreldrar hans hafi upplifað erfiðleika og áföll sem fylgja því að hafa verið á flótta. Það gerir það að verkum að fólk er oft ekki í stakk búið til að meðtaka upplýsingar í miklu magni. Þetta þarf að hafa í huga, veita þarf upplýsingar í skömmtum og forgangsraða hvaða upplýsingar er mikilvægt að koma fyrst áleiðis. Farsælt er að hafa skilaboðin skýr og í myndrænu formi. Í sumum tilvikum hentar að hafa fundi stutta og tíðari.
Undirbúningur móttökuviðtals:
Skoða þær upplýsingar sem til eru um nemandann, þjóðerni, tungumál, aldur og svo framvegis.
Kunna nöfn nemanda og foreldra.
Undirbúa fundarstað.
Hafa viðeigandi gögn tilbúin, svo sem móttökulista, myndrænt tjáskiptaform og stundaskrá.
Í móttökuviðtali:
Taka á móti nemanda og foreldrum með virðingu.
Gefa sig að viðkomandi, sýna áhuga og bjóða þá velkomna.
Byggja viðtalið á móttökuáætlun skólans og/eða viðeigandi viðtalsgrunni. Margir skólar og sveitafélög hafa sett móttökuáætlanir á vefsíður sínar sem hægt er að skoða og nota til stuðnings.
Afla eins mikilla bakgrunnsupplýsinga og hægt er sem skipta máli.
Sýna alúð, tillitssemi og skilning. Láta foreldra vita að þeir geti talað við starfsfólk skólans um málefni sem varða skólagöngu nemanda og annað það sem kann að hafa áhrif á hana.
Gefa skýr og markviss skilaboð og útskýringar.
Útskýra í mjög stuttu máli náms- og stundaskrá nemandans og aðlögun hans að skólanum.
Sýna viðkomandi skólann og skólastofur.
Hvetja foreldra til þess að fylgja barninu í skóla og á frístundaheimili til að byrja með. Það eykur líkur á:
að veita barninu öryggi.
að foreldrar kynnast daglegu starfi barnsins.
að foreldrar fái innsýn í skólastarfið almennt.
gagnkvæmum kynnum og trausti foreldra og starfsfólks.
að foreldrar fái tækifæri til að aðstoða barnið við að deila þekkingu sinni og reynslu.
Hér er hægt að nálgast gátlista með atriðum sem ætti að hafa í huga við undirbúning móttökuviðtals.
Hér er hægt að nálgast móttökuviðtal
Eftir móttökuviðtal:
Gera aðila ábyrgan fyrir aðlögun nemandans, til að mynda; umsjónarkennara, stuðningsaðila, námsráðgjafa, félagsráðgjafa, verkefnastjóra eða ÍSAT kennara. Samband kennara og nemenda í þessum málaflokki skiptir sérstaklega miklu máli.
Undirbúa (í samvinnu við umsjónarkennara ef hann kemur ekki að fyrsta viðtali) komu nemandans í skólann;
o stuðla að inngildandi skólaumhverfi og bjóða hann velkominn.
o hafa borð, starfsstöð, fatahengi, verkefni eða námsgögn tilbúin fyrir komu og merkt nafni nemandans.
o undirbúa myndrænt skipulag og tækifæri til myndrænna tjáskipta.
o undirbúa aðra nemendur fyrir komu með upplýsingum um nafn, þjóðerni og aðstæður nemandans.
o hvetja aðra nemendur til þess að sýna nýja nemandanum hlýju og vinskap ásamt því að leiðbeina honum um rými skólans (hér er krækja í verkefni sem kallast: Tveir í takt þar sem samnemendur fá formleg hlutverk í móttöku nýs nemanda).
Undirbúa hlutbundin verkefni, eða námsefni við hæfi, út frá mati samkvæmt fyrsta viðtali.
Framkvæma stöðumat, gera samantekt og kortleggja námslega stöðu nemandans.
Upplýsa alla kennara sem koma að nemandanum um stöðu hans, getu og færni út frá stöðumati.
Gott er að nýta áfallamiðaða nálgun í skólastarfi og að allir gangi í takt þegar kemur að framkomu við nemanda með flóttabakgrunn og skipulagi náms.
Nota myndræn samskipti og önnur tjáskiptatækni. Nýta þá sem tala móðurmál nemandans, ef þeir eru til staðar, til þess að auðvelda samskipti í upphafi. Ræða mikilvægi þess og leggja áherslu á að nota ekki ensku (nema ef hún er sterkasta tungumál nemandans, og í neyð) sem hækju heldur frekar myndræn tjáskipti og íslensku.
Passa upp á að nemandinn einangrist ekki.
Tryggja að aðlögun sé í takt við getu hvers nemanda og að viðeigandi bjargir séu aðgengilegar svo sem næðisrými, efniviður til skynörvunar og stuðningur.
Huga að ofantöldum þáttum í aðlögunarferli nemandans, setja markmið og meta stöðuna reglulega.
Byggja upp traust og öflugt foreldrasamstarf. Fræða foreldra um mikilvægi þeirra í aðlögunarferli og íslenskunámi.
GAGNLEGIR TENGLAR
Upplýsingar um móttöku frá Miðju máls og læsis
Hér er krækja í námsefni um fólk á flótta frá UNCHCR
Caring for Syrian Refugee Children-final.pdf (cmascanada.ca)