Starfsemi grunnskóla á að taka mið af því markmiði að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna og að þeir njóti bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans. Þess skal gætt að vinnuálag í skóla sé hæfilegt þannig að nemendur fái nægjanlega hvíld frá skipulögðu starfi innan hvers skóladags og skólaárs. Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um námsumhverfi þeirra, námstilhögun og fyrirkomulag skólastarfs, sem og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eins og unnt er.
Meginmarkmið grunnskóla er að:
Stuðla að víðsýni hjá nemendum.
Efla færni þeirra í íslensku máli, skilning nemenda á íslensku samfélagi, sögu þess og sérkennum, högum fólks og á skyldum einstaklingsins við samfélagið, umhverfið og umheiminn.
Veita nemendum tækifæri til að nýta sköpunarkraft sinn og afla sér þekkingar og leikni í stöðugri viðleitni til menntunar og þroska.
Leggja grundvöll að frumkvæði og sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra.