Meginhlutverk teyma um nemendur er að stuðla að farsælli skólagöngu og besta mögulega árangri þeirra náms- og félagslega, stuðla að auknum skilningi og tryggja upplýsingaflæði milli aðila. Ef nemandi er með einstaklingsnámskrá þá eru haldnir reglulegir teymisfundir.
Fundir teyma snúast um gengi nemandans í skólanum og hafa m.a. það hlutverk að styðja við starfsfólk skólans og foreldra við að finna bestu lausnir til hagsbóta fyrir nemandann.
Tryggt er að raddir nemenda fái rúm á teymisfundum með beinni þátttöku eða gegnum þá aðila sem mest vinna með þeim.
Deildarstjóri stoðþjónustu hefur yfirsýn yfir fjölda teyma í skóla, virkni þeirra, setu starfsmanna í þeim og stjórnun þeirra.
Góð stjórnun teyma tryggir virkni þeirra og framkvæmd ákvarðana sem teknar eru svo og eftirfylgni með þeim.
Þverfaglegir starfshættir teyma miða að því að samhæfa úrræði, tryggja skilvirka þjónustu, stytta boðleiðir og tryggja upplýsingamiðlun.
Stuðningsmiðaðir starfshættir teyma miða að því að miðla þekkingu um dagleg störf þeirra sem eru virkir í daglegu umhverfi nemandans, auka skilning og samræma væntingar til nemandans með það að markmiði að stuðla að sterkri sjálfsmynd og sjálfstæði hans í skólasamfélaginu.
Einstaklingsnámskrá og stuðningsáætlun nemanda er ætíð til umfjöllunar í teymum um viðkomandi nemendur.
Skráning teymisfunda og ákvarðanir fylgja einstaklingsnámskrá og stuðningsáætlun nemandans.