Gátlisti fyrir skóla

Uppfært 9.10.2020

Covid 19 hefur kallað á mikla og skapandi endurskoðun á þeim leiðum sem mögulegt er að fara til að skerða sem minnst nám og kennslu komi upp smit eða sóttkví í skólastarfi. Til að styðja betur við skólana í þessu nýja og hreyfanlega náms- og kennsluumhverfi hefur skóla- og frístundasvið útbúið sérstakan gátlista fyrir gerð viðbragðsáætlunar fyrir hvern skóla til að vera betur undir það búnir að breyta kennsluháttum úr staðnámi í sveigjanlegt nám studdu af neti (e. hybrid learning). Ekki er um miðlæga viðbragðsáætlun að ræða heldur er gert ráð fyrir að hver skóli útbúi sína viðbragðsáætlun með tilliti til aðstæðna. Á sama tíma getur þannig verið um að ræða hefðbundið staðnám í húsi, nám stutt af neti og alfarið fjarnám. Leiðarljósið í öllu starfinu er að nám og kennsla raskist sem allra minnst.

Leiðarljósið skal ætíð vera það að enginn nemandi verði útundan, að námslegri framvindu sé viðhaldið og skapandi lausna sé leitað til að halda virkni nemenda og virkri þátttöku þeirra í skólastarfinu. Það er hægt að gera með fjölmörgum leiðum séu kennarar með nægar bjargir, séu hugmyndaríkir og með nægilega þekkingu til að nýta sér það sem hjálpar til við slíkt.

Gátlisti fyrir gerð viðbragðsáætlunar vegna náms studdu af neti

  1. Leggja skal áherslu á að kennarar vinni saman í teymum í lausnaleit og skapandi kennsluháttum. Teymin skal skilgreina af skólastjórnendum út frá þekkingu og hæfni til að nýta stafrænar leiðir í skólastarfi. Markmiðið er að styrkja jafningjamiðlun og auka færni allra í nýtingu náms og kennslu á stafrænan hátt.

  2. Allir kennarar skulu hafa aðgengi að eigin fartölvu til að tryggja að þeir geti unnið utan skólans komi til lokunar skóla tímabundið vegna Covid.

  3. Skilgreina skal hvert kennarar geta leitað eftir stuðningi vilji þeir auka þekkingu sína á nýjum leiðum í námi studdu af neti. Má þar nefna vefinn www.menntastefna.is og þjónustu Nýsköpunarmiðju menntamála SFS (Nýmið).

  4. Tilgreina skal sérstakan tengilið eða teymi innan skólans sem allir starfsmenn geta leitað til varðandi aðstoð við notkun upplýsingatækni í námi og kennslu.

  5. Upplýsa skal kennara um þann stuðning sem þeir geta fengið utan skólans, s.s. hjá upplýsingatæknideild (UTR) og ráðgjöfum af skóla- og frístundasviði.

  6. Samskipti og upplýsingamiðlun milli skóla og heimila er lykilatriði í sveigjanlegu námi studdu af neti. Mikilvægt er að kennarar/stjórnendur haldi áfram að nota tölvupóst, vikupósta, símtöl eða aðrar leiðir til að miðla og vera í sambandi við nemendur/fjölskyldur. Ef það hefur ekki verið reglan er góður kostur að koma á reglulegri upplýsingamiðlun.

  7. Koma þarf verkfærum (s.s. námsbókum, stílabókum, ritföngum) til nemenda sem ekki hafa aðgang að slíku.

  8. Tryggja skal að nemandi hafi aðgang að viðeigandi tæknibúnaði heima, tölvu eða snjalltæki. Sé slíkt ekki mögulegt skal skólinn útvega tæki til láns.

  9. Ganga skal úr skugga um að nemandi hafi aðgengi að neti heima. Ef slíkt er ekki fyrir hendi skal leita aðstoðar UT ráðgjafa á Nýsköpunarmiðju SFS.

  10. Hver nemandi skal hafa skilgreindan tengilið úr skólanum (umsjónarkennara eða annan) sé hann fjarverandi frá skóla. Ef áhyggjur vakna af stöðu nemandans skal tengiliður vera í sambandi við foreldra/forráðamenn og eftir atvikum nemendaverndarráð.

  11. Tryggja skal að haft sé samband við hvern einasta nemanda á hverjum virkum degi í fjarveru hans frá skóla. Það er hægt að gera með því að nota t.d. skólalausnir Google (s.s. Google Meet og Google Classroom) eða með símtali, eftir aðstæðum

  12. Gæta þarf sérstaklega að aðstoð við þá nemendur sem gætu þurft námslegan og félagslegan stuðning. Hægt er að leita til miðlægrar stoðþjónustu s.s. Brúarsmiða Miðju Máls og læsis, kennsluráðgjafa á þjónustumiðstöðvum og sérkennslufulltrúa á fagskrifstofu SFS

  13. Ef kemur til lokunar skóla vegna smita eða sóttkvíar og nauðsynlegt reynist að flytja nám og samskipti yfir á net eða í annað form þarf að skipuleggja námið út frá aðstæðum hverju sinni. Sveigjanlegt nám með stuðning af neti snýst ekki um að yfirfæra hefðbundna skólaumhverfið inn í rafrænt umhverfi

  14. Í sveigjanlegu námi studdu af neti skal halda eins mikið og mögulegt er í hæfniviðmið sem lögð hafa verið til grundvallar í kennsluáætlunum skólaársins. Verði breytingar á þeim skal upplýsa bæði nemendur og forráðamenn um það.

  15. Gera þarf áætlun um hvernig haga skal námsmati með tilliti til sveigjanlegs náms. Mikilvægt er að sýna skilning við verkefnavinnu og taka tillit til mismunandi aðstæðna barna þegar kemur að námslegum stuðningi heima fyrir.

  16. Huga þarf að fjölbreyttum kennsluháttum og leggja áherslu á skapandi verkefni sem geta aukið gleði nemenda og gert nám fjarri skólanum eins gefandi og innihaldsríkt og mögulegt er. Mikilvægt er að hafa áherslur menntastefnunnar að leiðarljósi þar sem fagmennska og samstarf setja barnið sem virkan þátttakanda í öndvegi.