Sveigjanlegt nám
- stutt af neti

Sveigjanlegt nám (e. hybrid learning) stutt af neti getur farið fram á margvíslegan hátt. Í sveigjanlegu námi spilar kennslufræði fjarnáms og þau verkfæri sem að því snúa stóran þátt í skipulagi skólastarfs, sérstaklega ef nemendur og/eða kennarar fara í sóttkví, loka þarf skólum eða ef neyðarstig er sett á. Eftirfarandi gátlisti getur gagnast við skipulagningu sveigjanlegs náms studdu af neti:

Fjarnám á sér stað þegar meirihluti náms nemenda er sinnt utan skólans. Fjarnám er í flestum tilvikum óháð stað og stund en innan tiltekins tímaramma. Fjarnám krefst ákveðins skipulags og sjálfsaga af hálfu allra aðila og það hentar nemendum misvel með tilliti til aðstæðna og aldurs.

Það er eins með fjarkennslu og aðra kennslu að ein og sama leiðin hentar ekki öllum. Aldur og aðstæður nemenda, fagþekking og reynsla kennara og búnaður eru á meðal þeirra fjölmörgu þátta sem hafa áhrif á hve vel tekst til. Galdurinn er að finna hvað hentar hverjum kennara og nemendum hans best. Alveg eins og þegar kennari stendur fyrir framan bekk í kennslustofu þá er lykilatriði að finna út hvað hentar hópnum best í rafræna umhverfinu.

Gott er að byrja á því að skoða hvað stað- og fjarnám eiga sameiginlegt, en einnig hvað aðskilur þessar leiðir.

Sameiginlegt

Hvort sem þú ert kennari í stað- eða fjarnámi:

  • Þú ert sérfræðingur í þínu fagi og þekkir þína nemendur best

  • Þú notar fjölbreyttar leiðir til að meta skilning og vinnu nemenda þinna

  • Þú leiðbeinir nemendum þínum í verkefnum og vinnu

  • Þú vísar nemendum á ítarefni sem styður við skilning þeirra á efninu sem unnið er með hverju sinni

  • Þú leitast við að tengja nám nemenda við raunveruleg viðfangsefni

  • Þú leitast við að aðstoða alla nemendur við að ná markmiðum sínum

Ólíkt

Í fjarnámi:

  • Þú munt líklega eiga fleiri samtöl við nemendur því þú hittir oft smærri hópa í einu eða ræðir maður á mann í gegnum ýmsar samskiptaleiðir

  • Samskipti munu líklega fara að miklu leyti fram í gegnum tölvupóst, námsumsjónarkerfi (t.d. Google Classroom og Meet), síma en einnig með endurgjöf á verkefni nemenda

  • Nemendur munu hugsanlega vinna á mismunandi tímum sólarhringsins, byrja á mismunandi tíma á verkefnum og fara mishratt í gegnum þau

  • Líklega verður minna um langar innlagnir og meira um verkstýringu af þinni hálfu.

Gott að hafa í huga

Aðstæður skóla eru mismunandi og geta breyst með stuttum fyrirvara t.d. vegna sóttkvíar kennara eða nemenda.

Þegar skólastarfið er fært frá staðnámi yfir í sveigjanlegt nám stutt af neti er eins gott að hafa atriðin í köflunum hér fyrir neðan í huga.
Smelltu á örina til hægri við heiti kafla til að skoða þessi hagnýtu atriði.

  1. Óþarfi að finna upp hjólið en vertu undirbúin/n

Þegar fjarnám er skipulagt í fyrsta skipti er best að styðjast við verkfæri sem þú og nemendur þínir þekkja. Þetta á sérstaklega vel við ef nám fer frá staðnámi yfir í fjarnámi með litlum fyrirvara. Gott er að byrja á því að huga að upplýsingaflæði og samskiptum við nemendur og heimili:

  • Ertu nú þegar í góðum og stöðugum samskiptum við heimilin í gegnum rafræna miðla (tölvupóst, námsumsjónarkerfi, heimasíða, Mentor/Námfús)? Ef svo er þá er óþarfi að breyta því. Ef ekki er best að nýta þau verkfæri sem skólinn notar helst.

  • Tryggja skal að haft sé samband við hvern einasta nemanda á hverjum virkum degi í fjarveru hans frá skóla. Það er hægt að gera með því að nota t.d. skólalausnir Google (s.s. Google Meet og Google Classroom) eða með símtali, eftir aðstæðum.

  • Hafðu í huga að ekki er hægt að reikna með sömu viðveru nemenda fyrir framan skjáinn eins og viðvera þeirra er í skólanum. Mælt er með því að vinna nemenda fari jafnt fram í gegnum tölvu og frá tölvunni.

  • Hvernig ætlar þú að koma upplýsingum um skipulag, verkefni og gögn til nemenda? Best er ef teymi koma sér saman um hvaða verkfæri á að nýta s.s. Google Classroom, Google Sites, heimasíðu skólans, Mentor, Námfús eða annað.

  • Vertu búin/n að kynna vel það verklag og netlausnir sem þú ætlar að nota með nemendum ef til sveigjanlegs náms kemur.

  • Hafðu í huga að hugsanlega þarf að koma verkfærum (s.s. námsbókum, stílabókum, ritföngum eða tölvubúnaði) til nemenda sem ekki hafa aðgang að slíku.

  • Tryggðu að allir (nemendur og aðstandendur) viti hvert er hægt að leita ef þeir lenda í vandræðum, t.d. með aðgangsorð?

2. Einfalt er betra en flókið

Fjarnám hefur ekki verið algengt í grunnskólum og því er mikilvægt að gera ekki of miklar kröfur til þín, nemenda og forráðamanna í þessum nýju aðstæðum. Vertu opin/n fyrir mistökum og hafðu hlutina eins einfalda og mögulegt er:

  • Nýttu alltaf sömu samskiptaleiðir til að koma skipulaginu á framfæri til nemenda og forráðamanna. Markviss upplýsingamiðlun og samskipti geta tryggt nemendum öryggi og nauðsynlega festu.

  • Sendu stutt dagleg/vikuleg skilaboð á einhverju formi til nemenda og aðstandenda. Tíðni fer eftir aldri nemenda og eðli kennslunnar.

  • Einfalt og skýrt skipulag hentar best í sveigjanlegu námi. Mælt er með því að halda sig við fast skipulag sem nemendur þekkja og t.d. hefja/ljúka öllum dögum með sama hætti.

  • Haltu sama skipulagi alla daga eða á milli vikna (ef það á betur við). t.d. hefja/ljúka öllum dögum með sama hætti. Yngri nemendur þurfa fasta rútínu fyrir skipulag hvers dags en eldri nemendur, sem ráða við það, geta mögulega fengið sveigjanlegra vikuskipulag.

  • Settu skipulagið fram á skýran máta svo allir séu með hreinu til hvers sé ætlast. Nýttu t.d. myndræna gátlista yfir verkefni dagsins til að aðstoða nemendur að skipuleggja tíma sinn.

  • Bútaðu niður verkefni og skilaboð sem þú sendir frá þér svo aðalatriðin skili sér. Hugaðu sérstaklega að nemendum og heimilum með annað móðurmál en íslensku.

  • Hafðu sömu uppsetningu á öllum verkefnum (best er ef nemendur kannast við fyrirkomulagið)

  • Nýttu upplýsingatækniverkfæri sem nemendur og aðstandendur hafa notað áður (og allir hafa aðgang að!)

3. Gættu að tímanum

Ekki er mælt með að yfirfæra stundaskrá bekkjar í heild sinni yfir í fjarnám og - kennslu. Þú þekkir þína nemendur best en bandarísku samtökin National Board of Professional Teaching Standards miða við eftirfarandi viðveru nemenda við skjáinn.

  • 1-2 klukkutíma á dag á yngsta stigi

  • 2-3 klukkutíma á miðstigi

  • 3-4 klukkutíma á unglingastigi

Athugið að þessi viðmið eiga við um viðveru nemenda við tölvu (s.s. innlagnir, hópavinna, samtal við kennara) en tilgreina ekki tímalengd verkefnavinnu á hverjum degi.

Sveigjanlegt nám stutt af neti gefur tilefni til að skoða vel hvaða viðfangsefni er hægt að samþætta þvert á námsgreinar og vinna í lotum, þar sem nemendur flæða á milli vinnu í tölvu/snjalltæki og annarra verkefna sem tengjast efni dagsins.

Í sveigjanlegu námi er mælt með að skipulag og framkvæmd miðist sem mest við aðstæður nemenda hverju sinni. Það þýðir að nemandi er ekki endilega að vinna verkefni dagsins í rauntíma í gegnum tölvu (e. synchronous) heldur þegar honum hentar (e. asynchronous) innan gefins tímaramma. Það eru kostir og gallar við þetta fyrirkomulag og til þess að það gangi upp þarf að búa þannig um hnútana að nemendur eigi greiðan aðgang að öllum gögnum og verkefnum, hvar og hvenær sem er.

Mælt er með kennslu í rauntíma þegar nemendur eru að kynnast eða styrkja samskipti í gegnum ákveðin verkef ni eða hópefli. Þetta á ekki bara við í byrjun skólaársins heldur þarf að viðhalda þessu. Samtal í rauntíma gefur færi á að sjá viðbrögð viðmælanda strax. Kennsla í rauntíma hentar líka vel þegar allur hópurinn þarf að taka ákvörðun saman, þegar þú vilt fá svör frá sem flestum strax eða þegar þú vilt kynna eitthvað stuttlega og bjóða upp á spurningar og svör í lokin sem allir heyra.


4. Hugaðu að sjálfum þér

Samskipti við nemendur og heimili eru mikilvæg en það er líka mikilvægt að þú hugir að þér og þínu nánasta umhverfi á meðan á sveigjanlegu skipulagi stendur, sérstaklega ef um er að ræða sóttkví eða aðrar óviðráðanlegar aðstæður.

  • Gefðu upp ákveðinn tíma dagsins þar sem þú svarar símtölum og tölvupóstum frá nemendum og aðstandendum - og haltu þig við tímann.

  • Mundu að að hafa vinnuumhverfið sem þægilegast og taktu líka frá tíma á hverjum degi þar sem þú stendur upp frá tölvunni í fyrirfram ákveðinn tíma.

  • Húmor er mikilvægur þáttur í starfi og leik. Mistök gerast, þú átt örugglega eftir að segja eitthvað hallærislegt. Hafðu húmor fyrir sjálfri/sjálfum þér.

Þessi síða er upplýsingaveita fyrir kennara og stjórnendur í grunnskólum Reykjavíkurborgar.
Síðan verður uppfærð eftir því sem aðstæður kalla á.