Mat á námi, þroska og velferð barna felur í sér að safnað er upplýsingum um það sem börn fást við og hafa áhuga á; hvað þau vita, geta og skilja. Markmið matsins er að auka þekkingu og skilning leikskólakennara, annars starfsfólks og foreldra á þroska barna, námi þeirra og líðan. Mat á að vera einstaklingsmiðað því börn sýna getu, þekkingu, hæfni og áhuga á ólíkan hátt. Sérfræðiþjónusta sveitafélaga í leikskólum skal stuðla að jafnrétti til náms og vellíðan allra barna. Hún veitir ráðgjöf og fræðslu vegna barna ef foreldrar og/eða starfsfólk leikskóla telja þess þurfa. Þetta er gert til að geta veitt börnunum sem besta menntun, uppeldi og umönnun og umhverfi við hæfi. Mikilvægt er að mat byggi á samvinnu við foreldra þar sem þau búa yfir mikilvægum upplýsingum og þekkingu um sín eigin börn.
Mat á árangri og framförum er reglubundinn þáttur í skólastarfi, órjúfanlegur frá námi og kennslu. Megintilgangur með því er að veita leiðbeinandi upplýsingar um námið og hvernig markmiðum þess verður náð. Með námsmati er fylgst með því hvernig tekst að ná almennum hæfniviðmiðum aðalnámskrár, hvernig stuðlað sé að námshvatningu sem örvar nemendur til framfara og hvernig metið sé hvaða aðstoð þeir kunna þurfa. Einstaklingsnámskrár eru gerðar fyrir börn sem þurfa stuðning í lengri eða skemmri tíma og eru þær námskrár endurskoðaðar með reglulegu millibili