Námsmat nemenda í 1. - 7. bekk er þannig að í öllum greinum er unnið eftir hæfniviðmiðum Aðalnámskrár. Unnið er með leiðsagnarmat í öllum árgöngum og staðan tekin við lok 4. bekkjar og svo í lok 7. bekkjar. Staðan er metin út frá hæfni -og matsviðuðum aðalnámskrár.
Nemendur munu aðeins fá afhendan vitnisburð við lok 4. og 7. bekkjar. Lokamat er þá gefið í bókstöfum A-D.
Einstaklingsviðtöl eru á miðju og í lok skólaárs þar sem farið er nánar yfir námsstöðu nemanda.
Námsmat í 8. -10. bekk er einnig leiðsagnarmat, nemendur munu fá afhendan vitnisburð við lok hvers skólaárs, en stefnt að matsviðmiðum 10. bekkjar strax við upphaf 8. bekkjar. Lokamat er gefið í bókstöfum A-D, í einstaka valgreinum er gefið lokið/ólokið.
Horft er á hvert stig sem eina heild og hæfnikort nemenda fylgir þeim í hverri grein frá ári til árs.
Mikilvægt er að foreldrar fylgist vel með námi barna sinna á mentor. Góðar útskýringar og leiðbeiningar má finna á heimasíðu GRV.
Sjúkrapróf, verkefni og verkefnaskil
Nauðsynlegt er að kennarar séu samstíga varðandi verkefnaskil og töku sjúkraprófa. Gott er að vita nákvæmlega til hvers er ætlast og hvaða viðmið eru í gangi. Á unglingastigi gildir að ef nemandi getur ekki tekið próf vegna veikinda mun kennari leggja það fyrir hann eins fljótt og auðið er. Sú staða gæti komið upp að nemandinn taki prófið á bókasafni eða hjá stjórnendum.
Velji kennari að láta nemanda taka próf í næsta tíma hjá sér lætur hann nemandann og forráðamann vita.
Skráður skiladagur verkefna og ritgerða er lokaskiladagur.
Vitanlega koma af og til upp aðstæður hjá nemanda/í fjölskyldum sem verða til þess að fyrirséð er að nemandinn nái ekki að skila á réttum tíma. Þá hafa foreldrar/forráðamenn samband við kennarann og semja um annan skiladag. Að öðrum kosti er ekki tekið við verkefninu/ritgerðinni.