Nemendur

Í Grunnskóla Vestmannaeyja er unnið eftir uppbyggingarstefnunni, Uppeldi til ábyrgðar. Unnið er að því að nemendur þjálfist í að skoða hvernig þeir geti uppfyllt þarfir sínar á jákvæðan hátt án þess að það komi niður á þeim sem í kringum þá eru. Þjálfist í að ræða um þarfir sínar og tilfinningar og að leysa ágreining á jákvæðan hátt. Tekið er mið af því að allir nemendur þurfi að finna fyrir öryggi, umhyggju, frelsi, gleði, að þeir ráði við verkefnin og að vinnubrögð séu lýðræðisleg. Þessar grunnþarfir eru hafðar í fyrirrúmi í skipulagi skólastarfsins.


Jákvæður skólabragur

Skólinn leggur upp með að nemendum sé skipt í nýja bekki þegar komið er á nýtt stig. Nemendum í 5. bekk verður skipt í nýja bekki í tengslum við teymiskennslu á miðstigi og svo sé nemendum aftur skipt í nýja bekki þegar farið er á unglingastig, í 8. bekk.

Við gerð stundaskrár eru hagsmunir nemenda hafðir að leiðarljósi og tímalengd kennslustunda miðuð að því. Lögð er áhersla á samfellu í stundaskránni, þannig að nemendur geti að öllu jöfnu hafið nám kl 8:20 að morgni og lokið því í einni lotu. Valtímar á unglingastigi geta þó verið undantekning frá því. Tímar nemenda í hverju fagi í sama árgangi eru látnir liggja saman ef þess gefst kostur. Þetta fyrirkomulag gefur kennurum tækifæri til að vinna saman með ólíkar gerðir námshópa og koma þannig betur til móts við einstaklingana í bekkjunum.

Stór þáttur í jákvæðum skólabrag er að námsumhverfi nemenda sé gott og skólinn notalegur staður til að vera á. Því er mikilvægt að nemendur gangi vel um húsnæðið sjálft, húsbúnað og gögn. Nemendur geta lagt sitt af mörkum til að skapa góðan skólabrag með því að vera tillitssamir, jákvæðir, vinnusamir og snyrtilegir í allri umgengni.

Lögð er áhersla á að nemendur temji sér náms- og sjálfsaga, komi vel undirbúnir í kennslustund, sýni umburðarlyndi, kurteisi og háttvísa framkomu. Grundvallarréttindi nemenda eru að hafa vinnufrið í skólanum. Einnig ættu nemendur að leggja áherslu á sjálfsvirðingu, efla sjálfsmynd sína, borgaravitund og virðingu fyrir öðrum. Starfsfólk skólans telur mikilvægt að nemendur hafi jákvæða sjálfsmynd. Áhersla er lögð á að nemendum sé sýnd virðing og leitast er við að draga fram það jákvæða í fari hvers og eins.