Samstarf milli GRV og FÍV hefur verið gott í gegnum árin. Nemendur í 10. bekk, sem hafa sýnt framúrskarandi árangur í ákveðnu fagi hafa átt möguleika á að taka áfanga í Framhaldsskólanum, ef það passar. Einnig hafa nemendur átt möguleika á að útskrifast úr grunnskóla eftir 9. bekk og þá er það gert í samvinnu milli skólastiga. Ráðgjafar í skólunum eru í góðri samvinnu varðandi nemendur með sérþarfir, þegar kemur að því að nemendur fari úr grunnsskóla í Framhaldsskóla. Nemendur hafa átt möguleika á að sækja valáfangi í FÍV, vél- og málmgreinar. Kennarar í FÍV og GRV hafa reynt að hafa samstarfsfundi 1x á ári.
Víkin 5 ára deild er starfrækt í skólahúsnæði Hamarsskóla og varð hluti af GRV haustið 2016, en þar eru öll 5 ára börn í Vestmannaeyjum á leikskóla. Gott samstarf er á milli starfsfólks og nemenda á 5 ára deild og í 1. bekk.
Síðastliðin ár hefur skipting deilda á Víkinni ákvarðað skiptingu í bekki í 1. bekk í GRV. Það hefur gefist vel og ef þörf er á tilfærslum milli hópa er reynt að gera það frekar á meðan nemendur eru á Víkinni, áður en skóli hefst.
Að vori funda deildastjórar og aðstoðarleikskólastjóri með stjórnendum í Hamarsskóla þar sem farið er yfir hópinn og stuðningsþörf metin.
Deildarstjórar á Víkinni funda svo með tilvonandi umsjónarkennurum í 1. bekk og fara yfir nemendur í hópnum.
Tilvonandi umsjónarkennarar eru með nemendur í vorskóla 2 daga í maí.
Foreldrafundur með tilvonandi 1. bekk er haldinn í maí þar sem farið er yfir komandi skólaár hjá nemendum sem hefja nám við skólann að hausti.