Hugmyndafræði og stefnur

Sýn á nám leikskólabarna

Leikskólastarf og leikskólauppeldi byggir á sérstökum uppeldisaðferðum og sérstakri hugmyndafræði. Þeir sem vinna að leikskólauppeldi sækja hugmyndir til kenninga, rita og rannsókna ýmissa fræðimanna um það hvernig börn læra og þroskast. Uppeldi og menntun leikskólabarna er samvinnuverkefni allra kennara í leikskóla þar sem velferð og hagur barna á að vera leiðarljós í öllu starfi. Veita á börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Nám í leikskóla er samþætt og fer fram í leik, umönnun, samskiptum, skapandi starfi og hugsun þar sem hverju barni er mætt þar sem það er statt í námi og þroska. Í leikskólum nota leikskólakennarar öll tækifæri sem gefast til að örva nám barna. Umönnun er stór hluti af leikskólastarfinu og er fólgin í því að annast börnin líkamlega og andlega af hlýju, áhuga og ábyrgðarkennd. Með slíkri umönnun skapast tilfinningatengsl og trúnaðartraust. Starfshættir leikskóla mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Leikurinn í allri sinni fjölbreytni er kjarninn í uppeldisstarfi leikskólans. Leikurinn er meginnámsleið barna. Hann er sjálfsprottinn og börnum eðlislægur þar sem þau leika sér á eigin forsendum og af frjálsum vilja Leikurinn skapar börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar og þróa félagsleg tengsl við önnur börn. Í leik taka börn þátt í lýðræðislegum athöfnum þegar þau setja fram eigin hugmyndir og þurfa jafnframt að virða sjónarmið annarra.

Í leiknum eflast vitrænir og skapandi þættir. Leikurinn kallar á fjölbreytta notkun tungumálsins, hreyfingu, félagsleg samskipti og tilfinningatengsl. Frjálsum leik er gefinn góður tími í dagskipulaginu í Kirkjugerði. Áhersla er lögð á að leikföng og efniviður séu opin og sveigjanleg svo að börnunum gefist tækifæri til að skapa óheft og frjálst. Í leiknum geta börnin unnið með og gert tilraunir með hugmyndir sínar og öðlast þannig nýjan skilning og þekkingu.