Þátttaka foreldra í skólastarfi hefur hvetjandi áhrif á börn og eykur líkur á góðum námsárangri. Á hverju hausti setja kennarar saman námsáætlanir þar sem fram koma áherslur í námi, markmið, námsþættir, námsefni, hugtök sem unnið verður með og námsmat.
Mikilvægt er að foreldrar styðji við bak barna sinna og skólans m.a. á eftirfarandi hátt:
Sjái til þess að börnin mæti vel úthvíld og á réttum tíma í skólann.
Sýni áhuga á námi barna sinna í verki með því að skoða verkefni þeirra reglulega og fylgjast með því að þau skili heimavinnu á réttum tíma.
Hlusti á heimalestur og kvitti fyrir eftir fyrirmælum kennara.
Taki þátt í foreldrasamstarfi.
Aðstoði börn sín við að skipuleggja tíma sinn til náms- og tómstundaiðkana.
Fylgist vel með námsframvindu barna sinna.
Ef foreldrar verða varir við að börnin fylgjast ekki nógu vel með eða skilja ekki heimaverkefnin sín þarf að hafa samband við viðkomandi kennara.
Sama gildir ef óeðlilega lítið eða mikið er að læra í ákveðinni námsgrein.
Vert er að hafa í huga að ef börn eru illa stödd í einhverri námsgrein getur áhugi og aðstoð foreldra haft mikil áhrif í þá átt að bæta stöðuna.
Foreldrar barna í 1. bekk eru boðaðir á kynningarfund vorið áður en skólaganga hefst. Fyrsta skóladaginn er einstaklingsfundur, þar gefst þeim kostur á að koma ýmsum upplýsingum á framfæri við umsjónarkennara. Eftir skólasetningu er stuttur hópforeldrafundur þar sem farið er yfir helstu þætti sem hafa þarf í huga í byrjun skólaárs.
Einstaklingsfundir eru í janúar/febrúar og í maí. Kennarar boða alla nemendur í 1.-10. bekk og foreldra þeirra til sín á fund. Engin kennsla er þessa daga.
Hópforeldrafundir eru í september. Farið yfir áherslur vetrarins, kosning á bekkjarfulltrúum.
Einstaklingsfundur í janúar/febrúar: Farið er yfir námsframvindu og líðan nemenda með foreldrum og nemendum
Einstaklingsfundur í maí: Farið yfir námslega stöðu nemandans, hvernig skólaárið endaði og markmið sett fyrir komandi vetur.
Tölvupóstur á að vera virkt samskiptatæki milli heimilis og skóla. Kennarar eru í tölvusambandi við foreldra/forráðamenn allt skólaárið.
Mentor er mjög öflug samskipta- og upplýsingaleið sem allir hafa aðgang að. Kerfið er á netinu og heldur utan um nemenda- og starfsmannaskráningu skólans. Kennarar skrá ástundun nemenda sinna og inn á mentor má finna námsáætlnir og hæfni – og matsviðmið fyrir hverja grein sem og aðrar tilkynningar. Aðgangs- og lykilorð má nálgast á skrifstofu skólans.
Bekkjarskemmtanir eru haldnar í öllum árgöngum og oftast eru þær skipulagðar í samstarfi kennara og foreldra.
Skólinn er opinn foreldrum. Þeir ávallt velkomnir í heimsókn í samráði við kennara. Á skólatíma eru kennarar oft með ýmiskonar verkefni í gangi þar sem foreldrar eru boðnir velkomnir.
Skólasetning og skólaslit eru samkomur í upphafi og við lok hvers skólaárs. Gaman er að sjá sem flesta foreldra við þessi hátíðlegu tækifæri.
Heimasíða skólans www.grv.is er aðgengileg öllum og þar eru upplýsingar um daglegt skólalíf auk verkefna og mynda frá atburðum innan skólans. Umsjónarmaður síðunnar er Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri GRV.
GRV er einnig með virka facebook síðu þar sem svipmyndir úr skólalífinu og upplýsingar um viðburði í skólanum eru birtar reglulega.
Boðskortum í afmæli eða sambærilegu efni er óheimilt að dreifa innan skólans. Undantekningu má gera þegar öllum nemendum (eða öllum drengjum/stúlkum) í bekknum er boðið. Í þeim tilvikum má dreifa kortum innan bekkjarins (í bekkjarstofu) með vitund og samþykki kennara.