Skólinn

Í Vestmannaeyjum er einn grunnskóli, Grunnskóli Vestmannaeyja (GRV) staðsettur í tveimur starfsstöðvum, Hamarsskóla þar sem nemendur í 1. – 4. bekk eru og Barnaskóla Vestmannaeyja sem er fyrir 5. – 10. bekk. Árið 2006 voru Barnaskóli og Hamarsskóli sameinaðir í einn skóla, Grunnskóla Vestmannaeyja. Um 540 nemendur stunda nám í sameinuðum skólanum.

Þess má geta að fyrsti barnaskóli landsins var settur á stofn í Vestmannaeyjum árið 1745. Hann starfaði í u.þ.b. 10 ár, en þá voru ekki til peningar til frekari starfrækslu hans. Barnaskólinn hefur starfað samfleytt í Vestmannaeyjum frá 1880.

Skólastjóri Grunnskóla Vestmannaeyja er Anna Rós Hallgrímsdóttir annaros@grv.is

Barnaskóli

Barnaskóli Vestmannaeyja er elstur skóla í Vestmannaeyjum og hefur starfað samfellt frá árinu 1880 að talið er. Skólinn stendur við skólaveg og var elsti hluti hans tekinn í notkun árið 1917. Byggt hefur við skólann fjórum sinnum; fyrst var íþróttasalur byggður árið 1929, en nú er hann notaður sem samkomu- og matsalur; því næst sá hluti byggingarinnar þar sem anddyri og skólaskrifstofur eru til húsa, síðan sá hluti þar sem miðdeild skólans er með aðstöðu og loks sá hluti þar sem unglingadeildin er til húsa. Í elsta hluta byggingarinnar – gamla skólanum – eru yngstu bekkir með aðstöðu. Mið- og unglingastig (5. -10. bekkur) er í Baranskóla, um 320 nemendur.

Aðstoðarskólastjóri í Barnaskóla er Einar Gunnarsson einargunn@grv.is

Hamarsskóli

Hamarsskóli tók til starfa haustið 1982 og voru nemendur þá 250 á aldrinum 6 – 11 ára í þrettán bekkjardeildum. Skólinn átti að þjóna vestari hluta bæjarins en hann stendur miðsvæðis í vesturbænum. Með tímanum fjölgaði nemendum og varð heilstæður grunnskóli fyrir aldurinn 6 – 16 ára. Nemendafjöldinn varð mest um 330 nemendur í átján bekkjardeildum. Þremur kennslustofum var bætt við skólann um áramótin 2002/2003. Yngsta stigið (1. – 4. bekkur) er í Hamarsskóla, um 220 nemendur. Árið 2009 var stofnuð leikskóladeild í húsnæði Hamarsskóla fyrir öll 5 ára börn og tilheyrir sú deild Grunnskóla Vestmannaeyja. Haustið 2020 var Frístundaver fært inní Hamarsskóla og tilheyrir núna Grunnskóla Vestmannaeyja.

Aðstoðaskólastjóri í Hamarsskóla er Óskar Jósúason oskar@grv.is Leikskólastjóri Víkurinnar 5. ára deild, er Guðrún Þorsteinsdóttir gudrun@grv.is og forstöðumaður Frístundar er Anton Örn Björnsson anton@vestmannaeyjar.is