Grunnskólalög kveða á um að hver grunnskóli meti með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs með virkri þátttöku starfsmanna, nemenda og foreldra eftir því sem við á.
Á haustdögum 2019 var myndað matsteymi í kringum innra mat skólans. Í matsteyminu eru þrír deildarstjórar, tveir kennarar, einn stuðningsfulltrúi, einn ritari, einn nemandi og eitt foreldri. Teymið skiptir með sér verkum, kýs formann, fer yfir langtímaáætlunina og vinnur að endurskoðun starfsáætlunar, skólanámsskrár og læsisstefnu.
Veturinn 2020 - 2021 var teymið ekki virkt sem slíkt vegna erfiðleika við að funda, en deildarstjórar sinna samantekt á mælanlegum þáttum skólastarfsins.
Í nóvember 2021 var framkvæmt ytra mat á skólanum. Menntamálastofnun stendur að matinu sem unnið er fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Niðurstöður birtast í opinberri skýrslu sem verður meðal annars birt á heimasíðu Menntamálastofnunar, mms.is og hér á heimasíðu skólans.
Matinu er fyrst og fremst ætlað að styðja skóla við að auka gæði náms og skólastarfs ásamt því að stuðla að umbótum. Tilgangurinn er einnig að afla upplýsinga fyrir fræðsluyfirvöld, starfsfólk skóla, foreldra og nemendur um skólastarfið, árangur þess og þróun ásamt því að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá grunnskóla.
Í skýrslunni er gerð grein fyrir stöðu skólans á metnum þáttum og eru styrkleikar og tækifæri til umbóta hvers matsþáttar settar fram.