Grunnþættir menntunar

Hvernig vinnur GRV eftir grunnþáttum menntunar ?

Í Aðalnámskrá grunnskóla hafa verið skilgreindir sex grunnþættir í menntun. Þessir grunnþættir eru læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Þættirnir snúast um læsi á samfélag, umhverfi og náttúru, einnig um framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif og taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa.

Þeim er ætlað að undirstrika meginatriði í almennri menntun, stuðla að samfellu í skólakerfinu og ná til starfshátta, inntaks og námsumhverfis á öllum skólastigum. Þeir eiga að birtast í inntaki námsgreina og námssviða aðalnámskrár, í hæfni nemenda, námsmati, skólanámskrá og innra mati skólans. Þar sem grunnskólastigið er eina skólastigið sem nemendum er skylt að sækja er það mikilvægur vettvangur til að þroska með nemendum hæfni í anda þessara þátta og til að búa þá undir þátttöku í lýðræðissamfélagi.