Íþróttafélög


Íþróttaakademía Grunnskóla Vestmannaeyja og ÍBV-íþróttafélags

Hefur verið starfrækt í 9. og 10. bekk frá ársbyrjun 2012. Þar er boðið upp á tækni- og styrktaræfingar í knattspyrnu, handknattleik og fimleikum. Nemendur í akademíu sækja tvo styrktaræfingartíma á viku, í stað hefbundinna íþróttatíma, undir handleiðslu þjálfara ÍBV og einn hefðbundinn íþróttatíma. Í hefðbundna íþróttatímanum munu nemendur stunda nám í sundi eins og þurfa þykir. Tækniæfingar eru í nokkrum lotum yfir veturinn en þá vinna þjálfarar ÍBV með nemendum í íþróttatímum stundatöflunnar. Lögð verður áhersla á bóklegt nám fyrir nemendur akademíu og eru þeir tímar að jafnaði tvisvar í mánuði. Íþróttakennari GRV og þjálfarar ÍBV vinna allt skipulag saman og sjá um æfingar og bóklega hluta akademíunnar. Markmiðið með stofnun akademíunnar er að auka tæknilega færni nemenda í sinni íþróttagrein og bæta líkamlegt ástand þeirra til að standa betur undir þeim kröfum sem íþróttir gera til iðkenda. Einnig er þetta tækifæri til að auka samstarf milli skóla og íþróttafélags.

Nemendur á unglingastigi hafa möguleika á að taka hluta af valáföngum hjá íþrótta - og æskulýðsfélögum í bænum. Nemendur sem eru að æfa íþrótt geta notað æfingar sem hluta af vali, einnig er í boði aðstoðarþjálfun, sem hluti af vali.