Í Víkinni er lögð áhersla á að samstarf heimilis og skóla byggi á gagnkvæmri virðingu í opnum samskiptum. Sjónarmið foreldra og framlag þeirra til leikskólastarfsins eru mikilvægir liðir í því að hafa heildarsýn á velferð og líðan barna. Við sýnum fjölbreyttum fjölskyldugerðum og menningu skilning og virðingu. Tökum vel á móti öllum börnum og foreldrum svo að allir finni sig velkomna í Víkinni. Markmið okkar er að allir upplifi vingjarnlegt viðmót og traust. Mikilvægt er að mynda gott traust á milli leikskóla og heimilis. Báðir aðilar verða að geta deilt sjónarmiðum sínum og tekið sameiginlegar ákvarðanir er varða börnin. Lögð er rík áhersla á að barnið skynji öryggi og gott viðmót þar sem það getur haft úrslitaþýðingu varðandi góð samskipti og tengsl. Þegar barn byrjar í aðlögun er lagður hornsteinn að samstarfi foreldra og leikskóla.
Í Víkinni er unnið samkvæmt sérstakri mótttökuáætlun þegar börn af erlendum uppruna hefja leikskólagöngu sína. Markmiðið með áætluninni er að barnið fái þau verkfæri sem það þarf til þess að gera sig skilnanlegt við starfsmenn leikskólans á meðan það er að tileinka sér íslenskuna. Einnig er fjallað um í áætluninni hvernig samskiptum og upplýsingastreymi milli forelda og skóla er háttað.
Í leikskólanum ríkir fullur trúnaður um allar nauðsynlegar upplýsingar er varða barnið og foreldra þess. Öllum starfmönnum er skylt að gæta þagmælsku um alla þá vitneskju sem þeir fá í starfi sínu. Starfsfólk leikskólans undirritar sérstakt þagnarheit sem helst þó látið sé af starfi.
Á haustin er haldinn foreldrafundur þar sem farið er yfir vetrarstarfið sem framundan er og dagskipulag leikskólans rætt. Árlega að hausti eru foreldraviðtöl þar sem deildarstjóri fer með foreldrum yfir félagslega stöðu barnsins og almennan þroska. Foreldrar geta þó alltaf óskað eftir viðtali við leikskólastjóra, aðstoðarleikskólastjóra eða deildastjóra.
Foreldrum er einnig boðið nokkrum sinnum á ári á ýmsar uppákomur s.s. opið hús, foreldrakaffi, sumarhátíð, útskrift og fleira.
Á upplýsingatöflum, Facebooksíðum deilda, tölvupóstum og heimasíðu leikskólans geta foreldrar séð hvað börnin eru að fást við daglega og einnig hvaða viðburðir eru framundan.
Foreldrafélag er starfandi í Grunnskóla Vestmannaeyja og á Víkin sinn fultrúa þar.
Í Víkinni starfar einnig foreldraráð sem kemur að faglegu starfi leikskólans og kynnir sér meðal annars árlega starfsáætlun skólans.
Mikilvægt er að skil milli skólastiga séu vel gerð og upplýsingar um það má finna með því að smella á hnappinn hér fyrir neðan.