Skóli sem lærdómssamfélag
Örlítið meira um gagn af samræmdum prófum
Örlítið meira um gagn af samræmdum prófum
Reykjanesbær, 26. febrúar 2024
Ég hef áhuga á hugmyndinni um lærdómssamfélagið af því að ég held að hún sé góður grunnur fyrir skólastarf. Lærdómssamfélag snýst um að samstarfsfólk vinni saman að því að gera gott starf stöðugt betra. Þetta er gert með því að tryggja samstarfsfólkinu góðan tíma til ígrundunar þar sem það setur sér skýr markmið, forgangsraðar verkefnum og kemur saman til að meta stöðuna og taka ákvarðanir um næstu skref.
En hvernig fer svona ígrundun fram? Byggir hún alfarið á samtali, innsæi og þekkingu fólksins sem tekur þátt? Ég hef í lengra máli fjallað um áhyggjur mínar af því að í íslenskum skólum séum við ekki nógu dugleg að nýta gögn um stöðu nemenda til að byggja ígrundun og ákvarðanir okkar á. Í þessum pistli vil ég árétta þetta.
Starf skóla er mjög lifandi. Starfsfólkið þarf stöðugt að vera að meta þarfir og fylgjast með hvort markmið séu viðeigandi fyrir þá nemendur sem unnið er með hverju sinni, hvort leiðirnar sem valdar eru virki fyrir nemendahópinn í dag. Góður kennari nær árangri í starfi sínu með nemendum af því að hann kann að hlusta á þá og þekkir fjölbreyttar leiðir að sama markmiði. Góður kennari getur því valið þær leiðir sem henta ólíkum nemendum og stutt alla til að ná árangri í náminu sínu, að "læra meira í dag en í gær". Góður kennari hefur líka skýra sýn á hver markmið skólastarfsins eru og getur oft metið stöðu nemenda óformlega og nokkuð hratt með því að fylgjast með þeim í daglegu starfi.
En að mínu mati þurfa góðir kennarar líka að nota harðari gögn en innsæi sitt og læsi á nemendur til að meta stöðu þeirra og gefa þeim skýra endurgjöf. Þess vegna hlakka ég til þegar við grunnskólakennarar fáum aðgang að nýrri og betri tækjum til að fylgjast með grunnfærni nemenda til dæmis í lesskilningi. Slík tæki eiga að vera hluti af matsferli sem nú er í smíðum hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (fráfarandi Menntamálastofnun).
Matstækin sem birtast munu í Matsferlinum eru samræmd próf. Slík próf hafa á sér mjög neikvæða mynd vegna þess að þau hafa oft verið notuð á þann hátt að það hefur ekki eflt nemendur í námi þeirra. Stundum hafa niðurstöður samræmdra prófa líka verið notaðar til að hampa ákveðnum skólum á kostnað annarra sem hafa fengið skammir fyrir að kenna nemendum ekki nógu vel. Ég vona að matsferillinn lendi ekki í þessum farveg heldur verði nýttur innan skólanna til að leiðbeina nemendum og efla kennsluhætti.
Gögn á borð við niðurstöður samræmdra prófa eru nefnilega mikilvæg í lærdómssamfélagi skóla. Til að lærdómssamfélag kennara og nemenda sé öflugt verða aðilar að horfast í augu við árangur starfsins og þeir verða að hafa skýrar upplýsingar til að geta metið hvort starfið sé á réttri leið eða hvort bæta þurfi ákveðna starfshætti. Niðurstöður samræmdra prófa eru gögn sem ættu að vera í mikilvægu hlutverki í ígrundun kennara um stöðu nemenda og árangur þeirra í náminu. Á grunni þessarar skoðunar geta kennarar veitt nemendum endurgjöf en líka ígrundað hvort að þær leiðir sem þeir hafa nýtt í kennslunni sinni nýtist nemendum nægilega vel, eða hvort leita þurfi annarra leiða með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Ég er fylgjandi samræmdum prófum í þessu samhengi, en ekki af því að ég telji þau það eina sem skiptir máli í skólastarfi.