Ég er kennari sem hef í námi mínu og störfum lagt sérstaka áherslu á að nýta heimspekilega samræðu til kennslu í gagnrýninni og skapandi hugsun. Ég trúi því að samræða nemenda, það er skipulagt og gagnrýnið samtal í nemendahópum, sé grundvallar kennsluaðferð sem ætti að vera áberandi í öllum skólastofum. Samræða er valdeflandi og hún er mikilvæg til að efla læsi nemenda, byggja upp sjálfsmynd og félagsfærni. Í samræðu þjálfa nemendur skapandi og gagnrýna hugsun auk þess að efla hæfni sína í lýðræðislegum vinnubrögðum.
Öll störf mín hafa tengst menntun. Ég hóf kennsluferilinn 1996 í Síðuskóla á Akureyri, kenndi í nokkur ár í Garðaskóla í Garðabæ og var þar skólastjórnandi í um 15 ár. Í þrjú ár tók ég þátt í að móta starf á unglingastigi Stapaskóla í Innri-Njarðvík þar sem ég kenndi íslensku, lífsleikni og fleira í samþættu starfi. Ég hef alla tíð unnið með unglingum og hef sérstakan áhuga á því þroskaskeiði. Samhliða störfum í grunnskólum hef ég verið stundakennari við nokkrar kennaradeildir á Íslandi: Menntavísindasviðs, Listaháskólans og Háskólans á Akureyri. Nú starfa ég sem sérfræðingur í málefnum aðalnámskrár hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu.
Glætan er vefur sem ég set upp til að halda utan um alls konar verkefni sem ég hef unnið og gera þau aðgengileg þeim sem hafa áhuga á. Mér finnst óhemju skemmtilegt að skipuleggja kennslu og skapa námsefni. Ef fleiri geta nýtt þetta efni þá gleður það mig.
Nafnið á vefnum tengist hugðarefnum mínum en í íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar þrjár merkingar fyrir kvenkyns nafnorðið glæta:
dauft ljós, örlítil birta
DÆMI: ég sá daufa glætu í glugganum
DÆMI: það var niðamyrkur og hvergi glæta
glóra, skynsemi
DÆMI: það er ekki glæta í því sem hún segir
upphrópun sem lýsir undrun eða vanþóknun (óformlegt )
DÆMI: glætan að ég bjóði þér í bíó!
Þróunarverkefni í Stapaskóla
Námsefni fyrir valgreinina Origami
Samþætting á elsta stigi Stapaskóla
Öndun, hugleiðsla og hreyfing í skólastarfi
Uppáhaldsuppskriftir á Hólagötu 43
Fjölskyldan ferðast um Vestur-Evrópu veturinn 2024-2025